Helgarsprokið 24. júní 2007

175. tbl. 11. árg.

Í Portsmouth á Bretlandi hefur verið ákveðið að fólk sem reykir fái ekki að ættleiða börn eða taka þau í fóstur að því er fram kemur í Daily Telegraph. Krafa þessa efnis hefur meðal annars komið frá félagsskap sem helgar sig málefnum fósturbarna og telur sjálfsagt að með þessu sé hag barnanna best borgið. Það er hins vegar óvíst svo ekki sé meira sagt, því að þúsundir barna á Bretlandi bíða þess að komast í fóstur. Verði reykingafólki meinað að taka að sér börn, blasir við að börnum sem þurfa að dvelja á stofnunum en komast ekki á heimili til fósturforeldra mun fjölga. Það er þess vegna fjarri lagi að þessar reglur þjóni hagsmunum barnanna.

„Ef hið opinbera tekur sér þann rétt að banna fólki að reykja í eigin bílum eða eigin húsum og hindrar það í að taka börn í fóstur ef það reykir eða stöðvar leiksýningar þar sem reykt er á sviðinu, hvar ætli mörkin verði þá dregin? Eða verða engin mörk dregin?“

En þetta mál snýst ekki aðeins um fósturbörn á Bretlandi eða spurninguna um það hvort að fleiri eða færri þeirra verða á stofnunum hins opinbera, þó að það sé vissulega brýnt mál í sjálfu sér. Þetta er ekki síður enn eitt dæmið um þá tilhneigingu að banna allt sem sumum þykir ekki æskilegt. Nú banna reglurnar um fósturbörnin fólki vissulega ekki að reykja en það er að óþörfu og af ósanngirni verið að setja reglur til að reyna að neyða fólk til að hætta að reykja. Reglurnar eru ekki settar vegna umhyggju, heldur vegna skorts á umburðarlyndi. Þessi skortur á umburðarlyndi í garð annarra gengur raunar stundum svo langt að varla er hægt að tala um annað en hreint ofstæki.

Ofstækið sem reykingamenn mega þola er orðið yfirgengilegt og menn hljóta að velta því fyrir sér hvar þetta mun enda. Eða öllu heldur, hvort þetta mun nokkru sinni enda. Verður einhvern tímann búið að taka síðasta skrefið í baráttunni gegn reykingamönnum eða verður haldið áfram á meðan nokkur maður vogar sér að kveikja í vindlingi?

Eins og bent hefur verið á þá mátti til að mynda ekki láta Winston Churchill reykja í leikriti í Skotlandi nýverið þó að sá ágæti maður hafi í lifanda lífi varla nokkurn tímann sést án vindils. Sögunni varð að breyta, sem hefði líklega glatt helsta andstæðing hans, Adolf Hitler, sem fyrirleit fátt eins og reykingar. Svipað var uppi á teningnum á Norður-Írlandi fyrir skemmstu þegar heilbrigðisráðherrann neitaði leikhúsi um undanþágu frá reykingarbanni, en leikhúsið taldi að það væri spurning um listrænt frelsi að fá að sýna reykjandi leikara, eins og BBC greindi frá. Það frelsi verður þó að víkja eins og annað þegar rétttrúnaðurinn hefur innreið sína. Hver voru svo rökin fyrir að banna reykingar leikarans? Þau eru fátækleg eins og fyrri daginn, en einn af fulltrúum í heilbrigðisnefnd landsins hélt því til dæmis fram að leikhúsgestir gætu orðið fyrir skaða af völdum óbeinna reykinga leikarans, sem getur ekki talist annað en hreinn fáránleiki. En hvað þá með reykvélar leikhúsanna? Hvenær verða þær bannaðar til að þjóna duttlungum rétttrúnaðarins?

Nú, er eins og menn vita, bannað að reykja á öllum veitingahúsum og börum hérlendis og það jafnvel þótt allir viðstaddir reyki og vilji ólmir reykja á staðnum. Jafnvel þótt einhverjir vilji stofna sérstaka reykklúbba sem lokaðir eru öðrum en reykingamönnum, þá má það ekki, slíkt er ofstækið. Menn gætu ekki stofnað félag vindlaáhugamanna hér á landi, keypt saman klúbbhús og púað saman án þess að lögreglan bankaði upp á. 

Menn mega ekki heldur reykja í sameignum fjölbýlishúsa og gildir þá einu þótt allir í fjölbýlishúsinu vilji reykja í sameigninni. Löggjafinn hefur látið undan kröfum rétttrúnaðarins og bannað reykingarnar og þar með skert eignarréttinn. Og ofstækið hefur ekki aðeins náð til leikhús Bretlandseyja og fasteigna á Íslandi, það hefur einnig náð til Hollywood. Þar hefur málum nú verið þannig fyrir komið að allar myndir þar sem reykingar sjást eru bannaðar börnum. Það er allt í lagi þó að menn stundi glannalegan hraðakstur innan borgarmarka eða ýmsa aðra iðju sem augljóslega er mun hættulegri en reykingar, það eru bara reykingarnar sem fortakslaust kalla á bannmerkingu.

Nú er sums staðar hægt að sekta menn fyrir að reykja í eigin bílum ef „börn“ undir 18 ára eru með í för. Einkaheimili fólks eru vafalítið næst á dagskrá rétttrúnaðarins.

Það er ekki aðeins í eigin húsum sem fólki er nú orðið bannað að reykja, bannið á einnig sums staðar við um einkabíla fólks. Á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum er nú bannað að reykja í bíl ef „barn“ undir 18 ára aldri er í bílnum og lögreglan hefur nú fengið það nýja verkefni að eltast við stórglæpamenn sem reykja við þessar kringumstæður, eins og US News hefur sagt frá.

Ef hið opinbera tekur sér þann rétt að banna fólki að reykja í eigin bílum eða eigin húsum og hindrar það í að taka börn í fóstur ef það reykir eða stöðvar leiksýningar þar sem reykt er á sviðinu, hvar ætli mörkin verði þá dregin? Eða verða engin mörk dregin? Verður alltaf gengið lengra og saumað að reykingamönnum spor fyrir spor. Eru einhverjar líkur til þess að hið opinbera seilist ekki inn á einkaheimili fólks og banni reykingar þar? Nei, því miður er fátt sem bendir til að ofstækið láti staðar numið við útidyr almennings. Líklegast er að haldið verði áfram þar til reykingar verða með öllu bannaðar og reykingamenn hraktir í undirheimana með vindlinga sína með tilheyrandi skipulagðri glæpastarfsemi og ofbeldi.

Ef einhver telur þetta fjarstæðukennt ætti viðkomandi að leggja við hlustir þegar talsmenn rétttrúnaðarins opna munninn. Það er ekki aðeins reyklaus andardrátturinn sem veita ætti athygli, heldur frekar að hlusta eftir markmiðunum og þá sérstaklega hvort að talsmennirnir telja nógu langt gengið. BBC hafði það til að mynda eftir landlækni Norður-Írlands á dögunum að þó að bann við reykingum á vinnustöðum og á opinberum stöðum væri risastórt framfaraskref, þá væri mjög mikið verk óunnið.

Þeir sem berjast af mestum ofsa gegn reykingum virðast aldrei velta því fyrir sér að annað fólk geti átt nokkurn rétt til haga lífi sínu eins og það kýs. Sú hugsun virðist ekki komast að hjá þeim sem vita hvað öðrum er fyrir bestu að ef til vill hafi aðrir á því skoðanir hvernig þeir eigi að haga lífi sínu. Rétttrúnaðurinn er slíkur að almenn mannréttindi skipta engu þegar berja þarf á þeim sem hafa valið að reykja.

En ef endalaust er látið undan rétttrúnaðinum á þessu sviði, hvaða líkur eru þá á að hann nái ekki fram að ganga á öðrum sviðum einnig. Reykingar eru ekki það eina sem telst skaðlegt heilsunni og flokkast undir slæman ávana eða ósið. Hreyfingarleysi getur verið stórskaðlegt, of mikið vinnuálag sömuleiðis, sama gildir um ofát og óhollan mat. Og það er ekki aðeins hreyfingarleysi sem getur valdið fólki skaða, of mikil hreyfing gerir það einnig, eins og menn kannast við af tíðum fréttum af álagsmeiðslum þeirra sem standa fremst í íþróttum. Listinn yfir það sem getur reynst slæmt fyrir heilsuna er í raun óendanlega langur og ekkert sem segir að ofstækismennirnir láti staðar numið við að hindra reykingar. Og þeir eru svo sem löngu byrjaðir að hamast gegn ýmsu öðru, til dæmis mat sem þeir telja óhollan, og hefur orðið nokkuð ágengt.

Ef þeir, sem vilja frekar búa við frelsi og mannréttindi en ofstæki og kúgun, láta ekki í sér heyra og koma í veg fyrir að ofstækið nái yfirhöndinni, þá er þess skammt að bíða að veröldin í kringum þá líkist meira risavöxnu fangelsi en frjálsu samfélagi.