Hér er dregin sú ályktun að vaxandi ásókn til hjálparstofnana vegna fátæktar hafi m.a. aukist eftir að Félagsþjónustan í Reykjavík þrengdi verulega heimildarbætur, m.a. skyndiaðstoð/neyðaraðstoð sem verið hafði til fjölda ára, þ.e. eftir breytingar á starfsreglum 1995. |
– Fátækt á Íslandi við upphaf nýrrar aldar eftir Hörpu Njáls. |
N ú auglýsa vinstriflokkarnir að þeir ætli að útrýma fátæktinni og afnema biðlistana. „Burt með fátæktina“ og „afnemum biðlistana“. Litlar útskýringar fylgja þessum fallegu slagorðum frá VG og Samfylkingu. Þá er ekki annað að gera að líta til þess hvernig þessir flokkar hafa gert þetta þar sem þeir hafa stjórnað nýlega.
Í stjórnartíð R-listans í Reykjavík beið gamla fólkið í borginni eftir hjúkrunarplássum. En R-listinn „afnam biðlistana“ með einföldum hætti. Hann hætti að skipuleggja ný hjúkrunarheimili í borginni og þar með var ekki eftir neinu að bíða. Annars staðar á landinu var biðlistunum hins vegar útrýmt með því að útvega plássin sem þurfti en það er auðvitað bæði dýrari og flókari lausn en sú sem R-listinn beitti.
Svo verður tekið til við að útrýma fátæktinni. Burt með hana segja þeir. Ef leita á aftur í smiðju R-listans þá hefur verið sagt frá því í bók, sem sjálf Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur jafnað við Biblíuna, hver var ein ástæða þess að ásókn til hjálparstofnanna jókst mjög í stjórnartíð R-listans. Það voru breyttar starfsreglur félagsþjónustunnar í Reykjavík í tíð vinstristjórnarinnar í borginni. Í bókinni er einnig að finna töflu sem Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá:
Á blaðsíðu 180 í umræddri bók er tafla þar sem sýnt er hvernig bætur frá Tryggingastofnun ríkisins annars vegar og Félagsþjónustu Reykjavíkur hins vegar, þróuðust á árunum 1995 til 2000. Taflan sýnir greiðslur til lífeyrisþega að raunvirði, örorkulífeyri, tekjutryggingu og greiðslu frá Félagsþjónustu Reykjavíkur. Svo undarlega sem það nú kann að virðast miðað við málflutning Ingibjargar þá hækkuðu greiðslur ríkisins til lífeyrisþega um 31% á þessum árum en greiðsla Reykjavíkurborgar lækkaði um 32% á sama tímabili. Og það er rétt að taka fram að þessi þróun varð ekki vegna óviðráðanlegra ytri atburða; starfsreglum Félagsþjónustunnar í Reykjavík var breytt árið 1995. |
Með því að þrengja skilgreiningar á fátækt má auðvitað „losna við“ vandann að verulegu leyti. Þetta þótti vinstri flokkunum í Reykjavík heillaráð á meðan þeir stjórnuðu borginni. Þótt færri ættu rétt á að vera í biðröð hjá félagsþjónustu borgarinnar hvarf fátæktin hins vegar ekki. Vandinn færðist til einkarekinna hjálparstofnana í borginni. En vinstri flokkarnir eru að sjálfsögðu alfarið á móti öllu einkaframtaki í velferðarþjónustu. Það voru því leið mistök frá sjónarhóli vinstri flokkanna að fátækir gátu leitað á náðir sjálfstæðra hjálparstofnana þegar þeir höfðu verið skilgreindir út af biðlistum félagsþjónustu Reykjavíkur. Auðvitað áttu þeir ekki að haga sér eins og fátæklingar þegar vinstriflokkarnir voru búnir að skilgreina fátæktina burt.
Eitt síðasta verk vinstri manna í Reykjavík var að efna til könnunar á því hvort lóðaskortur væri í borginni en því höfðu þeir staðfastlega neitað í 12 ára stjórnartíð sinni. Þar sem er ekkert að hafa stendur enginn í röð. Engir biðlistar voru eftir lóðum í borginni því engar lóðir var að fá. Könnunin fólst í því að auglýsa 30 lóðir við Lambasel til umsóknar.
Í borginni án biðlista varð öngþveiti hjá byggingarfulltrúa borgarinnar þegar nær tvöhundruð manns sóttu um hverja lóð sem í boði var eða tæplega sexþúsund umsækjendur alls. Þegar til úthlutunar kom tókst borgaryfirvöldum svo að afsanna nokkrar helstu kenningar um líkindi og tölfræði.