H ver er aftur munurinn á Samfylkingunni og campari? Jú, bæði eru að vísu rauð og bitur, en campari nær þó 21 % styrkleika.
Í Mosfellssveit hefur verið ákveðið að götur í nýju hverfi beri nöfn kvenpersóna úr verkum Halldórs Laxness. Það er að mörgu leyti vel til fundið. Gaman hefði samt verið að vita hvernig lætin hefðu orðið ef ákveðið hefði verið að nefna göturnar eingöngu eftir karlpersónum úr verkum skáldsins. Ætli femínistafélagið, Morgunblaðið, og minnihlutinn í bæjarstjórn hefðu ekki haft eitt og annað hófstillt að segja við slík tíðindi. En þegar aðeins er nefnt eftir konum, þá mun ekki heyrast aukatekið orð – sem auðvitað væri ástæðulaust.
Kannski ættu spaugarar samt að fara á stað, svona eins og femínistar gera svo gjarnan í mikilli alvöru. Fara og heimta að til mótvægis við Sölkugötu, Uglugötu og Snæfríðargötu komi Bogesenbraut, Árlandsstígur og Via Arnæi.
A nnars er aldrei að vita hvaða kynjakröfur verða gerðar næst. Þannig eru menntamálaráðuneytið og Ríkisútvarpið núna búin að semja um það að í svonefndum íþróttafréttum og öðrum íþróttasýningum verði framvegis gætt jafnræðis milli kynja. Ekki er gott að segja hvers vegna slíkt samkomulag er gert. Úrslit íþróttakappleikja hafa vitaskuld ekki almenna þýðingu og eru að jafnaði ekki fréttnæm, í hefðbundnum skilningi þess orðs. Það er hins vegar vitað að margir hafa áhuga á slíku, og ekkert óeðlilegt að fjölmiðill mæti slíkum áhuga með sýningum frá kappleikjum. En slíkar sýningar í opinberum fjölmiðli hljóta þá að miðast við áhugann sem á þeim er – ekki mínútutalningu eftir kynferði keppenda.
En skemmtilegt verður þegar samningurinn verður að fullu kominn til framkvæmda og fyrir hverja mínútu sem sagt verður frá úrvalsdeild breskra karlmanna í knattspyrnu verður önnur lögð undir nýjustu tíðindi af bresku kvennaknattspyrnunni. Svo „jafnræðis verði gætt“.