Mánudagur 14. maí 2007

134. tbl. 11. árg.

Þ að þarf enginn að efast um að Ómar Ragnarsson bauð sig fram vegna hugsjónar, sem var önnur en frami hans sjálfs. Þó flestir aðrir en hann sjálfur viðurkenni að framboðið hefur enn sem komið er orðið sjónarmiðum hans til sáralítils gagns, þá verður hann ekki með réttu sakaður um að hafa haft eigin frama á oddinum, framans vegna. Að því leyti er hann virðingarverðari en margir þeirra sem sækjast eftir pólitískum frama, sumir aftur og aftur.

Um helgina voru sextíuogþrír Íslendingar kjörnir til setu á Alþingi og ótal margir aðrir sóttust eftir hinu sama án þess að hafa erindi sem erfiði. Því er vitaskuld ekki að neita, að þessir sextíuogþrír hafa mjög misjafna sögu að baki – að ekki sé litið til allra hinna sem ekki náðu kjöri. Sumir hafa boðið sig fram vegna raunverulegs áhuga á að fylgja lífsskoðun sinni eftir eða þá vegna sannfæringar um að berjast þurfi fyrir tilteknu málefni, en aðrir virðast stundum bjóða sig fram bara af því bara. Einstaka maður virðist hreinlega staðráðinn í að verða „leiðtogi“, valdanna sjálfra vegna, og vera í þeim tilgangi tilbúinn að tala fyrir hverju sem vera skal, einkum þó almennum orðum. Sum framboð virðast svo hreinlega sprottin af löngun til að gleypa allt. Þannig hefur á síðustu árum orðið mun algengara en áður að menn sitji í senn í sveitarstjórn og á Alþingi, eða sækist eftir slíku. Aðrir koma beint af skrifstofum flokkanna. Slíkt þarf auðvitað ekki að vera óeðlilegt, einkum um skamman tíma, en á síðustu árum hefur þetta virst verða æ algengara.

En hvernig er með hinn almenna mann? Er hann jafn stefnufastur og fyrr? Hefur hann einhverja grundvallarlífsskoðun eða sveiflast hann eftir stemmningu og þjóðfélagsvindum? Er skoðun hans á einu máli í einhverju grundvallarsamræmi við skoðun hans í því næsta? Er hann kannski hlynntur eignarrétti húseiganda þegar hann er heima hjá sér, en fer svo á veitingahús um kvöldið og telur sig þá eiga rétt á því banna húseigandanum að leyfa gestum sínum að reykja pípu. Vill hann að vel sé farið með opinbert fé og að þar ráði sérhagsmunir ekki ferðinni, með þeirri undantekningu að aukin framlög til nákvæmlega hans eigin starfsgreinar séu feiknarlega arðbær fyrir alla, vegna margfeldisáhrifanna sko. Er honum kannski sama þó ríkissjóður fitni, vegna þess að hann hyggst sjálfur ná þar vænum bita sjálfur? Spis min gris, segja Danir, i morgen skal du slagtes. Hefur hann kannski þær einar áhyggjur af háum sköttum, að hann nái ekki klónum í nógu stóran hluta af þeim sjálfur?

 

E n yfir í allt aðra sálma. Í dag á afmæli forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Vef-Þjóðviljinn óskar honum allra heilla á þessum merkisdegi