Föstudagur 27. júlí 2007

208. tbl. 11. árg.

Í

Ævintýrið um Obwalden og Nidwalden í Unterwalden endar vel. Obwalden hefur nú sett háu skattana á safn.

gær hélt Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands ráðstefnuna „Skattalækkanir til kjarabóta“. Ráðstefnan fór fram í Þjóðminjasafninu en Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og maðurinn á bak við ráðstefnuna hefur upplýst að þar séu háir skattar einmitt best geymdir.

Meðal þeirra sem fluttu erindi í Þjóðminjasafninu í gær var Pierre Bessard forstöðumaður Constant de Rebecque-stofnunarinnar í Lausanne í Sviss. Hann sagði frá hinum sjálfstæðu kantónum í heimalandi sínu en þær leggja til að mynda mjög mismunandi skatta á borgara sína. Hann gat sérlega tveggja þeirra, Obwalden og Nidwalden, sem eru eins konar hálfkantónur innan kantónunnar Unterwalden. Þær eru til saman ekki nema um 28 kílómetrar á hvorn kant eða 767 ferkílómetrar. Þær eru landfræðilega mjög líkar og fátt hefur skilið þær að annað en mjög mismunandi skattar. Jafnvel skjaldarmerki þeirra eru mjög lík og fara vel saman í skjaldarmerki Unterwalden sem sjá má á myndinni hér til hliðar. Hin misjöfnu skatthlutföll hafa hins vegar haft mikil áhrif á hve mörg fyrirtæki hafa starfsemi á hvorum stað. Þegar menn þurfa ekki annað en að tölta niður götuna til að komast í miklu lægri skatta nýta ansi margir sér það með tíð og tíma, bæði einstaklingar og fyrirtæki úr hópi skattgreiðenda. Kostnaðurinn við að kjósa með fótunum er lítill. Fyrir nokkrum árum var munurinn orðinn svo mikill að kjósendur í Obwalden samþykktu með 87% atkvæða að lækka skatta hressilega svo fólk og fyrirtæki settust ekki öll að í Nidwalden. Þessi ráðstöfun hefur skilað sér í margföldun á fjölda fyrirtækja.

Þetta litla ævintýri úr miðju Svisslandi kennir kannski einhverjum að það er ekki endilega kostur að staðla allt eins og Evrópusambandið vinnur leynt og ljóst að. Það er mikilvægt að menn geti kosið með fótunum og flutt sjálfa sig og rekstur sinn til annarra sveitarfélaga, héraða, fylkja eða ríkja ef stjórnvöld á viðkomandi stað ganga of nærri mönnum með skattheimtu eða öðrum hætti. Þetta minnir líka á mikilvægi þess að afnema lágmarksútsvar sveitarfélaga á Íslandi. Sveitarfélögin hirða álíka mikið úr launaumslögum landsmanna og ríkið svo það er til mikils að vinna fyrir launþega að það verði alvöru keppni á milli þeirra. En nú er staðan hins vegar sú að ríkið, sem starfrækir Samkeppniseftirlit og situr einkafyrirtækjum alls kyns reglur gegn samráði, lögbindur nánast samráð sveitarfélag um útsvar og skyldar þau til alls kyns verkefna sem ekkert liggur fyrir um að íbúarnir kæri sig um. Og úr því hér er minnst á sveitarfélögin: Hvenær ætlar borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins eiginlega að leggja fram tillögu um að útsvarshækkanir R-listans verði dregnar til baka?

Birgir Þór Runólfsson dósent ávarpaði einnig ráðstefnugesti. Hann lagði til að bæði tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja yrði lækkaður um 6% um næstu áramót. Þar með færi tekjuskattur einstaklinga niður fyrir 30% og tekjuskattur fyrirtækja niður í 12%. Þetta ætti að vera framlag ríkisins til kjarasamninga sem eru lausir um næstu áramót að mati Birgis Þórs. Hann benti á að hinn nær skuldlausi ríkissjóður megi alveg við því að tekjur dragist saman tímabundið, auk þess sem skattalækkun af þessu tagi myndi örva efnahagslífið og hægt sé að afla fjár með einkavæðingu.

Því miður eru fá önnur fyrirheit um skattalækkanir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en að lækka stimpilgjald þegar „aðstæður leyfa“. Einmitt. Hvenær leyfa aðstæður skattalækkanir að mati stjórnmálamanna? Ekki má auka á viðskiptahallann í uppsveiflu. Ekki má auka fjárlagahallann í niðursveiflu. Ekki má raska jafnvæginu í jafnvægi.

Það er raunar eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnmála um þessar mundir að draga úr skatttekjum ríkis og sveitarfélaga. Stjórnmálamönnum hættir til að eyða því sem kemur í kassann. Það þarf að skera fóður niður við ríkisókindina til að hún hætti að þenjast út. Það er best gert með tillögum á borð við þá sem Birgir Þór lagði fram; flatar og ríflegar lækkanir skatthlutfalla.