Helgarsprokið 25. mars 2007

84. tbl. 11. árg.

Í

Stjórnarskrár Bandaríkjanna og Íslands eru lítilfjörlegar á að líta miðað við símaskrána sem íbúar Evrópusambandsins verða þvingaðir til að taka upp sem stjórnarskrá. Engu mun breyta þótt þeir hafi kolfellt hana í þjóðaratkvæðagreiðslum í tveimur aðildarríkjum.

dag fagnar Evrópusambandið (ESB) 50 ára afmæli sínu. Hinn 25. mars 1957 undirrituðu leiðtogar 6 ríkja Rómarsáttmálann sem lagði grunninn að Efnahagsbandalagii Evrópu (EBE) sem var forveri ESB. Ríkin voru Belgía, Holland, Lúxemborg, Frakkland, Ítalía og Vestur-Þýskaland. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. ESB hefur stækkað gífurlega og eiga nú 27 ríki aðild að sambandinu. Jafnframt hefur samstarfið verið aukið og nær til sífellt fleiri sviða. Raunar er ESB orðið að einhvers konar blöndu ríkis, sambandsríkis og alþjóðastofnunar. Uppbygging og stofnanaumhverfið er flókið og framandi flestum. Sífellt erfiðara verður fyrir borgara ESB að átta sig á því hvar mörkin milli þjóðríkis þeirra og ESB liggja. Auk þess reynist það borgurunum sífellt örðugara að fylgjast með og setja sig inn í allan þann fjölda ákvarðana, sem hefur áhrif á daglegt líf þeirra, sem tekin er í Brussel. Er því ekki að undra, að vinsældir sambandsins séu takmarkaðar meðal borgaranna. Kannanir sem Eurobarometer gerir sýna að stór hluti íbúa margra ESB ríkja eru beinlínis óánægður með sambandið. Könnun sem Financial Times lét gera nýlega í 5 kjarnaríkjum ESB sýndi að tæplega helmingur taldi að lífsgæði þeirra hefðu versnað eftir að landið gerðist aðili að sambandinu. Rúmlega fimmtungur taldi að land þeirra ætti að segja sig úr ESB. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að almenningur í aðildarríkjunum er ekki nema rétt mátulega sáttur við þróun ESB. Þetta eru athyglisverðar niðurstöður á 50 ára afmælisári, þegar miklu er tjaldað til við að reyna að sýna fram á ágæti sambandsins.

„…ljóst að stjórnarskránni verði að koma í gegn, þó meirihluti borgara í tveimur ríkjum hafi hafnað henni. Þeir eru jú aðeins minnihluti borgara sambandsins. Hví ættu þeir að geta stöðvað að tímamótastjórnarskráin, sem er búið að eyða svo mikilli vinnu í og sem er svo fullkomin og fín að hún telur heilar 300 síður, verði að grundvallarlögum borgara sambandsins. Já til hvers er þetta óútreiknanlega lýðræði, sem skilar ekki valdhöfunum ásættanlegum niðurstöðum?“

Nú er ætlunin að snúa vörn í sókn. Það er yfirlýst markmið Þýskalands sem nú gegnir formennsku í sambandinu, að troða stjórnarskrá sambandsins upp á borgarana. Stjórnarskránni var að vísu hafnað af kjósendum í Frakklandi og Hollandi árið 2005 og ljóst var að borgarar fleiri ríkja voru afskaplega ósáttir við hana. Henni var hafnað í tveimur af fáum löndum sem náðarsamlegast höfðu ákveðið að leyfa borgurunum at taka afstöðu til hennar. Flest ríkin létu eða ætluðu að láta það nægja að láta þjóðþingið taka afstöðu til hennar. Þó er vel að merkja um að ræða stjórnarskrá sambandsins, grunnlögin sem eiga að vera öðrum lögum ofar, lög sem þurfa að njóta ríks lögmætis meðal borgaranna. Lög sem jafnframt þurfa að vera flestum nokkurn veginn skiljanleg. En 300 síðna málamiðlunar doðranturinn sem lagður var fram til samþykktar var auðvitað engan veginn til þess fallinn að uppfylla neitt af þessu. En Þýskaland ætlar sér sum sé að leysa kreppuna sem ríkt hefur í sambandinu frá því að stjórnarskránni var hafnað með því að fá hana samþykkta meira eða minna óbreytta. Evrópusambandið hefur nefnilega ætíð verið gæluverkefni og markmið hinnar pólitísku elítu, ekki borgaranna. Það hefur komið fyrir að borgarar sumra ríkja hafi fengið að taka afstöðu til einstakra mála í þjóðaratkvæðagreiðslu, en það er undantekningin. Og raunar hefur það einungis verið gert til að styrkja stoðir aðildar ríkisins meðal almennings í viðkomandi ríki. En sjaldnast hefur verið ætlunin að láta borgarana í raun ráða för. Enda hafa málin sem kosið hefur verið um og verið hafnað iðulega verið lögð fyrir þjóðina að nýju í óbreyttri eða lítið breyttri mynd eins og Vefþjóðviljinn fjallaði um hér. Það er bara látið kjósa þar til vilji elítunnar næst fram. En eftir það verður auðvitað ekki hreyft við neinu og borgurunum allra síst gefið færi á að hafa áhrif. Ekkert aðildarríki, að Grænlandi frátöldu, hefur nokkurn tíma látið þjóð sína taka afstöðu til hugsanlegrar úrsagnar úr sambandinu þegar það á annað borð er komið inn fyrir, þrátt fyrir að ljóst sé að sambandið sé ákaflega óvinsælt meðal þjóðarinnar. Ýmsir forystumenn sambandsins og sumra aðildarríkja sambandsins hafa rætt það bæði leynt og ljóst að stjórnarskránni verði að koma í gegn, þó meirihluti borgara í tveimur ríkjum hafi hafnað henni. Þeir eru jú aðeins minnihluti borgara sambandsins. Hví ættu þeir að geta stöðvað að tímamótastjórnarskráin, sem er búið að eyða svo mikilli vinnu í og sem er svo fullkomin og fín að hún telur heilar 300 síður, verði að grundvallarlögum borgara sambandsins. Já til hvers er þetta óútreiknanlega lýðræði, sem skilar ekki valdhöfunum ásættanlegum niðurstöðum?

Það gengur vitanlega gegn hugmyndum flestra um lýðræði, að yfirvöld standi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um sama atriðið, lítið eða ekkert breytt, þar til yfirvöld fá fram þá niðurstöðu sem þau vilja, en láti sér aldrei detta í hug að láta kjósa um það síðan þó mikil andstaða komi fram meðal almennings eftir að það er gengið í gildi. Um þetta ríkir firring meðal stjórnmálaelítu ESB.

Vefþjóðviljinn hefur á stundum bent á hversu ólýðræðislegt Evrópusambandið er, sem til dæmis má lesa í tilvitnuninni að ofan og hér. Raunar svo, að ólíklegt má telja að sambandið uppfylli skilyrði um lýðræðislega stjórnarhætti sem það setur ríkjum sem óska eftir aðild að sambandinu. Það er ófagur vitnisburður á 50 ára afmælinu.

Sýnu verra er þó að enginn veit hvernig ESB mun þróast eða hvernig það mun líta út eftir nokkur ár. Mikil óvissa ríkir um stærri og minni atriði sem snerta sambandið. Tekst Þjóðverjum, Spánverjum og Frökkum að troða stjórnarskránni í gegn? Verður gert ráð fyrir því í nánustu framtíð að sum ríkin geti gengið lengra í samrunaferlinu en önnur ríki skemur? Mun ESB fagna 100 ára afmæli? Sem sambandsríki, laustengdari alþjóðastofnun eða sem blendingur þar sem sum ríkin hafa nánast sameinast en önnur eru mun laustengdari og taka aðeins þátt í samstarfi á fáum sviðum? Hið skrýtna og jafnvel óhugnanlega er að enginn veit hvað verður og enginn spádómurinn sem menn keppast við að setja fram þessa dagana um framtíð sambandsins er líklegri en annar. Og það verður enn skrýtnara þegar litið er til þess að ekki er um að ræða nýja stofnun sem enn er á æskuskeiðinu. Nei, ESB fagnar 50 ára afmæli sem verður að teljast hár aldur alþjóðastofnunar.

Fylgismenn ESB reyna að nýta sér afmæli sambandsins til að reyna að beina kastljósinu að „kostum“ þess og gera allt til að draga fjöður yfir ókosti þess. Við höfum ekki farið varhluta af því hér á landi. Samfylkingin, sem minnkar reyndar ört ef marka má skoðanakannanir, og aðrir áróðursmenn aðildar Íslands að ESB, sem sumir kalla sig Evrópusérfræðinga, gera hvað þeir geta til að telja fólki trú um að ekki dugi mikið lengur fyrir Ísland að vera á hliðarlínunni og þegar til langs tíma sé litið sé aðild eini raunhæfi kosturinn. Menn hafa meðal annars haldið því fram að líklegt sé að Ísland geti fengið afar hagstæða samninga í aðildarviðræðum, ekki síst hvað varðar sjávarútvegsmál. Ekki geta menn nú reyndar stutt það efnislegum rökum en vitna til orða hinna og þessara. Setjum nú svo að satt sé og Ísland næði betri samningum í aðildarviðræðum varðandi sitt helsta hagsmunamál, fiskveiðar, vegna mikils velvilja en fátækari ríki álfunnar hafa náð á undanförnum árum. Það blasir við að svona smámál á mælikvarða sambandsins verður aldrei látið hafa áhrif á framgang eða grundvallarstefnu sambandsins. Þegar á reyndi litu sjónarmið Íslands vissulega í lægra haldi. Fullkomin óvissa ríkir um framtíð sambandsins. Raunar má segja að þrátt fyrir að sjávarútvegsmálin skipti Ísland miklu máli þá hangi miklu meira á spýtunni fyrir Ísland. Örríki hafa nánast engin áhrif í sambandinu og eiga erfitt með að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, ekki síst í 20.000 manna embættismannakerfi framkvæmdastjórnarinnar sem er mun valdameiri en ríkisstjórnir lýðræðisríkja eins og fjallað var um hér. Þegar til stórra hagsmuna kæmi myndu hagsmunir Íslands í sjávarútvegsmálum víkja. Á því er enginn vafi.

Ísland tekur ríkan þátt í samstarfi Evrópuríkja og hefur sú leið sem landið hefur kosið verið heillavænlegt. Aðild landsins að innri markaði ESB tryggir því flesta helstu kosta sambandsaðildar og að landið er laust við marga galla hennar.

Til allrar hamingju er Ísland ekki aðili að ESB og ekkert útlit fyrir að landið verði það.