Þriðjudagur 27. mars 2007

86. tbl. 11. árg.

Samfylkingin er athyglisvert nafn á flokki þeirra vinstri manna sem vilja ekki sameinast í stóra vinstriflokknum, VG, um þessar mundir. En nafn flokksins er þó ekki það eina sem gengur ekki alveg upp í aðdraganda alþingiskosninganna.

Samfylkingin er eini flokkurinn sem farinn er að birta stórar auglýsingar í dagblöðunum. Í gær birtist til dæmis auglýsing í Fréttablaðinu með yfirlýsingu frá tveimur frambjóðendum Samfylkingarinnar; Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og Guðmundi Steingrímssyni. Í yfirlýsingu skötuhjúanna segir:

Við munum tryggja að Framkvæmdasjóður aldraðra verði aðeins notaður í uppbyggingar í þeirra þágu. Það er hneisa að ráðherrar hafi notað sjóðinn í handahófskennda styrki og gæluverkefni, þegar um 400 manns í brýnni þörf eru á biðlista eftir hjúkrunarrými og meira en 900 búa í þvingaðri samvist við ókunnuga á hjúkrunarheimilum.

Engar smáræðis ásakanir þarna. Hneisa og gæluverkefni. Í auglýsingunni var jafnframt birt blaðaúrklippa þar sem mátti sjá ásakanir um að sjóður aldraðra hefði verið látinn punga út fyrir óperusöng.

Þessum ásökunum hefur fyrst og fremst verið beint að Siv Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra og virðast þær eiga upptök sín hjá liðsmönnum Samfylkingarinnar innan Landssambands eldri borgara.

En svo bara gerist það í sjónvarpsfréttum, nokkrum stundum eftir að Samfylkingin ræðst með látum á ráðherra fyrir „hneisuna“ að stjórn Landssamband eldri borgara segir að fullyrðingar um að úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra hafi ekki verið í samræmi við lög hafi byggst á misskilningi. Æ, æ.

Getraun dagsins er svo eðlilega: Hvað hafa Ásta Ragnheiður og Guðmundur Steingrímsson oft verið í sama stjórnmálaflokki, hvaða flokkar voru það og hvað hafa þau samanlagt verið í mörgum flokkum? Eiga Guðmundur og Ásta Ragnheiður Íslandsmetið í tvenndarleik í flokkaflakki?