A ð því gefnu að allir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar styðji stjórnina sem formenn flokkanna setja nú saman mun stjórnin hafa 23 sæta meirihluta á Alþingi. Allir þingmenn Samfylkingarinnar, ráðherrar sem aðrir, munu geta setið hjá í atkvæðagreiðslum og mál samt runnið í gegnum þingið. Að því gefnu að sjálfstæðismenn fái sex ráðherrastóla mun meira en helmingur óbreyttra þingmanna Sjálfstæðisflokksins geta greitt atkvæði gegn málum en þau samt runnið í gegn. Fái Samfylking jafnmarga ráðherrastóla munu allir óbreyttir þingmenn hennar að einum undanþegnum geta greitt atkvæði gegn málum stjórnarinnar án þess að það felli meirihluta hennar. Þegar formenn flokkanna hafa komið sér saman um mál í ríkisstjórn þurfa þeir ekki að vinna þeim fylgis nema hjá tæplega öðrum hverjum þingmanni flokkanna. Hinir 22 mega skiptast í tvo jafna hópa stjórnarliða sem greiða atkvæði gegn málinu og sitja hjá.
Þetta mundi að öllu jöfnu ekki auka vægi löggjafans gagnvart framkvæmdavaldinu. En formenn flokkanna og þeir sem setjast munu í ríkisstjórnina með þeim munu auðvitað hafa mikil áhrif á hvernig þetta jafnvægi verður milli greina ríkisvaldsins. Það er hins vegar ljóst að framkvæmdavaldið mun hafa þetta vægi í hendi sér sem aldrei fyrr.
Í þingliði Sjálfstæðisflokksins er til að mynda hópur manna sem vitað er að vill gæta mikils aðhalds í rekstri ríkisins og halda áfram að lækka skatta. Það er spurning hvernig staða þessara manna verður í svo stórum meiri hluta með Samfylkingu. Verða áhrif þeirra ekki mjög takmörkuð?
Meðal þess sem ætla má að útgjaldasinnar innan þingflokkanna þrýsti á um er lenging fæðingarorlofs úr 9 í 12 mánuði. Fæðingarorlofið var lengt úr 6 mánuðum í 9 fyrir hvert barn árið 2000. Þá var orlofið tengt tekjum manna þannig að menn fengju 80% launa. Ekkert þak var á þessu þannig að dæmi voru um að Tryggingastofnun, sem hafði umsjón með rekstri fæðingarorlofssjóðs, greiddi mönnum á aðra milljón á mánuði fyrir að vera heima hjá barni. Þessi breyting var kölluð „jöfnun réttar til fæðingarorlofs“ en áður höfðu þó allir fengið sömu fjárhæð úr sjóðnum. Með breytingunni gátu menn fengið allt frá tæpum 40 þúsundum á mánuði upp í margar milljónir. Og barn sem nýtur aðeins annars foreldris fær mest 6 mánuði á styrk frá Fæðingarorlofssjóði því 3 mánuðir eru bundnir hvoru foreldri. Megin ástæðan sem nefnd var fyrir því að orlofið var tekjutengt með þessum hætti var að þannig mætti ná fram jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og útrýma hinum meinta launamun kynjanna.
Áætlaður kostnaðarauki við breytinguna árið 2000 var 1,5 milljarður króna.
Fljótlega varð ljóst að sjóðurinn stefndi í gjaldþrot því áætlanir um fjárþörf hans voru hrein fjarstæða. Þegar lögin voru komin til fullra framkvæmda árið 2004 var framúrkeyrslan 180%. Kostnaðurinn hafði því ekki aukist um 1,5 milljarðar króna heldur 4,2 milljarða. Leitun er að annarri eins vanáætlun í opinberum rekstri, jafnvel þótt leitarmengið næði yfir rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og skuldastöðu borgarinnar í tíð R-listans. Því var gripið til þess ráðs að setja þak á greiðslur úr sjóðnum sem miðast við að menn fái ekki meira en 480 þúsund krónur á mánuði. En kostnaður sjóðsins heldur áfram að aukast.
Um það leyti sem til umræðu var að setja þak á sjóðinn árið 2004 lýsti Vefþjóðviljinn umræðunni með þessum hætti:
Um þessar mundir situr því að störfum nefnd á vegum félagsmálaráðherra og leitar leiða til að forða ríkissjóði, fyrir hönd skattgreiðenda, frá því að lenda í frekari hremmingum vegna fæðingarorlofssjóðs. Þegar eru farin að heyrast mótmæli við því að sett verði hámark á greiðslur úr sjóðnum. Það er jafnvel talið „algert glapræði“. Verður nokkurn tímann hægt að ræða þetta mál af viti við þá sem láta það út úr sér að það sé „algert glapræði“ að hafa stjórn á því sem streymir úr opinberum sjóðum?
Rök þeirra sem mæla gegn þaki á greiðslur úr þessum félagslega sjóði eru í stuttu máli þau að ef sett verði þak muni hátekjufólkið ekki hafa efni á að vera heima hjá börnunum sínum. Já, frekjan er komin á þetta stig. Um síðustu helgi var samið um það milli samtaka atvinnurekenda og nokkurra manna í þægilegri vel launaðri innivinnu í glæsihöllum verkalýðsfélaganna að lægstu laun í stórum hópi launþega muni hækka í 100 þúsund krónur á mánuði. Þeir sem eru á þessum lægstu launum fá 80 þúsund krónur á mánuði í fæðingarorlofi. Hafa þeir efni á því að vera heima hjá börnunum sínum þegar þeir sem eru á margfalt hærri launum hafa það ekki? Það er nöturlegt að þessari skipan mála var komið á undir þeim formerkjum að verið væri að „jafna rétt manna til fæðingarorlofs“. Fæðingarorlofssjóður er kennslubókardæmi um að ríkið á ekki að sinna velferðarmálum. Fyrr en síðar ná öflugustu þrýstihóparnir tökum á kerfinu og laga það að þörfum sínum í stað þess að kerfið nýtist þeim sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda. |
Eins og áður sagði var megin hugsunin á bak við lögin og það sem dreif menn áfram í að undirbúa þau og semja sú að með þeim mætti útrýma kynbundnum launamun. Þær mælingar, eins ófullkomnar og þær eru, sem gerðar eru á þessum launamun sýna hins vegar engar breytingar frá árinu 2000.
En þótt ekkert hafi þokast að helsta markmiðinu með fæðingarorlofslögunum árið 2000 og kostnaðaraukinn sé nú yfir 200% umfram áætlanir má enn gera ráð fyrir að til séu þingmenn sem vilji halda áfram að tappa af velferðarkerfinu fyrir fullfrískt fólk.