Laugardagur 28. júlí 2007

209. tbl. 11. árg.

Hann fór. En þær minjar hann eftir sig átti
sem alþýða sá.
Sem einsdæmi á Vestfjörðum inn eftir byggðum
hans akvegur lá.
Hann kvaddi með gjöfum og sveitinni sjálfri
lét sjóðeign í té
sem fátækra fé.

– Guðmundur Ingi Kristjánsson, Sólbakki. 

Þ að munaði um Norðmanninn Ellefsen þegar hann hafði sest að við Önundarfjörð og komið þar á fót hvalstöð sem varð eitt stærsta fyrirtæki landsins á sinni tíð. Og eins og Guðmundur Ingi segir í tæplega sjötíu ára gömlu ljóði sínu þá nutu Flateyringar ýmissa verka Ellefsens, löngu eftir að hann var farinn sjálfur. Sömu sögu má að sínu leyti segja um annan Flateyring, og það ekki aðkomumann, sem kvaddur er í dag, að lengi munu kunnugir sem ókunnugir njóta góðs af þeim verkum hans sem mestu skipta frá almennu sjónarmiði.

Það er óhætt að segja að þeir, sem fyrir duttlunga – og í sumum tilfellum hrekkvísi – örlaganna, ná kjöri til Alþingis, séu þangað komnir sem talsmenn æði ólíkra sjónarmiða. Sumir munu raunar vera saklausir af flestum lífsskoðunum öðrum en þeirri að þeir sjálfir þurfi endilega að verða leiðtogar sinnar kynslóðar og það fremur fyrr en síðar – en margir þingmenn hafa þó komið sér upp einhverjum skoðunum eða sérsjónarmiðum sem tengjast að minnsta kosti einhverjum stjórnmálalegum álitaefnum.

Svo eru þeir sem raunverulega eiga erindi á þing. Einar Oddur Kristjánsson var á margan hátt fulltrúi heilbrigðrar skynsemi á Alþingi. Eða – og það fer raunar oftar saman en margur hyggur – fulltrúi þess Íslands sem einu sinni var og væri skaði að ef hyrfi. Fulltrúi þess Íslands sem ekki er horfið í gin manna með sérfræðititil, þess Íslands þar sem ríki og sveitarfélögum er ekki einum trúandi fyrir því sem gera skal, þess Íslands þar sem ekki brestur á allsherjartaugaveiklun útaf engu og það þegar minnst varir, þess Íslands sem man að verðmætin verða til í atvinnulífinu, þess Íslands sem stendur líka við munnlega samninga, þess Íslands sem ekki er í framboði til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þess Íslands þar sem hæstu greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru ekki til hátekjumanna í fæðingarorlofi, þess Íslands sem ekki myndi mæta ef halda ætti minningarathöfn um lifandi hund.

Þeir kölluðu hann bjargvættina frá Flateyri þegar ein ríkisstjórnin enn hafði gefist upp á íslenskum efnahagsmálum og skipað sér ráðgjafanefnd til að koma nú með einhverjar tillögur. Einar Oddur varð formaður slíkrar nefndar undir lok níunda áratugar síðustu aldar og undir forystu hans voru lagðar fram róttækar tillögur sem hefðu getað haft töluverð áhrif. En íslenskt stjórnmálalíf þá var eins og það var.

En þó tillögur Einars Odds og félaga hans hafi fallið í grýtta jörð og stjórnmálamenn ekki haft einhlítan sóma af framgöngu sinni, þá reyndist þetta starf undanfari annars og meira. Það var ekki mörgum misserum síðar sem forystumenn vinnuveitenda og verkalýðsfélaga, undir forystu nýs formanns Vinnuveitendasambands Íslands, Einars Odds Kristjánssonar, tóku í raun ráðin af þáverandi ríkisstjórn, og gengu til þeirra samninga sem nefndir hafa verið þjóðarsátt – samninga sem urðu fyrsta raunhæfa skrefið í baráttu við verðbólgu sem mældist í tugum prósenta á ári. Fyrir þetta mega Íslendingar lengi minnast Einars Odds Kristjánssonar.

Einar Oddur var kjörinn á þing árið 1995 og sat þar allt til yfir lauk. Á þingi var hann ósjaldan á réttara róli en aðrir þingmenn. Hann tók oft upp hanskann fyrir hinn almenna skattgreiðanda þegar ekki urðu aðrir til þess og oft var hann einbeittastur andmælandi hins pólitíska rétttrúnaðar sem vaxið hefur jafnt og þétt í þingsölum undanfarin misseri. Einar Oddur sagði oft það sem aðrir hugsuðu en þorðu ekki að segja og stundum það sem aðrir hefðu sagt ef þeir hefðu þorað að hugsa. En þrátt fyrir þetta þá er það svo, að þegar horft er til baka yfir þjóðmálaferil Einars Odds, að það er ekki fyrir þingferilinn sem nafni hans verður lengst haldið á lofti. Frumkvæði Einars Odds í baráttunni við verðbólguna og efnahagsöngþveitið var slíkt að hinn óbreytti þingmannsferill hans verður að nokkru leyti eins og síðari forsætisráðherraferill Churchills; skilaði vissulega hinu og þessu – en sess hans í sögunni var í raun fullmótaður og tryggður áður.

Einar Oddur Kristjánsson var á margan hátt óvenjulegur sem stjórnmálamaður. Hann fór eigin leiðir án þess að leiðast út í lýðskrum og óheilindi. Hann eyddi ekki tíma sínum í rannsóknir á því hvað einstakir hópar kjósenda kynnu að vilja heyra, en sagði það sem honum fannst, en án þess yfirgangs og tillitsleysis sem sumir halda að séu óhjákvæmilegir fylgifiskar hreinskilni. Í ræðustól talaði hann sérstakt en tilgerðarlaust mál sem bæði skildist og gaman var að skilja. Hann var í senn baráttumaður og gleðimaður og öðlaðist með því vinsældir fleiri en þeirra sem deildu með honum öllum stjórnmálaskoðunum hans. Fjörutíu árum eftir að Önfirðingurinn Guðmundur Ingi orti um hinn norska Ellefsen sem hóf Flateyri til vegs og virðingar, orti hann nokkurs konar leiðbeiningavísu um daglega framgöngu, og hvort skyldi hún ekki hafa verið frænda hans Einari Oddi Kristjánssyni að skapi:

Brosandi skaltu ganga þinn veraldarveg
ef von þín er traust og ætlunin frambærileg.
Ekki skaltu með andvörpum ryðja þér leið.
Ánægja þín á að vígja þitt baráttuskeið.
Daglætin renni sem dáðir í göngunnar slóð.
Dagmálagleðin skal semja þitt kvöldvökuljóð.