![]() |
Samfylkingin sendi ákveðnum hópi loforð um 320 þúsund króna skattaleysismörk honum til handa. Aðrir skattgreiðendur hafa ekki fengið upplýsingar um þetta loforð enda eiga þeir að greiða áfram fullan tekjuskatt af öllu umfram 90 þúsund krónur. |
E ins og Vefþjóðviljinn sagði frá á dögunum dreifði Samfylkingin bæklingi til eldri borgara – en ekki annarra kjósenda – þar sem lífeyrisþegum er lofað 320 þúsund króna skattleysismörkum á mann. Fjölmiðlar hafa ekki sýnt þessu máli áhuga en það kom loks stuttlega til tals í þætti Stöðvar 2 með formönnum flokkanna í gærkvöldi. Augljóst var af viðbrögðum formanns Samfylkingarinnar að henni þótti óþægilegt að þetta mál kæmi til umræðu þar sem fleiri heyrðu til en þeir sem hagnast eiga á þessu kosningaloforði. Umræðustjórnmálin eru ekki alltaf þægileg.
Til að skýra hvaða áhrif þetta loforð Samfylkingarinnar hefur tók Vefþjóðviljinn eftirfarandi dæmi:
Í skuldlausu einbýlishúsi búa eldri hjón sem alla tíð greiddu samviskusamlega í lífeyrissjóð af góðum tekjum. Greiðslurnar voru alla tíð undanþegnar tekjuskatti, bæði greiðsla launþegans af launum sínum og hlutur launagreiðandans. Samtals fá þau 600 þúsund krónur á mánuði úr lífeyrissjóði auk greiðslna frá Tryggingastofnun. Af þessum tekjum sínum greiða þau engan tekjuskatt.
Í kjallaranum hjá þeim leigir einstæð móðir með tvö börn. Hún er með 300 þúsund krónur á mánuði með því að vinna flestar helgar. Hún greiðir yfir 70 þúsund krónur í tekjuskatt á mánuði.
Flokkurinn sem leggur til svo gríðarlega mismunun í skattkerfinu er auðvitað flokkurinn sem helst kennir sig jafnaðarstefnuna.
Vafalaust mun einhver halda því fram að þegar hafi verið greiddur tekjuskattur af því sem liggur í lífeyrissjóðum landsmanna. Það er ekki rétt. Iðgjöld til lífeyrissjóða hafa alla tíð verið undanþegin tekjuskatti. Um nokkurra ára skeið eftir að staðgreiðsla tekjuskatts var tekin upp var undanþágan hluti af persónuafslætti og var því ekki jafn sýnileg og nú þar sem iðgjöldunum er haldið utan við skattstofninn í stað þess að veita afslátt. Um árabil niðurgreiddi ríkið einnig séreignalífeyrissparnað með 10% mótframlagi. Lífeyrissjóðirnir sjálfir eru svo einnig undanþegnir tekjuskatti.
Samfylkingin hefur ekki stutt þá verulegu lækkun sem orðið hefur á tekjuskattshlutfalli einstaklinga á undanförnum árum. Og sem borgarstjóri hækkaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir útsvarið og þar með tekjuskattinn. Samfylkingin hefur því bæði hækkað tekjuskattinn og verið á móti því að hann sé lækkaður. Skýrara verður það nú ekki að flokkurinn er andvígur skattalækkunum á einstaklinga. Nú sendir Samfylkingin afmörkuðum hópi skattgreiðenda hins vegar tillögur um að hann njóti nær algers skattfrelsis en aðrir skattgreiðendur eru ekki látnir vita í hvað stefnir komist Samfylking til valda.