Þriðjudagur 17. apríl 2007

107. tbl. 11. árg.

M eð því að vinna það afrek að hlusta á upptöku af landsfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi má komast að því hve margir greiddu atkvæði í kjöri til framkvæmdastjórnar flokksins. Samfylkingin hefur ekki veitt fjölmiðlum þessar upplýsingar af ókunnum ástæðum. Á upptökunni kemur fram í máli formanns kjörstjórnar að 454 atkvæði hafi verið greidd í kjörinu og kosningaþátttaka hafi verið 72,8%. Kosningarétt í kjörinu höfðu því 623,6 sem er vonandi óhætt að námunda í 624 þótt Jón Baldvin hafi verið á fundinum. Það voru því 624 fulltrúar sem mættu á fundinn og höfðu atkvæðisrétt í þeim kosningum sem fram fóru.

Á heimasíðu Samfylkingarinnar segir að fundurinn um helgina hafi verið „fjölmennasti landsfundur í sögu Samfylkingarinnar“ og sömu sögu hafa ýmsir talsmenn flokksins sagt hróðugir í fjölmiðlum undanfarna daga. Þetta er áhugavert sjónarmið. Á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar árið 2005 skiluðu 839 atkvæði sér í varaformannskjöri eins og frægt varð. Þá voru 893 á kjörskrá og kjörsókn því glimrandi 94%. Fundurinn 2005 var samkvæmt þessu mun fjölmennari.

 Á þessu geta verið tvær skýringar.

Annað hvort var fundurinn 2005 fjölmennari en fundurinn nú um helgina þótt Samfylkingarmenn segi annað. Eða Samfylkingin er loks að viðurkenna að rangt var haft við í varaformannskjörinu 2005.

Þ

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar greiðir enn félagsgjöldin í flokki hinna „staðföstu stríðsherra“.

eir eru ekki margir nú orðið sem styðja Íraksstríðið, eins og það er kallað að vilja ekki gefast upp fyrir þeim sem fylla bíla af sprengiefni og skilja þá eftir við markaði, lögreglustöðvar og moskur í Bagdad í þeim tilgangi einum að valda limlestingum og dauða og skapa örvæntingu og upplausn meðal almennra borgara.

Helstu aðstandendur innrásarinnar í Írak árið 2003, George W. Bush, Tony Blair og John Howard hafa engu að síður fengið endurnýjað umboð þjóða sinna í kosningum eftir að ljóst varð að ekki tækist að stilla til friðar í Írak á nokkrum mánuðum. Á engan er þó hallað þótt sagt sé að Tony Blair leiðtogi breska Verkamannaflokksins hafi lagt mest undir í þessu máli. Margir flokksmenn hans hafa snúið við honum baki. En þó ekki allir.

Íslendingar eru eðli máls samkvæmt ekki margir í breska Verkamannaflokknum og einhverjir væru sjálfsagt búnir að segja bless af minna tilefni en Íraksstríði. Til dæmis menn sem gengu úr Alþýðubandalagi í Alþýðuflokk og gáfu þá skýringu að þeir hafi verið þreyttir á átökum og erjum í Alþýðubandalaginu. Þeir myndu varla láta bjóða sér að vera félagar í Verkamannaflokknum og þar með „þátttakendur í ólögmætu árásarstríði“.

Össur Skarphéðinsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar upplýsti á dögunum að hann greiði enn félagsgjöldin í Verkamannaflokk Tony Blair og hafi gert allt frá námsárum sínum í Bretlandi. Sumir eru staðfastari en aðrir.