R íkissjónvarpið hefur dýpkað kosningaumfjöllun sína með því að eyða „degi með formanni“ og má þar sjá formenn flokkanna snýta sér, borða harðfisk, hamast í ræktinni og kyssa börn. Þessu fylgir síðan stutt sérfræðiálit Ólafs Þ. Harðarsonar sem þylur nokkra sjálfsagða hluti um hvern formann. Í gærkvöldi upplýsti hann landsmenn um að Guðjón A. Kristjánsson hefði verið „brimbrjótur Frjálslyndra í kosningunum 1998“, sem voru auðvitað ný tíðindi fyrir alla þá sem eru hvorki prófessorar í stjórnmálafræði né víðfrægir sérfræðingar í kosningum, og hafa það eiginlega eitt sér til ágætis að vita að Frjálslyndir buðu ekki fram við kosningarnar 1998.
Svona mismæli eða ófróðleikur eru daglegt brauð í íslenskum fréttum, þar sem svo virðist sem flest megi segja og fæst sé leiðrétt. Og allra síst sérfræðingarnir.
En sjálfsagðir hlutir, blandaðir með saklausum vitleysum, eru saklausasti fylgifiskur sérfræðinganna sem ásamt skoðanakannanalestri og tengdadóttur Jónínu Bjartmarz fylla alla fréttatíma fram að kosningum. En þeir geta líka beitt sér af sérstökum krafti fyrir sínum málstað. Í síðustu kosningum fullyrti Ögmundur Jónasson til dæmis að þeir prófessorar, Ólafur Þ. Harðarson, Svanur Kristjánsson og Gunnar Helgi Kristinsson, færu milli fjölmiðla að reka erindi Samfylkingarinnar. Í þingkosningunum þar áður tókst einum þeirra næstum að sannfæra fleiri en sjálfan sig að atkvæði greidd vinstri grænum yrðu dauð og ómerk þar sem flokkurinn kæmist alls ekki á þing.
Fréttamenn virðast sífellt geta gleymt því, að „fræðimenn“ eru ekki aðeins fræði- heldur líka -menn. Af holdi og blóði með sínar meiningar og sumar afar sterkar. Svanur Kristjánsson, sem Ríkisútvarpið hefur árum saman gert sér tíðförult til, til að ræða íslensk stjórnmál hugleiddi sterklega að gera að gefa kost á sér sem formaður Samfylkingarinnar á sínum tíma, þó hann sé aldrei kynntur öðruvísi fyrir útvarpshlustendum en sem prófessor. Og þannig eru dæmin. Nýlega talaði Ríkissjónvarpið við sviðsstjóra geðdeildar Landsspítalans sem hafði sem slíkur margt misjafnt að segja um frammistöðu stjórnvalda. Rót alls vanda, voru svikin loforð stjórnvalda. Fréttamanninum datt ekki í hug að nefna að sviðsstjórinn væri einnig frambjóðandi Samfylkingarinnar og systir eins þingmanns flokksins. Og aðrir blanda sér í baráttuna með öðrum hætti. Hagsmunasamtök verða skyndilega fjáð og fara að auglýsa, gefa út álit og skýrslur fyrir milljónir, fjölmiðlar stórauka útbreiðsluna einn og einn dag til að koma áríðandi boðskap á framfæri, og svo framvegis.
Allt fyrir framan nefið á þeim sem héldu að það væri til einhvers að setja „þak“ á auglýsingakostnað eða takmörk við styrkjum við stjórnmálaflokka.