V instrigrænir heyja þessa dagana kosningabaráttu undir slagorðinu „Allt annað líf – með vinstrigrænum“. Blessaðir mennirnir virðast trúa því, að undanfarin ár hafi svo hallað undan fæti hjá fólki að nú þurfi að snúa við blaðinu og ná fram allt öðru lífi – og það með vinstrigrænum.
Hvernig hafa lífskjör almennings þróast undanfarin ár?
Það er óþarfi að þylja upp hagtölur eina ferðina enn. Flestir óbrjálaðir menn vita að kaupmáttur bæði tekna launafólks og bóta þeirra sem bætur þiggja, hefur vaxið á áður óþekktum hraða undanfarin ár. Eru það gríðarleg umskipti frá síðustu vinstristjórnarárum, eins og þeir vita sem muna nógu langt aftur.
En hvar er góðærið mitt? spyr stundum einhver sem ekki kannast við að hagur hans hafi batnað á liðnum árum.
Nú er auðvitað ekki mikið vit að alhæfa um aðstæður hvers einasta manns, enda margt í lífi hvers einstaklings sem skiptir meira máli en kaupmáttur tekna hans. En getur mörgum dulist hvernig Ísland hefur breytt um svip síðustu árin?
Hvernig voru dæmigerð lífskjör fyrir fimmtán árum? Hefði dæmigerð fjölskylda getað rekið persónulegan síma á mann, verið áskrifandi að ótal sjónvarpsstöðvum sem hún horfði á í jafnvel nokkrum tækjum á heimilinu, uppfært ekki aðeins heimilistölvuna heldur líka þá í unglingaherberginu á hverju ári, keypt ný húsgögn og heimilistæki af og til, skellt vænu lærinu á fullkomið gasgrillið, skroppið í utanlandsferðir án þess að gera ráðstafanir til þess með tveggja ára fyrirvara, farið á veitingastað af og til, verið á bíl sem ekki var tíu ára gamall og beyglaður, verið fyrir á þjóðveginum með alltof langan tjaldvagninn, bætt „nýju eldhúsi“ og „nýju baðherbergi“ við íbúðakaupin, sparað með því að kaupa hlutabréf og verðbréf, og svo framvegis og svo framvegis.
Auðvitað er það ekki svo, að allir hafi allt til alls. Sumir geta leikandi veitt sér allt þetta og miklu meira til. Aðrir verða að láta sér minna nægja. Sumir miklu minna. En tækifærin hafa opnast á svo ótal mörgum sviðum. Þúsundir og aftur þúsundir af hálaunastörfum hafa opnast fólki sem vill hasla sér völl, tekjur hafa aukist stórkostlega og það sem miklu meira máli skiptir, kaupmátturinn, það sem fólk fær fyrir hverja krónu, hefur gert það líka. Einnig kaupmáttur þeirra sem minna bera úr býtum. Þar að auki hafa skattar til ríkisins verið lækkaðir töluvert og sumir felldir alveg niður.
Ekki er allt það sem vel gengur, stjórnvöldum að þakka. Ekki frekar en öll óáran sé þeim að kenna. En það eru sífelld skref til aukins frelsis sem hafa lagt grunninn að þeim efnahagsbata sem Íslendingar hafa notið jafnt og þétt á síðustu árum. Þau skref hafa fæst verið stigin andstöðulaust.
Og það er auðvelt af snúa af þeirri braut sem farin hefur verið undanfarin ár. Þeir eru til sem bjóða landsmönnum upp á að hverfa aftur til allt annars lífs.
B jarni Ármannsson var í fréttum í gærkvöldi spurður um greiðslur samkvæmt samningi hans við fyrrverandi vinnuveitendur hans í Íslandsbanka. Hann sagði að þær væru allar trúnaðarmál.
Það er auðvitað skiljanlegt.
Æ hvað hét hann aftur bankastjórinn sem hélt ræðu á landsfundi Samfylkingarinnar fyrir hálfum mánuði og krafðist þess að „launaleynd“ yrði bönnuð með lögum?
Í fréttum í gær var því haldið fram að „Baráttusamtökin“ hefðu dregið framboð sitt í norðausturkjördæmi til baka. Hvernig fara menn að því?