Þriðjudagur 15. maí 2007

135. tbl. 11. árg.

Það hefur stundum verið sagt að störf heimavinnandi séu vanmetin. Þá er vísað til þess að ekki er greitt fé fyrir þessi störf. Launin eru hins vegar tekin út í ánægju með að búa vel að sínum.

Vinstri grænir og Samfylkingin hafa nú boðið Framsóknarflokknum að verja minnihlutastjórn vinstriflokkanna vantrausti. Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins hefur því fengi tilboð um að vera heimavinnandi stuðningsmaður vinstri stjórnar.

Á sama tíma og þetta kostaboð er sett fram fer Steingrímur J. Sigfússon fram á afsökunarbeiðni frá Framsóknarflokknum fyrir að setja sig í gervi netlögreglu í teiknimynd. Þó hafði Steingrímur sjálfur nýlega sagt að netlögregla væri mikilvæg. Samt fer hann að skæla undan því að vera gerður að einni slíkri.

Í þessu samhengi hlýtur svo að koma á óvart að maður sem flokksmenn hafa dubbað upp sem fjöldamorðingjann Che framan á nærbolum og víðar skuli kveinka sér undan því að vera gerður að löggu.

Álfheiður Ingadóttir nýr þingmaður vinstri grænna mætti svo í viðtal á Útvarpi Sögu í gær og sagði Framsóknarflokkinn „slímsetuvaldaflokk“ sem væri ekki til annars gagns en að verja vinstri stjórn falli.

Auðvitað eru þessi átök milli Framsóknarflokksins og vinstri grænna ekkert óeðlileg í sjálfu sér. Það er gott að flokkar takist á um menn og málefni. En vinstri grænir virðast ekki hafa áttað sig á að kosningabaráttunni er lokið í bili. Framganga þeirra á þeim klukkustundum sem liðnar eru frá talningu síðustu atkvæða fær fleiri en framsóknarmenn til að efast um að þeir séu samstarfshæfir. Það eru undarlegt að flokkur sem eykur fylgi sitt um 60% milli kosninga skuli mála sig út í horn með svo miklu hraði.

Ákosninganótt virtist um tíma sem ríkisstjórnin væri fallin og ný meirihluti kaffibandalagsins yrði til á Alþingi. Þá voru allir viðmælendur fjölmiðla sammála um að slík stjórn tæki við eða í það minnsta myndu þessir þrír flokkar ræða málin. Enginn hafði orð á því að það væri stórkostlegt vandamál að slík stjórn hefði aðeins eins manns meirihluta. Og eftir að úrslit lágu fyrir héldu menn áfram að tala um hve ánægjulegt það hefði verið er stjórnarandstaðan hefði náð eins manns meirihluta. Þó væru þrír flokkar í slíkum meirihluta og þar af fjórir þingmenn Frjálslynda flokksins sem allir hafa gengið úr öðrum flokkum með hurðarskellum og látum.

Hvernig geta menn sem töldu kaffibandalagsstjórn sjálfsagðan kost séð öll vandkvæði á því að flokkar sem starfað hafa saman í 12 ár í góðri sátt sitji áfram með sama meirihluta?