T vennt er það sem segir meiri sögu en annað um hið almenna vandamálaleysi íslenskra þjóðmála nú um stundir.
1. Ef í landinu væri atvinnuleysi, kvíði fyrir framtíðinni, áhyggjur af að náunginn gæti kannski ekki framfleytt sér, þá hefði aldrei nokkrum vitibornum manni dottið í hug að hafna stækkun álversins í Straumsvík. Góðærisvorið 2007 lét meirihluti hafnfirskra kjósenda sig þó ekki muna um að hafna stækkun eftirsóttasta vinnustaðar bæjarins. Við mikinn fögnuð víða um land.
2. Ef landið moraði í spillingu og sukki, þá hefði ríkisborgararéttur væntanlegrar tengdadóttur Jónínu Bjartmarz ekki verið fyrsta frétt fjölmiðla í viku. Vorið 2007 kallar það á heillarviku umræður að hugsanlega hafi þingmenn vitað að kona sem fékk ríkisborgararétt byggi heima hjá Jónínu Bjartmarz og að hugsanlega hefði það verið þess vegna sem hún þurfti ekki að bíða lengi eftir ríkisborgararéttinum.
„Alþingismaður getur þannig lagt fram eða stutt frumvarp um að Robert Fischer fái ríkisborgararétt, en fær ekki við það nokkra skyldu til þess að leggja fram eða styðja frumvarp um að Boris Spassky fái slíkan rétt, jafnvel þó hann færi fram á það. Kjósendur þingmannsins kynnu vissulega að vilja vita hvað réði slíkri afstöðu hans, en það breytir ekki þeirri staðreynd að engar reglur væru brotnar. Þingmönnum er algerlega óskylt að hafa nokkurt samræmi í því hvernig þeir fara með atkvæði sitt á þingi.“ |
Raunar er margt fleira að segja um langlokurnar sem ákveðnir fjölmiðlar buðu upp á vegna þessarar tengdadóttur. Fyrst gengu fréttirnar einkum út á að konan hefði fengið íslenskan ríkisborgararétt með sérlögum, „þrátt fyrir“ – eins og alvarlegir fréttamenn orðuðu það – að uppfylla ekki skilyrði þess að geta fengið hann án sérlaga. Í lok umfjöllunarinnar var málið hins vegar hversu skammur tími hefði liðið frá því að konan lagði inn umsókn í ráðuneyti þar til alþingi afgreiddi frumvarp þar sem hún og fleiri fengu þennan rétt. Virtust fréttamenn álíta, að máli skipti samanburður við bið þeirra sem fá ríkisborgararéttinn hjá ráðuneytinu, þó augljóst megi vera, að sá tími sem iðulega líður þar til umsóknir eru samþykktar, helgist af því að drjúgur tími fari í að afgreiða umsagnir um þá sem uppfylla hin hlutlægu skilyrði. Það þarf varla að liggja mánuðum saman yfir þeim umsækjendum sem augljóslega uppfylla ekki mælanlegt skilyrði eins og tímalengd dvalar.
Fréttaflutningurinn af málinu er ekki síðra rannsóknarefni en málið sjálft. Það er nefnilega óhætt að fullyrða að fréttamagnið, og alvarleikasvipurinn á hálfri fréttastofunni, hafi snemma komist út fyrir tilefnið, og það eins þó að Jónína Bjartmarz hefði ofsótt heila þingnefnd í allan vetur um að nefndin legði nú til að konan fengi ríkisborgararéttinn. Sennilega helgaðist framganga fréttamanna þó ekki af löngun til þess að útrýma Framsóknarflokknum, þó ekki sé útilokað að einhverjir þeirra teldu það makleg málalok. Líklega trúðu þeir frekar að þeir væru með landráðamál í höndunum.
Eitt smáatriði er það, sem lítill áhugi hefur verið á að ræða í þessu máli.
Það er sú staðreynd að augljóst er að engar reglur hafa verið brotnar.
Hvernig er hægt að fullyrða það?
Ríkisborgararéttur er jafnt og þétt veittur þeim sem um hann sækja og uppfylla skilyrði sem talin eru upp í lögum. Tvisvar á ári gerist það hins vegar að alþingismenn taka sig til og samþykkja sérstök lög þar sem einfaldlega er samþykkt að ríkisborgararétt skuli öðlast hópur manna, sem þar er talinn upp. Þetta eru þá sérlög, án alls rökstuðnings, og veita þessum einstaklingum réttinn. Það er fullkomlega á valdi hvers og eins alþingismanns hvaða frumvarp hann leggur fram og hvernig hann greiðir atkvæði um frumvörp. Rétt eins og þingmenn eiga það bara við sig hvernig þeir fara að í þingstörfum sínum og þurfa ekki að gæta þar frekara samræmis og jafnræðis en þeim sjálfum þykir eiga við. Þannig getur þingmaður ef hann vill látið sér nægja að skipta sér eingöngu af málum eins kjördæmis eða jafnvel eins bæjar, fyrirtækis eða hagsmunahóps. Þingmaður getur lagt fram fyrirspurnir og frumvörp í þágu hvers sem hann vill og þarf einskis samræmis að gæta þar.
Alþingismaður getur þannig lagt fram eða stutt frumvarp um að Robert Fischer fái ríkisborgararétt, en fær ekki við það nokkra skyldu til þess að leggja fram eða styðja frumvarp um að Boris Spassky fái slíkan rétt, jafnvel þó hann færi fram á það. Kjósendur þingmannsins kynnu vissulega að vilja vita hvað réði slíkri afstöðu hans, en það breytir ekki þeirri staðreynd að engar reglur væru brotnar. Þingmönnum er algerlega óskylt að hafa nokkurt samræmi í því hvernig þeir fara með atkvæði sitt á þingi. Eða eins og stundum er sagt, þeir eru eingöngu „bundnir við sannfæringu sína“. Það er enginn réttur brotinn á Spassky þó enginn þingmaður kjósi að leggja fram samskonar frumvarp um hann og um Fischer. Afgreiðsla alþingis á lagafrumvarpi, svo sem um ríkisborgararétt, skapar ekkert „fordæmi“, eins og segir sig sjálft.
Og það mega allir hvetja þingmenn til að flytja frumvörp. Jónína Bjartmarz hefði enga reglu brotið þó hún hefði suðað í allsherjarnefndarmönnum dag og nótt.
Með þessu er ekki sagt að óeðlilegt sé að segja frá máli eins og hins nýja Íslendings, tengdadóttur Jónínu. Þó þingmenn séu alfarið sjálfráðir um það hvernig þeir fara með þingsæti sitt, þá er ekki þar með sagt að það komi kjósendum ekki við. En réttarhöldin og dramatíkin sem boðið hefur verið upp á undanfarið, eru langt umfram tilefni. Og þegar slíkt gengur á, kvöld eftir kvöld, rúmri viku fyrir alþingiskosningar, þá verður eitthvað óþægilegt að fylgjast með því. Alveg eins þó menn gætu kannski best trúað að Jónína hafi beðið einhverja um að hafa nú stelpuna með í upptalningunni þetta árið.