Miðvikudagur 28. mars 2007

87. tbl. 11. árg.

D agblaðið Blaðið ákvað í gær að sýna lesendum sínum þá virðingu að blekkja þá með því að segja þeim aðeins hálfsannleik í forsíðufrétt sinni. Blaðinu þótti fréttin raunar svo mikilvæg, að hún var ekki aðeins birt á forsíðu heldur einnig á blaðsíðu fjögur. Ekkert var til sparað þennan daginn til að lesendur fengju ranga mynd af veruleikanum.

Fréttin gekk út á það að andstaða Sjálfstæðisflokksins við aðild að Evrópusambandinu gengi gegn hefð flokksins og að með formannsskiptum sé stefna flokksins önnur, en það taki „tíma að losna um límið“. Öll þessi vísindi eru höfð eftir sama manninum, enda þarf ekki að leita fleiri heimilda þegar tekst að hafa upp á fræðimanninum Eiríki Bergmann Einarssyni, dósent í stjórnmálafræði og forstöðumanni Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. Þegar svo vandaður fræðimaður fæst til að tjá sig um stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum og þá breytingu sem nú stendur að hans sögn yfir á þeirri stefnu, þá þurfa dagblöð ekki að segja fréttir af öðru þann daginn.

Það eina sem vantaði upp á fréttina var það lítilræði að hinn virti fræðimaður er ekki alveg jafn óumdeildur og hlutlaus vísindaiðkandi og lesendur voru látnir halda. Það vill nefnilega svo til að Eiríkur Bergmann Einarsson er varaþingmaður Samfylkingarinnar, sem hefði ef til vill sett aðfinnslur hans við stefnu Sjálfstæðisflokksins í annað ljós, hefðu lesendur verið upplýstir um þá hlið hans.

Og það hefði jafnvel sett kenningar hans í enn sérkennilegra ljós ef blaðamaðurinn, Atli Ísleifsson, hefði haft fyrir því að kanna réttmæti þeirra. Vefþjóðviljinn hefur sannreynt að hann hefði á um það bil fimm mínútum getað sótt ræðu þáverandi formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins frá síðasta landsfundi flokksins. Í ræðu annars þeirra er þetta að finna:

Engir áþreifanlegir íslenskir hagsmunir kalla á aðild að Evrópusambandinu, en margt mælir hins vegar á móti. Á meðal margra ókosta er auðvitað afsal á fullveldi Íslands, sjávarútvegsstefna ESB og geysileg miðstýring sem innbyggð er í sambandið, auk þess sem beint aðildargjald yrði í okkar tilfelli margir milljarðar á ári í sjóði ESB. Aðalatriðið er þó að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið gengur vel. Hann tryggir alla okkar helstu hagsmuni í ESB, en einkum aðgang að þessum mikilvæga markaði fyrir íslenskar vörur og þjónustu, fjárfestingar og vinnuafl. Það er misskilningur að senn dragi að einhverju skapadægri eða ögurstund í samskiptum Íslands og ESB.

Í ræðu hins má finna þetta:

Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið tryggir okkur aðgang að innri markaði sambandsins. Þar með njótum við helstu kosta aðildar án þess að vera meðlimir og þurfa að sæta ókostunum. Jafnframt er ljóst að aðild að Evrópusambandinu yrði okkur Íslendingum dýrkeypt. Sjávarútvegskommisarar sambandsins hafa komið hingað til lands og útskýrt að auðvitað fengju Íslendingar engar undanþágur frá sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni. Einungis væri hægt að fá tímabundna aðlögun og þeir hafa undirstrikað að vilji menn ganga í klúbbinn þá verði þeir að undirgangast reglurnar. Í þessu felst engin ósanngirni. Þetta skilja auðvitað allir en sumum gengur hins vegar illa að sætta sig við þetta og kjósa af tvennu illu að lifa í lyginni. Það liggur líka fyrir að aðild að Evrópusambandinu myndi reynast okkur mjög dýr. Aðgöngumiðinn myndi kosta mörg þúsund milljónir á ári hverju.

Greinilegt er af þessum ræðubútum að mennirnir tveir eru sammála um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu, en til upplýsingar má geta þess að fyrri ræðubúturinn er úr ræðu þáverandi varaformanns flokksins, Geirs H. Haarde, en seinni búturinn er úr ræðu þáverandi formanns flokksins, Davíðs Oddssonar. Ekkert hefur komið fram síðan sem styður þá skoðun varaþingmanns Samfylkingarinnar, Eiríks Bergmanns Einarssonar, að stefna Sjálfstæðisflokksins sé að breytast í þessu máli. Þvert á móti þá hefur núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins haldið fram óbreyttum sjónarmiðum um hugmyndir um aðild.

Ekki er aðeins sérkennilegt að Blaðið skuli með þessum hætti kjósa að blekkja lesendur sína. Það er ekki síður sérkennilegt að nafn háskóla sé lagt við jafn ódýran pólitískan áróður.