Mánudagur 21. maí 2007

141. tbl. 11. árg.

Á að segja meira um alþingiskosningarnar og eftirmál þeirra?

Eitt af því sem þeir verða að muna, sem eru kjörnir á Alþingi í fyrsta skipti, er að halda sér saman fyrst í stað. Bjarni Harðarson, svo dæmi sé tekið, daginn eftir kosningar missti hann af gullnu tækifæri til að steinhalda sér saman, þegar hann fór í Silfur Egils á Stöð 2 og lét móðan mása. Það er algengur misskilningur hjá fólki að kjör þess á Alþingi sé vísbending um að það hafi vit á pólitík. Af flestum þingmönnum rjátlast þetta á fyrstu vikunum, en sumir eru nokkur kjörtímabil að ná jarðtengingu. Bjarni færði krötunum í Sjálfstæðisflokknum beitt vopn í hendurnar þegar hann fór í Silfur Egils og tók feil á sjálfum sér og Churchill.

Hvað er með þá álitsgjafa sem spyrja hvort ekki eigi örugglega að hlusta á þau 18 % kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður sem strikuðu yfir nafn Björns Bjarnasonar? Hvernig vilja sömu menn hlusta á þau 82 % sem ákváðu að gera það ekki? Auglýsingaherferð hins þjóðkunna og vinsæla kaupmanns, Jóhannesar Jónssonar, gerði það að verkum að hver einasti kjósandi flokksins tók afstöðu til málsins og niðurstaðan varð þessi. Ef ekki hefði hins vegar verið þessi herferð, þá væri hlustunarkrafan kannski skiljanlegri.

Önnur spurning. Hvaðan kemur sú kenning að ekki sé hægt að strika menn út ef kosið er utan kjörfundar? Það er þvert á móti heimilt og í hverjum kosningum ýmsir sem nýta sér það.

Björn Bjarnason hefur gagnrýnt Jóhannes fyrir auglýsingaherferð hans. Sumir álitsgjafar hafa hneykslast á Birni fyrir það eins og annað, og sagt að með því sé hann að gefa í skyn að kjósendur geti ekki tekið sjálfstæðar ákvarðanir heldur fari einfaldlega eftir tilmælum frá Jóhannesi. Enginn þeirra hefur hins vegar sakað Jóhannes um vanvirðu við kjósendur. Af hverju ætli hann hafi auglýst í öllum blöðum, ef það er í raun svo að kjósendur taka allar sínar ákvarðanir alveg óháð því sem menn auglýsa? Hitt er svo alveg rétt og vafalaust enginn sem mótmælir því, að auðvitað er það hver og einn kjósandi sem á lokaorðið um eigin atkvæðaseðil. Enda aðeins brot af kjósendum sem gerði það sem auglýsandinn bað um.

Það þarf raunar að endurskoða að nýju reglurnar um útstrikanir. Það þarf ekkert að vera að því að meirihluti kjósenda flokks geti breytt listanum sem hann kýs, en það er eitthvað óviðkunnanlegt að lítill minnihluti geti tekið fram fyrir hendur á yfirgnæfandi meirihluta kjósenda. Hvað myndu menn segja ef ekki hefði verið strikað yfir nöfn manna í öruggum sætum heldur baráttusætum? Eiga örfá prósent flokksmanna, kannski reið eftir prófkjörsúrslit eða af öðrum ástæðum, að geta ýtt frambjóðanda í baráttusæti niður í vonlaust sæti og það eins þó mikill meirihluti flokksmanna vilji engar breytingar gera? Vilja menn kannski að í framtíðinni fari frambjóðendur í efsta vonlausa sætinu að efna til herferðar gegn þeim sem situr í neðsta örugga sætinu, til að fá hann færðan niður? Ef aðeins þarf örfá prósent atkvæða til slíkrar breytingar þá gæti þetta orðið næsta skref.

Enn ein afleiðing þess að Halldór Ásgrímsson hætti sem forsætisráðherra var áberandi í vikunni. Ef Framsóknarflokkurinn hefði farið með forsætisráðuneytið, þá hefði ríkisstjórnin einfaldlega ekki beðist lausnar fyrr en formaður Framsóknarflokksins hefði verið búinn að tryggja sér vinstri stjórn.

Jón Sigurðsson er vænsti maður og skemmtilegur þar að auki. En kannski ekki alveg á réttum stað í augnablikinu. En framóknarmönnum bauðst annar kostur síðastliðið sumar. Er einhver sem getur ímyndað sér Finn Ingólfsson láta henda sér út úr stjórnarráðinu? Eða einhvern yfirleitt leggja í Finn? Nú eða Framsóknarflokkinn fá núll og nix undir forystu Finns? Nei, hvað sem segja má um Finn Ingólfsson, þá er hann ekkert blávatn.

N er hálka á Hellisheiði og Holtavörðuheiði. Bílar ultu og runnu útaf á Reykjanesi í gærkvöldi. En sem betur fer er búið að reka fólk af nagladekkjunum. Ekki má allt fyllast af svifryki.