Á kvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja til hliðar öll áform um jarðgöng til Vestmannaeyja er mikið fagnaðarefni. Árum saman hefur hávær hópur Vestmanneyinga haldið uppi stöðugri umræðu um framkvæmdir af þessu tagi með þeim afleiðingum að málið hefur litað stjórnarmálaumræður þar í bæ og raunar í Suðurkjördæmi öllu. Flestum sem málið hafa skoðað hefur þó virst frá upphafi að þessar hugmyndir væru með öllu óraunhæfar og ljóst að jafnvel þótt unnt yrði að leysa verkið af hendi tæknilega – sem alls ekki er augljóst – þá yrði um svo risavaxna og kostnaðarsama framkvæmd að ræða að engan veginn væri réttlætanlegt að ráðast í hana. Þess ber auðvitað að geta, að ekki er gott að festa hönd á hugsanlegum kostnaði og mismunandi niðurstöður hafa verið birtar í þeim efnum, en enginn vafi getur verið um að verkið myndi kosta tugi milljarða króna – spurningin er bara hvort um yrði að ræða 40, 60 eða 80 milljarða. Það þarf því engum blöðum um það að fletta, að sú lausn sem ríkisstjórnin boðar í samgöngumálum Vestmanneyinga, það er ný ferja og höfn í Bakkafjöru, er mun ódýrari. Felur hún þó vissulega í sér mikil útgjöld úr ríkissjóði eða allt að sex milljörðum króna miðað við áætlanir. Og kannski var það eftir allt helsta markmið þeirra sem kröfðust jarðganga til Vestmannaeyja að kostnaður við aðrar leiðir í samgöngumálum eyjanna yrði álitinn smáaurar í samanburði við jarðgöngin.
„Undanfarin einn og hálfan áratug hafa ríkisstjórnir undir forystu Sjálfstæðisflokksins unnið skipulega að því að gera skattkerfið einfaldara, skilvirkara og réttlátara með því að afnema undanþágur og sértækar lausnir, en lækka þess í stað skattþrep, öllum til hagsbóta. Vissulega má þó segja að sveigt hafi verið af þessari braut með því að draga til baka 1% lækkun á tekjuskatti einstaklinga um síðustu áramót og með því að fara í sértækar lækkanir á virðisaukaskatti í vor í stað þess að lækka skattinn almennt.“ |
Það verður það vera einhver vitglóra í útgjöldum til mála af þessu tagi og hið opinbera verður að sníða sér stakk eftir vexti þegar ákvarðanir eru teknar um einstakar framkvæmdir. Verkefnin eru óþrjótandi, kröfurnar endalausar og pólitískur þrýstingur úr einstökum byggðarlögum og landsvæðum linnulaus. Þingmenn og frambjóðendur í einstökum kjördæmum eru eins og dæmin sanna viðkvæmir fyrir þrýstingi af þessu tagi og oft er reynslan sú að ef einn byrjar að gefa loforð fylgja hinir á eftir. Stundum ná þeir sjálfir því markmiði að þrýsta svo kröftuglega á félaga sína á þingi og í ríkisstjórn að til framkvæmda kemur, jafnvel þótt lítið vit virðist í verkinu. Dæmi um það eru Héðinsfjarðargöngin, sem allir flokkar lofuðu fyrir kosningarnar 2003 og þingmenn kjördæmisins hafa haldið lifandi þótt oftar en einu sinni hafi verið tekin ákvörðun um frestun. Nú er verkið komið af stað og vart verður aftur snúið, þótt það hafi aldrei notið neins sérstaks stuðnings utan nálægustu byggðarlaga og flestum öðrum hafi vaxið kostnaðurinn mjög í augum. Hugsanlega hafa Vestmanneyingar treyst á að atburðarásin yrði sú sama, en sem betur fer hafa allflestir þingmenn kjördæmisins verið tiltölulega varkárir í málinu og þingmenn úr öðrum kjördæmum aldrei tekið kröfugerðina alvarlega. Umræðan hefur hins vegar haldið áfram og hinum almenna Vestmanneyingi þannig með vissum hætti gefnar falsvonir um að einhvern tímann gæti orðið af gangagerðinni. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því fyrir helgi eru hins vegar mörkuð ákveðin þáttaskil, þannig að Vestmanneyingar geta nú farið að gera áætlanir til framtíðar byggðar á raunhæfum áformum á samgöngumálum.
En það er auðvitað á fleiri sviðum en í samgöngumálum sem reynir á að alþingismenn láti ekki undan kröfugerð sérhagsmunahópa um fjárútlát úr ríkissjóði eða sértækar aðgerðir af einhverju tagi. Slíkar kröfur eru sífellt uppi. Tvenns konar kröfur af því tagi hafa heyrst að undanförnu og byggja í báðum tilvikum á því að ríkið eigi að stýra þróuninni í samfélaginu með skattfríðindum til tiltekinna aðila. Annars vegar hefur Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins og fyrrverandi þingmaður ýmissa flokka endurvakið hugmynd um sérstök skattfríðindi til handa landsbyggðarfólki. Hin hugmyndin er sú, að svokölluðum sprotafyrirtækjum verði ívilnað með sérstökum hætti í skattamálum. Síðarnefnda hugmyndin virðist njóta stuðnings innan Samfylkingarinnar og hefur að minnsta kosti einn ráðherra hennar, hinn orðvari Björgvin G. Sigurðsson, meðal annars tekið undir hana í blaðagrein. Fyrirtækjum, sem sjá fram á að njóta ívilnunarinnar, líst að sjálfsögðu vel á málið, en enginn virðist gera sér grein fyrir því að með þessu væri um að ræða meiri háttar stefnubreytingu og afturhvarf í skattamálum. Undanfarin einn og hálfan áratug hafa ríkisstjórnir undir forystu Sjálfstæðisflokksins unnið skipulega að því að gera skattkerfið einfaldara, skilvirkara og réttlátara með því að afnema undanþágur og sértækar lausnir, en lækka þess í stað skattþrep, öllum til hagsbóta. Vissulega má þó segja að sveigt hafi verið af þessari braut með því að draga til baka 1% lækkun á tekjuskatti einstaklinga um síðustu áramót og með því að fara í sértækar lækkanir á virðisaukaskatti í vor í stað þess að lækka skattinn almennt. Samfylkingin, sem þá var í stjórnarandstöðu, studdi þessar sértæku lækkanir á virðisaukaskattinum og það hefðu átt að vera næg viðvörunarmerki um að fara ætti aðra leið.
Þessi stefna sem fylgt var undanbragðalítið fram á síðasta ár hefur skilað ótvíræðum ávinningi, atvinnulífið er öflugra en nokkru sinni fyrr, kaupmáttur almennings hefur vaxið sem aldrei fyrr og um leið hafa tekjur ríkissjóðs aukist. Umtalsvert lægri skattprósenta, bæði á fyrirtæki og einstaklinga, skilar miklu meiri tekjum í ríkissjóð en hærri skatthlutföll gerðu á árum áður. Þeir sem nú tala fyrir sértækum lausnum til að aðstoða einhverja sem eru þeim þóknanlegir virðast lítið hafa lært af þessari reynslu. Samfylkingarmenn eru kannski enn fangar þeirrar hugmyndafræði sem þeir töluðu fyrir í stjórnarandstöðu, en því verður að treysta að sjálfstæðismenn láti þá ekki komast upp með að skemma þær mikilvægu kerfisbreytingar, sem átt hafa sér stað í skattamálum á undanförnum árum.