Fimmtudagur 19. apríl 2007

109. tbl. 11. árg.

Í gær fjallaði Vefþjóðviljinn um eitt af þeim fjölmörgu málum sem íslenskir fjölmiðlamenn höfðu látið stjórnarandstöðuna óspurða um; styrkbeiðnina til Alcan. En spurningarnar sem sjaldan rata í fréttatíma eru ótalmargar.

Á dögunum var Ögmundur Jónasson spurður að því hvort vinstrigrænir myndu hækka skatta ef þeir kæmust til valda. Þeirri spurningu svaraði Ögmundur þannig, að vinstrigrænir myndu ekki hafa skattana hærri en þeir hefðu verið. Fréttamaðurinn spurði einskis frekar um skattamál, sem þó hefði átt að liggja beint við. Vinstrigrænir ætla sem sagt ekki að miða skatta við það sem þeir eru í dag – heldur við það sem þeir voru einu sinni. Með öðrum orðum: Þeir ætla sér að taka aftur skattalækkanirnar sem núverandi stjórnvöld hafa staðið að!

Út af fyrir sig þarf það ekki að koma á óvart. Í tólf ár fengu Reykvíkingar að kynnast vinstristjórn í framkvæmd þegar R-listinn sat hróðugur í ráðhúsinu. Sá tími einkenndist af skattahækkunum og stórfelldri skuldasöfnun borgarinnar. Og það sem meira var, vinstrimeirihlutinn sætti iðulega færis að fela skattahækkanir sínar með því að hækka útsvarið á sama tíma og ríkisstjórnin stóð fyrir tekjuskattslækkun. Borgarbúar voru því sífellt snuðaðir um skattalækkanirnar sem Alþingi hafði ákveðið.

Nái vinstrimenn því markmiði sínu að koma vinstristjórn að hætti R-listans fyrir í stjórnarráðinu munu þeir – svo vitnað sé beint í hótanir Ögmundar Jónassonar – koma sköttum til ríkisins aftur upp í það sem þeir voru áður en núverandi ríkisstjórn tók til við skattalækkanir. Vinstrimenn munu þannig ná að tvístela sömu skattalækkununum og setja þannig enn eitt metið.