Laugardagur 24. mars 2007

83. tbl. 11. árg.

U m síðustu helgi var samþykkt á alþingi lagafrumvarp sem meðal annars hefur í för með sér að ekki verður lengur lögð refsing við því að stunda vændi sér til framfærslu. Áfram verður hins vegar refsivert að hafa framfærslu af eða skipuleggja vændi annars manns. Þessi breyting er ánægjuleg enda hafði lengi verið barist fyrir henni, einkum af ýmsum baráttuhópum fyrir réttindum kvenna. Oft hefur því verið haldið fram, að stór hluti þeirra einstaklinga sem stundi vændi um lengri eða skemmri tíma, geri það gegn vilja sínum. Þegar þá hefur verið spurt hvers vegna þetta fólk kæri ekki þá einstaklinga sem bera ábyrgð á slíkri nauðung, hefur gjarnan verið svarað að það geti fólkið ekki, því með því væri það að játa á sig refsiverða háttsemi. Nú hefur þeirri hindrun verið rutt úr vegi og hlýtur það að vera þeim til fagnaðar sem hafa áhyggjur af fólki sem neytt sé til vændis.

Í fyrradag var sagt frá því í fréttum að samið hefði verið um útgáfu nýjustu skáldsögu íslensks rithöfundar, Stefáns Mána, á nokkrum erlendum málum. Þó slík tíðindi þyki auðvitað ekki eins fréttnæm nú og verið hefði fyrir nokkrum árum, þá er þetta vafalaust mikilvægur áfangi fyrir ungan en efnilegan höfund. En Stefán Máni hefur skrifað fleira en þessa nýju skáldsögu, Skipið. Þannig skrifaði hann grein í sumarhefti Þjóðmála í fyrra og fjallaði þar um listamannalaun og sagðist frekar vilja þiggja slíkar greiðslur frá fyrirtækjum en skattgreiðendum. Hann vilji ekki lifa af skattfé borgaranna heldur af eigin vinnu í beinu samhengi við dugnað sinn, metnað og árangur. Í greininni leggur Stefán til nýtt fyrirkomulag á starfslaunasjóðum listamanna og mun Vefþjóðviljinn láta ógert að segja hér kost og löst á þeim tillögum, en grein Stefáns Mána geta áhugasamir nálgast í sumarhefti Þjóðmála 2006 sem fæst í bóksölu Andríkis.

Fyrir rúmum tveimur árum sendi Stefán Máni hins vegar frá sér aðra bók sem vakti athygli. Svartur á leik segir sögu úr undirheimum Reykjavíkur þar sem ófyrirleitnir og harðskeyttir menn takast á af fyllstu hörku. Um þá bók hefur Vefþjóðviljinn fjallað nokkrum orðum, en hún áhugaverð fyrir margra hluta sakir, bæði persónanna, spennandi söguþráðarins sem og ýmissa athugana sögumanns.