S teingrímur J. Sigfússon formaður vinstri grænna telur ekki nægilega lýðræðislegt að formenn flokka sem eru með 43 þingmenn á bak við sig skuli undanbragða- og málalengingalaust fá umboð forsetans til stjórnarmyndunarviðræðna. Ríflega 2/3 þingheims dugar ekki til að Steingrímur telji um nægan meirihluta að ræða, en ætli hann hefði talið að 34 þingmenn Sjálfstæðisflokks og vinstri grænna hefðu átt að fá umboðið fljótt og vel? Ekki var annað á honum að skilja fyrir fáeinum klukkustundum – áður en hann hafði gasprað sig út í horn og eyðilagt möguleika VG á stjórnarþátttöku – en að þau tæpu 51% atkvæða kjósenda sem þeir flokkar hefðu á bak við sig dygðu fyllilega til að mynda stjórn hratt og örugglega.
Annar maður sem er í sárari kantinum vaknaði upp við þann vonda draum í gærmorgun að vera með hiki og vandræðagangi búinn að glutra niður ráðherrasæti sínu og þingmanna sinna. Formaður Framsóknarflokksins hefur nú áttað sig á – sem einhverjir hefðu sennilega gert fyrir tæpri viku – að miðað við úrslit kosninganna ætti hann einn góðan kost, nefnilega að halda áfram samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Hann tók hins vegar þann kostinn að fara með flokkinn í gegnum langvarandi áfallameðferð sem sér ekki fyrir endan á. Hann gat tæplega látið sér detta í hug að beðið yrði fram á haust á meðan Framsóknarflokkurinn talaði við „grasrótina“, sem einhverjir gætu ímyndað sér að tæki ekki langan tíma í ekki stærri flokki.
Athygli vekur hve formaður Samfylkingarinnar fellur vel að húsbúnaði ráðherrabústaðarins við Tjarnargötu. Þeir sem gerst þekkja, telja að hún verði komin í langröndóttan kjól áður en stjórnarmyndunarviðræðurnar eru úti. |
Nú er engin leið að segja hvað kemur út úr stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hvorki er hægt að fullyrða hvort úr verður stjórn né fyrir hvaða málum hún mun beita sér. Menn geta þó ef til vill leyft sér að vona að einhver mál færist til betri vegar. Til dæmis að svigrúm einkarekstrar í heilbrigðismálum verði aukið, enda hefur það sýnt sig að framsóknarmenn hafa ekkert viljað taka á þeim málum. Þá má vona að íslenskir neytendur fái að bragða á nýsjálensku lambaketi og að ef til vill verði minni fyrirstaða almennt við umbætur í landbúnaðarmálum. Þá geta menn jafnvel látið sig dreyma um að skref verði tekin í átt til jöfnunar atkvæðisréttar, en eins og fram kom í kosningunum hafa sumir landsmenn um tvöfaldan atkvæðisrétt á við suma aðra landsmenn, sem getur auðvitað ekki gengið til lengdar.
Ýmislegt annað virðist fjarlægara, en þó er ekki útlokað að Samfylkingin láti af andstöðu sinni við framfaramál á borð við skattalækkanir og einkavæðingu, eða dragi úr endalausum kröfum sínum um aukin ríkisútgjöld. Þá má jafnvel binda vonir við, þó að það flokkist sennilega undir draumóra, að ef samfylkingarmenn komast í ríkisstjórn dragi ögn úr ístöðuleysinu og hringlandahættinum sem hefur einkennt flokkinn frá upphafi.