Mánudagur 25. júní 2007

176. tbl. 11. árg.

Um helgina minntist Vefþjóðviljinn á þá staðreynd, að Akureyringar, þökk sé bæjarstjórn þeirra, eru látnir greiða mánaðarlega af launum sínum hæsta útsvar sem lög frekast heimila. Enginn bæjarfulltrúi leggur til að útsvarið verði lækkað. En allir munu styðja nýjan „samning“ bæjarins og tveggja íþróttafélaga í bænum um meira en hálfsmilljarðs króna nýjar greiðslur úr bæjarsjóði í þágu félaganna.

Og þessi staða er ekki einstök á Akureyri. Víða um land mega skattgreiðendur sæta því að sveitarstjórnarmenn leggi á þá eins hátt útsvar og mögulegt er. Og það sem meira er, sveitarstjórnarmenn þrýsta hverjir á aðra að fara nú með útsvarið upp í topp, meðal annars með þeim rökum að það muni reynast erfiðara að sannfæra ríkisvaldið um að sveitarfélögin þurfi enn meiri peninga, ef of mörg þeirra „fullnýta ekki útsvarsheimildina“.

Hvers vegna er þetta svona? Ein skýring eru prófkjörin. Sveitarstjórnarmenn eru sífellt með hugann við næsta prófkjör. Þá þarf að ná til fjölmennra hópa og það þarf að fá öfluga menn í prófkjörsvinnuna. Stjórnmálamaður, sem kannski byggir fylgi sitt ekki á því að meginþorri kjósenda þekki og meti hann af grundvallarviðhorfum hans og mannkostum, heldur því að nógu margir lítt kunnugir honum taki upp símtólið og hringi í nógu marga algerlega ókunnuga honum og nefni nafnið hans án frekari röksemda, er ákaflega veikur fyrir þegar forsvarsmenn félagasamtaka koma og mæla með nýrri stúku, stærri sundlaug, lengra kórferðalagi og mýkri reiðvegum. Þessir félagsmálaforkólfar munu – hugsar stjórnmálamaðurinn – alveg áreiðanlega muna svar mitt í næsta prófkjöri. Ef ég hins vegar segi: nei herrar mínir, ég vinn í almannaþágu og ætla frekar að lækka útsvarið um núll komma þrjú prósent, hvað verður þá um mig? Fara þeir ekki bara á fullt fyrir hina?

Frjálslynt fólk þarf að láta rödd sína heyrast og koma stjórnmálamönnum í skilning um það, að það er ekki eintóm hrifning yfir öllum útgjaldasamningunum og tímamótaverkefnunum, sem engir hafa þó í raun beðið eftir nema nokkrar frekjur. Stjórnmálamenn þurfa að heyra og skilja, að það styttist óðfluga í að það verði ekki eintóm hamingja fyrir þá í prófkjörum að hafa verið örlátir á annarra fé.

Hvernig er til dæmis með allt þetta unga fólk sem nú hefur tekið sæti í borgar- og sveitarstjórn um allt land? Ætlar ekkert þeirra að leggja til raunverulegar skattalækkanir? Meirihluti Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi lækkaði útsvarið fyrir nokkru, þó betur megi gera þar eins og víða annars staðar. En hvernig er með hina? Hvað segja ungu borgarfulltrúarnir í Reykjavík, ætla þeir kannski að halda útsvarinu í því hámarki sem R-listinn fór með það í? Og hver er staðan þar sem ungt fólk er komið í forystu? Svo dæmi sé tekið í lokin: Rangárþing eystra, þar hefur lengi verið innheimt hámarksútsvar en nú hefur þar tekið við nýr meirihluti, sem Sjálfstæðisflokkurinn leiðir undir forystu ungs sveitarstjóra, Unnar Brár Konráðsdóttur. Er hún tilbúin til að lækka útsvarið hjá sveitungum sínum?