Ú
Í litlu þorpi á norðanverðu Íslandi hafa íþróttafélög og bæjarstjórn gert samkomulag um að neyða almenning til að greiða fyrir starfsemi íþróttafélaganna. Þetta vafasama samkomulag er því miður ekki einsdæmi. |
tsvarið á Akureyri er, samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnarinnar, 13,03 %. Það er hæsta hlutfall sem lög frekast heimila sveitarfélögum að taka til sín af launum bæjarbúa um hver mánaðamót. Að því gefnu, að bæjarfulltrúarnir séu ekki einfaldlega þeirrar skoðunar að þeir sjálfir viti betur en allir aðrir í hvað almennir bæjarbúar ættu að eyða laununum sínum, þá má því ætla að bærinn sé hart keyrður og þurfi hverja krónu sem hann kemst yfir, til að halda lífsnauðsynlegum rekstri áfram. Að minnsta kosti dettur engum bæjarfulltrúa í hug að svo miklir peningar kunni að vera afgangs í bæjarsjóði að það geti komið til mála að lækka útsvarið sem bæjarbúar skulu greiða af hverjum mánaðarlaunum.
Það var góð stemmning í bæjarstjórnarsalnum á Akureyri í vikunni. Þar voru mættir forsvarsmenn íþróttafélaganna Þórs og K.A. að skrifa undir samning við Sigrúnu Björk Jakobsdóttur bæjarstjóra. Samkvæmt samningnum þá verða hendur aldeilis látnar standa fram úr ermum, en Akureyrarbæ er ætlað að „kosta og sjá um eftirfarandi framkvæmdir á félagssvæði Þórs á samningstímanum eða frá 2007-2012:
- Æfingasvæði við Sunnuhlíð og við norðanverðan Bogann
- Frjálsíþróttaaðstöðu sem uppfylli kröfur sem gerðar eru til mótshaldara á Landsmóti UMFÍ
- Keppnisvöll í fótbolta (grasvöll) ásamt búnaði
- Stúkumannvirki sem uppfyllir kröfur leyfishandbókar KSÍ
- Lagfæringar á Hamri, félagsheimili Þórs
og er kostnaður bæjarins af þessu sagður verða 331 og hálf milljón króna. Svo að K.A. menn mæti líka í næstu prófkjör, þá mun bærinn samkvæmt samningnum „kosta og sjá um eftirfarandi framkvæmdir á félagssvæði KA:
- Gervigrasvöllur með hitalögnum og flóðlýsingu ásamt búnaði
- Upptekt á grassvæði sunnan félagsheimilis KA (völlur sem gengur daglega undir heitinu Wembley)“,
en gert er ráð fyrir því, að þessar framkvæmdir á K.A. svæðinu muni kosta 171 milljón króna. Og þar sem þetta er auðvitað hvergi nærri nóg, þá er jafnframt tekið fram að bærinn muni „einnig reisa stúkubyggingu sem fullnægir kröfum leyfishandbókar KSÍ við keppnisvöll KA á árunum 2011-2012.“
Aldeilis glæsilegt hjá Sigrúnu Björk Jakobsdóttur bæjarstjóra og öðrum bæjarfulltrúum sem ekkert sjá að því að heimta mánaðarlega af bæjarbúum það hæsta útsvar sem lög frekast leyfa. Ekkert þeirra hefur áhyggjur af þeim bæjarbúum sem hefðu getað notað launin sín í eitthvað annað. Og ekkert þeirra mun gleyma að hringja í sinn kontaktmann hjá íþróttafélögunum, næst þegar kemur prófkjör og forval.
Og veri menn alveg vissir: ekki nokkur einasti fjölmiðlamaður mun spyrja bæjarstjórann hvort ekki hefði alveg eins mátt lækka skatta bæjarbúa. Og enginn fjölmiðlamaður mun spyrja bæjarstjórann hvernig tilfinning fylgi því að skattleggja bæjarbúa alveg upp í hámark en vera á sama tíma að að byggja stúkur og gervigrasvelli úti um allt. Og enginn mun spyrja forsvarsmenn íþróttafélaganna hvernig sé að taka við stúkunum sem reistar eru fyrir nauðungargjöld bæjarbúa.
F yrst íþróttadekrið hefur hér komið til tals, þá er rétt að vekja athygli á einu. Það verður að rísa upp gegn þeirri fjárkúgunaraðferð íþróttaforystunnar að dreifa nú örum „ungmennalandsmótum“ um landið, sem átyllu fyrir því að farið verði út í rándýra uppbyggingu íþróttamannvirkja á hverjum stað, til þess að „uppfylla kröfur landsmótsins“. Þetta er allt gert vitandi vits og eftir áætlun hjá íþróttamafíunni og gegn þessu verður frjálslynt fólk að rísa. Af hverju þarf að skattleggja hvern einasta manni í hverju bæjarfélaginu á fætur öðru til þess að uppfyllt verði „skilyrði“ til þess að eina helgi á öld geti þar farið fram „landsmót ungmennafélaganna“? Já og hver setur þessi skilyrði?