Föstudagur 22. júní 2007

173. tbl. 11. árg.

Ý msir eru eðlilega hugsi yfir því að hið opinbera taki sífellt stærri hluta þjóðarkökunnar til sín eins og kemur fram í skýrslunni Sneið til stjórnvalda sem Andríki gaf út í gær. Á þessu eru margvíslegar skýringar. Hér má nefna nokkrar þeirra. Í fyrsta lagi eru neysluskattar mjög háir hér á landi, með þeim allra hæstu í veröldinni. Það er til að mynda leitun að mikið hærri virðisaukaskatti. Miklar fjárfestingar og neysla skila hinu opinbera því miklum tekjum. Í annan stað má nefna að vegna persónuafsláttar hækkar það hlutfall sem einstaklingar greiða í tekjuskatt mjög hratt þegar tekjur manna hækka. Þannig hrifsar hið opinbera til sín væna sneið af öllum launahækkunum. Í þriðja lagi skila skattstofnar, sem skiluðu engum tekjum áður eins og tekjuskattur fyrirtækja og fjármagnstekjuskattur, nú miklum tekjum.

Við þessari þróun er aðeins eitt ráð: Halda áfram að lækka skatthlutföll.

Það á ekki síst við um tekjuskattsprósentu einstaklinga. Hún hefur lækkað á undanförnum árum. Um síðustu áramót var hins vegar dregin til baka áður lögfest lækkun um 1% að kröfu samtaka launafólks! Lækkunin varð því aðeins 1% í stað 2%. Betur má ef duga skal.


Saman mynda útsvar sveitarfélaga og tekjuskattur ríkisins skattprósentuna sem launamenn greiða.
Útsvarið er á rauðlituðu súlunum og hefur almennt verið að hækka frá árinu 2000.

Tekjuskattur einstaklinga snýr ekki aðeins að ríkissjóði því sveitarfélögin taka álíka mikið úr launaumslögum landsmanna og ríkissjóður. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan hefur ríkið verið að lækka sinn hlut í tekjuskattinum en sveitarfélögin að hækka sinn hlut (útsvarið). Stjórnendur sveitarfélaga eiga ekki síður að svara fyrir það hve tekjuskatturinn er hár en stjórnendur ríkisins. Hvenær ætlar nýr meirihluti í Reykjavík til dæmis að draga útsvarshækkun R-listans til baka? Hvenær ætla sjálfstæðismenn í Kópavogi að draga eigin hækkun á útsvarinu upp í topp til baka? Hvers vegna fara ekki fleiri sveitarfélög að fordæmi Seltjarnarness þar sem útsvarið var lækkað í fyrra?

A ð undanförnu hefur mátt sjá auglýstan Sumarháskóla á Laugarvatni 7. – 9. júlí undir yfirskriftinni Markaðshyggja og náttúruvernd. Það er Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, RSE, sem stendur að námskeiðinu. Samkvæmt auglýstri dagskrá verður þar fjallað um mörg hitamál í pólitískri umræðu, svo sem um eignarrétt á auðlindum, loftslagsbreytingar, dýrategundir í útrýmingarhættu, fiskveiðistjórnun, umfjöllun fjölmiðla um umhverfismál og auðlindanýtingu og ýmislegt fleira áhugavert. RSE hefur í starfsemi sinni fjallað nokkuð um mikilvægi eignarréttar og frjálsra viðskipta við vernd náttúrunnar og nýtingu auðlinda og komið mörgum ágætum sjónarmiðum á framfæri. Það er því áreiðanlega hægt að gera margt vitlausara þessa helgi en að skella sér á Laugarvatn. Það fer víst hver að verða síðastur að skrá sig.