Í síðustu og þar síðustu kosningunum boðaði Samfylkingin þrepaskipt skattkerfi. Ætlunin var að láta skattprósentuna hækka þegar tekjur manna hækkuðu. Flokkurinn reyndi að fela þessar tillögur síðustu dagana fyrir kosningarnar fyrir fjórum árum eftir að hafa lent í verulegum erfiðleikum með að útskýra þær. Ekkert hefur spurst til þessa þrepakerfis í kosningabaráttunni sem fer fram nú um stundir. Líklega hefur Samfylkingin beitt „fyrningarleiðinni“ á þetta gamla baráttumál sitt. Samfylking ætlaði upphaflega að nota fyrningarleiðina í sjávarútvegsmálum en hefur séð í hendi sér að hún nýttist betur á gömul stefnumál flokksins, þar með talið fyrningarleiðina sjálfa.
En þrepaskattkerfið hefur ekki glatað öllum stuðningi kaffibandalagsins.
Á veitingastað vinna tveir menn og þiggja fyrir 150 þúsund krónur í mánaðarlaun. Samkvæmt tillögum Frjálslynda flokksins eiga skattleysismörk að hækka í 150 þúsund krónur á tekjur upp að 150 þúsund krónum. Mennirnir greiða því engan skatt af dagvinnulaunum sínum. Annar mannanna þiggur hins vegar að taka helgarvaktir og við það hækka laun hans í 250 þúsund krónur. Samkvæmt tillögum Frjálslynda flokksins um þrepaskipt skattkerfi fengi maðurinn 186 þúsund krónur útborgaðar af þessum 250 þúsund. Það er spurning hvort menn leggja á sig aukna vinnu þegar uppskeran er svo rýr.
Í síðustu kosningum kom það ítrekað fram að formaður Frjálslynda flokksins skildi ekki muninn á persónuafslætti og skattleysismörkum. Aðrir höfundar skattastefnu flokksins virtust ekki átta sig á þessu heldur og öll skattastefna flokksins var því byggð á þessum misskilningi. Nú má vera að blessaðir mennirnir hafi áttað sig á muninum á þessu tvennu en þeir hafa hins vegar ekki áttað sig á því hvaða áhrif það hefur á vilja manna til að vinna að setja þrep í skattkerfið með þessum hætti.
F orsíða DV í gær hefur sjálfsagt komið ýmsum spánskt fyrir sjónir þótt hún sé í góðu samræmi við það sem Eiríkur Bergmann Einarsson varaþingmaður Samfylkingarinnar hefur sagt um íslensk lög um innflytjendur. Eiríkur hefur sagt að Íslendingar búi við eina ströngustu innflytjendalöggjöf Vesturlanda. Í fyrirsögninni kemur fram að Ísland sé lokað land fyrir fólk utan Evrópu.
Þessi fullyrðing kemur ekki alveg heim og saman við það sem annar flokkur í kaffibandalaginu, Frjálslyndi flokkurinn, hefur reynt að telja mönnum trú um á síðustu vikum. Frjálslyndi flokkurinn hefur reynt að lauma þeim ranghugmyndum að kjósendum að landamæri Íslands standi -öllum opin.
En á það ber svo sem að líta að stutt er síðan Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður Frjálslynda flokksins gagnrýndi harðlega að innflytjendalöggjöfin væri hert. Sami Magnús Þór var einnig mjög reiður þegar lögreglan hindraði erlend mótorhjólagengi í að ná fótfestu hér á landi.
Enginn þingmaður í sögu landsins hefur barist harðar gegn því að herða innflytjendalöggjöfina en Magnús Þór Hafsteinsson.