Á skrifendur Morgunblaðsins fá alltaf eitthvað fyrir peningana sína. Ef það er ekki Andri Snær Magnason að ritdæma Steingrím J. Sigfússon þá er það Arnþór Helgason að yfirheyra Jóhönnu Sigurðardóttur um næstu stórvirkin í félagsmálaráðuneytinu. Og þegar þetta er frá, þá fá áskrifendur Morgunblaðsins brýnt efni eins og “fréttabréf frá Sólveigu Kristínu Einarsdóttur í Ástralíu, sem lagt var undir gervalla miðopnu blaðsins á mánudag, að forystugreinunum einum frátöldum
Það verður kosið til þings í Ástralíu í haust og Sólveig Einarsdóttir fræddi áskrifendur Morgunblaðsins um aðalatriði málsins. Ástralskir kjósendur eru „farnir að sjá í gegnum lygavefina“ hjá John Howard forsætisráðherra en Kevin Rudd, leiðtogi Verkamannaflokksins er sem betur fer ungur og efnilegur og „kemur hiklaust og traustvekjandi fyrir, og hefur ýmsa aðra kosti sem Sólveig telur upp. Varaformaður hans heitir Júlía Gillard, hún er einnig „vel menntuð, góðum gáfum gædd, heldur lengra til vinstri en Kevin Rudd“ og það er ekki allt, því Sólveig tekur fram að það sé „óþarfi að taka fram að Júlía er rauðhærð og hefur bein í nefinu. Þau Rudd og Gillard eru að sögn Sólveigar “ekki auðveld viðfangs svo vægt sé til orða tekið“, svo þetta lítur allt ágætlega út.
Hin vonda ríkisstjórn Ástralíu mun því væntanlega fá til tevatnsins í kosningunum; fólk sér „í gegnum lygavefina“, auk þess sem „[e]f til vill er fólk er ekki alveg eins auðtrúa lengur“ – sem auðvitað á einungis við þegar kemur að málflutningi stjórnarsinna en alls ekki þegar gáfaðir, viðkunnanlegir og rauðhærðir forystumenn Verkamannaflokksins tala – og eins og staða stjórnarinnar sé ekki nógu vonlaus af þessum sökum, þá segir Sólveig að Peter Costello fjármálaráðherra sé „aðaltromp stjórnarinnar“ og eins og vænta má „skortir [hann] jafnt fylgi almennings sem flokksfélaga“.
Það má því verða margs vísari um áströlsk málefni af grein Sólveigar Kristínar Einarsdóttur og skiljanlegt að Morgunblaðið leggi miðopnuna undir hana og kalli „fréttabréf“.
Þeim sem auðnaðist að lesa opnugrein Sólveigar hefur svo kannski þótt tilvalið að setjast niður við sjónvarpið í gærkvöldi. Þá sýndi Ríkissjónvarpið heimildamyndina Lifandi í limbói eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur og fleiri, og er þar fjallað um palestínska flóttamenn. Hrafnhildur þessi kemur lítillega við sögu í fyrstu fjölmiðlabók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðlum 2004, en þar er þessi indæla frásögn af þættinum Í vikulokin sem Ríkisútvarpið heldur úti og Hrafnhildur var gestur í:
Eins og nafnið gefur til kynna er tilgangur þáttarins að fjalla um vikuna sem leið. Fram kom í upphafi þáttarins að Hrafnhildur var í útlöndum hálfa vikuna en þótti einhverra hluta vegna heppilegur gestur í þáttinn. Hildur Helga Sigurðardóttir, umsjónarmaður, spurði Hrafnhildi hvernig vindarnir blésu í Bandaríkjunum, þar sem hún hefði verið. Hrafnhildur svaraði að bragði: „Ja, ég hitti gamla kærustu í New York og við byrjuðum á því að skála fyrir því að Reagan væri dauður.“ Hrafnhildi var ekki vísað á dyr. |
Sú sem hæstánægð segir frá því í útvarpinu að hún hafi skömmu áður setið og skálað fyrir andláti gamals manns, hún er eflaust vel til þess fallin að fræða sjónvarpsáhorfendur um lífskjör palestínskra flóttamanna og það á yfirvegaðan og sanngjarnan hátt.