Í síðustu viku tók hópur nýrra manna við ráðherraembætti, flestallt fólk sem síðasta áratuginn hefur af og til fengið nafn sitt birt í Vefþjóðviljanum. Þar á meðal auðvitað nýr umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem oft hefur verið ástæða til að geta að góðu.
Samfylkingarlýðræðið hefur ítrekað komið sér vel fyrir kvennalistakonuna og lýðræðisunnandann sem nú vermir – verðskuldað að sjálfsögðu – stól umhverfisráðherra. |
Eins og flestir áhugamenn um íslensk stjórnmál vita, þá hefur Þórunn Sveinbjarnardóttir lengi verið mikill áhugamaður um lýðræði og haft um það mörg orð og fögur. Einkum þó þá útgáfu þess sem hún hefur nefnt „lýðræði 21. aldarinnar“ og er vafalaust engu síðra lýðræði en notað var á hinni myrku tuttugustu öld. Á tuttugustu öldinni varð meðal annars til sú undarlega tegund lýðræðis, sem þetta blað hefur stundum kennt við þann stjórnmálaflokk sem fann það upp, samfylkingarlýðræði. Í samfylkingarlýðræði felst í sem stystu máli það, að þó að fólki sé leyft að kjósa, að þá séu það einhverjir aðrir en kjósendur sem taka endanlega ákvörðun um kosningaúrslitin.
Dæmi um samfylkingarlýðræði mátti sjá í prófkjöri flokksins á Reykjanesi vegna alþingiskosninganna árið 1999. Meðal þeirra sem fengu glæsilega kosningu í öruggt sæti var Ágúst Einarsson alþingismaður. Meðal þeirra sem ekki hlutu mikið brautargengi hjá kjósendum í prófkjörinu varð til dæmis kvennalistakonan Þórunn Sveinbjarnardóttir sem ekki hlaut öruggt sæti. Hjá öllum venjulegum stjórnmálaflokkum hefði þessi niðurstaða kjósenda orðið til þess að Ágúst yrði boðinn fram í vænlegu sæti en Þórunn í vonlausu, en þar sem þarna átti Samfylkingin í hlut, þá var auðvitað þveröfug niðurstaða uppi á teningnum. Þórunn fékk því þingsæti en Ágúst sat eftir með sárt ennið, þrátt fyrir að mun fleiri flokksmenn hafi viljað fá hann en Þórunni.
Fyrir alþingiskosningarnar á dögunum efndu Samfylkingarmenn að nýju til prófkjörs og enn skunduðu flokksmenn á vettvang, í þeirri hugmynd að álit þeirra skipti talsverðu máli. Í suðvesturkjördæmi, svo dæmi sé tekið, fóru leikar svo að efstur varð Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, og í öðru sæti varð Katrín Júlíusdóttir alþingismaður. Langt að baki þeim kom hins vegar kvennalistakonan gamla, Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Í síðustu viku völdu Samfylkingarmenn ráðherraefni sín. Vitanlega kom þar ekki til álita fólk eins og Gunnar Svavarsson eða Katrín Júlíusdóttir, enda hafa þau einkum til síns ágætis að njóta stuðnings almennra Samfylkingarmanna. Ekki kom Ágúst Ágústsson heldur til greina, enda er hann aðeins varaformaður flokksins. Mun brýnna var hins vegar að velja kvennalistakonuna Þórunni Sveinbjarnardóttur til ráðherradóms, því þó að hún hafi hvorki náð miklum frama í prófkjörum eða á flokksþingum þá er hún, ólíkt þessu fólki og fleirum, sérfræðingur í lýðræði 21. aldarinnar og hver vill vera án slíks í ríkisstjórn?