Laugardagur 5. maí 2007

125. tbl. 11. árg.

J ónmundur Guðmarsson oddviti sjálfstæðismanna og bæjarstjóri á Seltjarnarnesi vakti í gær athygli á því með grein í Morgunblaðinu að eitt umræðuefni hefði gleymst í kosningabaráttunni. Þetta umræðuefni er skuldastaða ríkisins, en það hefur yfirleitt verið mjög til umræðu fyrir kosningar þó að enginn minnist á það nú. Ástæðan, segir Jónmundur, er sú að íslenska ríkið er orðið svo að segja skuldlaust. Þetta hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar, en sem kunnugt er þá snúast fréttir og umræður fyrir kosningar meira um vandamál en árangur og væntanlega geta allir fallist á að það er nokkur árangur ríkissjóður skuli vera svo gott sem skuldlaus.

Þetta hefur nefnilega ekki alltaf verið svo, eða eins og segir í greininni: „Mörg dæmi mætti nefna um óábyrga fjármálastjórn hjá hinu opinbera en hér skulu aðeins nefnd tvö. Í tíð síðustu vinstri stjórnar, sem Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna átti sæti í, jukust skuldir ríkisins til að mynda gríðarlega. Sama má segja um skuldir Reykjavíkurborgar í tíð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar. Það er engin ástæða til að ætla að þróunin hjá ríkissjóði yrði með öðrum hætti ef þessir tveir stjórnmálaforingjar fengju tækifæri að loknum kosningum til að mynda hið svokallaða kaffibandalag í samvinnu við Frjálslynda flokkinn.“

En það eru fleiri sjóðir en ríkissjóður sem eru nánast skuldlausir, því svipaða sögu er að segja um bæjarsjóðinn á Seltjarnarnesi. Á vef bæjarins má lesa um fjárhagsstöðu hans í nýjustu fundargerðinni og þar kemur fram að bærinn hefur verið að greiða niður skuldir og á nú fjáreignir sem hann ávaxtar og notar vaxtatekjur til framkvæmda.

Það sem hér hefur verið sagt um ólíka þróun skulda, annars vegar hjá núverandi ríkisstjórn og bæjarstjórn á Seltjarnarnesi og hins vegar hjá síðustu vinstri stjórnum hjá ríki og borg, er ekki síst athyglisvert fyrir það hvernig þróun skatthlutfalla hefur verið hjá þessum stjórnum. Vinstri stjórnirnar eiga það sameiginlegt að hafa hækkað skatthlutföll linnulaust allan valdaferil sinn, en hinar stjórnirnar, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og bæjarstjórn Sjálfstæðisflokksins, hafa jafnt og þétt lækkað skatthlutföllin.

Vinstri menn halda því gjarnan fram að það sé óábyrgt að lækka skatta – eða að lofa skattalækkunum fyrir kosningar. Reynslan sýnir þvert á móti – og þá er ekki aðeins verið að vísa til þessara tveggja dæma – að skattalækkanir eru eina ábyrga afstaðan í opinberum fjármálum.