F yrir kosningar er hinu og þessu haldið fram, misjafnlega áríðandi í umræðunni. Eitt er það, hversu lengi menn hafa setið við völd. Stundum er slík talning jafnvel notuð sem ástæða fyrir því hvernig menn eigi að fara með atkvæði sitt. En eins og þetta blað hefur áður sagt, þá er sú kenning eiginlega bara misskilningur.
Oft er sagt að þessi flokkur eða hinn hafi setið svo og svo lengi við völd, hvort sem er í ríkisstjórn eða sveitarstjórn. Það er þá að vissu leyti rétt, en ekki í þeim skilningi sem liggur að baki hugmyndinni um að það sé „lýðræðisleg nauðsyn“ að breyta til. Það hefur nefnilega enginn flokkur setið við völd í tíu, tólf, sextán eða hvað árin eru sögð mörg. Það hefur enginn flokkur setið lengur en fjögur ár við völd, án þess að kjósendur hafi náð til hans til að annað hvort endurnýja eða afturkalla umboð hans.
Nú kann einhver að kalla þetta útúrsnúning. En svo er ekki. Þeir sem þurfa að leita endurkjörs á fjögurra ára fresti hið lengsta, fá vitaskuld ekki þá tilfinningu að þeir séu með æviáskrift að völdunum og að kjósendur hafi ekkert um það að segja. Þeir eru stöðugt með það bak við eyrað að þurfa að standa kjósendum skil á verkum sínum innan skamms. Ef menn hefðu hins vegar setið við völd, án kosninga, vel á annan áratug þá myndi málið horfa öðruvísi við. Þess vegna datt Vefþjóðviljanum aldrei í hug, að það væri röksemd gegn valdasetu R-listans að hún hefði verið löng. Hún var hins vegar gagnslítil og slæm.
Það er hins vegar sérstakt, að þeir sem hafa miklar áhyggjur af því að stjórnmálamenn geti verið endurkosnir hvað eftir annað, þeir virðast litlar áhyggjur hafa af því að embættismenn, sem aldrei eru kosnir, geti setið á sínum stólum áratugum saman. Eini kosni aðilinn sem þessar áhyggjur gætu hins vegar átt við um er forseti Íslands, því þó hann þurfi að formi til að leita endurkjörs á fjögurra ára fresti, þá er það eins og allir vita aðallega formsatriði og forseti fær fyrirhafnarlítið endurkjör, embættis síns vegna fremur en verðleika, þó þeir séu vitaskuld feikimiklir.
O g fyrst minnst er á forsetakjör, þá greindi hinn furðulegi fréttamiðill, mbl.is frá því á dögunum og það efst á forsíðu, að sósíalistinn Royal myndi „hafa það“ og verða kjörin forseti Frakklands. Þegar fréttin var skoðuð nánar þá kom í ljós að þetta var ekki annað en álit Torfa Túlíníusar, sem fréttavef Morgunblaðsins fannst einhverra hluta vegna að hlyti að vita meira um málið en aðrir. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vefþjóðviljans liggja úrslit nú fyrir, og verður vafalaust sagt frá þeim um leið og Morgunblaðið nær í Torfa.