Í
gær vék Vefþjóðviljinn að kastljósþætti þar sem rætt var um meintan launamun kynjanna. Oddný Sturludóttir varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og annar gestur þáttarins gat auðvitað ekki komist hænufet frá þeirri meinloku að konur séu fórnarlömb á vinnumarkaði. Enda virðist öll hennar þátttaka í stjórnmálum standa og falla með því að geta borið sig aumlega fyrir hönd kvenna. Henni er þó kannski vorkunn því þátttaka hennar í stjórnmálum hófst í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar þar sem hún og félagar hennar felldu Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra sem borgarstjóraefni flokksins. Og völdu í stað hennar ungan karl í forystu.
Oddný taldi til að mynda að launakannanir væru nokkuð vel gerðar og gæfu glögga mynda af ástandinu. Því til áréttingar nefndi hún að störfum væri skipt í marga flokka: „Þá er það auðvitað skipt niður í ótal titla, það er forstjóri, framkvæmdastjóri, aðstoðarframkvæmdastjóri, deildarstjóri, millistjórnendur, alveg niðrí bara símsvörun og að skúra“, sagði Oddný og benti á gólfið í sjónvarpssal til að ekki færi á milli mála að nú var komið niður á botn.
Næst þegar Oddný fékk orðið viðurkenndi hún svo að það væri gagnrýni vert að launakannanir tækju ekki tillit til þess hvort framkvæmdastjóri bæri ábyrgð á þremur eða þrjúhundruð starfsmönnum.
Talið barst svo að svonefndri launaleynd en það er nýjasta grýlan sem jafnréttisiðnaðurinn reynir að hrella landsmenn með. „Það er tvennt sem fræðasamfélagið leggur áherslu á að hjálpi til í baráttunni gegn þessum kynbundna launamun. Það er afnám launaleyndar, klárlega“, sagði Oddný. Líklega er óþarft að taka fram að Oddný benti ekki á gólfið þegar hún hóf ræðuna um „fræðasamfélagið“. En gefum okkur nú að „fræðasamfélagið“ tali einum rómi um flókið mál eins og launakjör tugþúsunda manna, launakannanir og þær ályktanir sem draga má af þeim. Það er auðvitað ekki svo í þessu tilviki en væri það ekki frekar til marks um að fræðasamfélagið væri staðnað og ófrjótt en nokkuð annað?
Þessi viðhorf Oddnýjar til ræstingafólks og þeirra sem svara í síma í fyrirtækjum annars vegar og svo lotning hennar gagnvart „fræðasamfélaginu“ hins vegar minna á orð sem Guðmundur J. Guðmundsson formaður Dagsbrúnar hafði um fólkið í forvera Samfylkingarinnar, Alþýðubandalaginu. Um þessa uppistöðu í Samfylkingunni sagði Guðmundur í viðtali við Gjallarhorn árið 1992 að hún væri „svona snobbaður listamannaflokkur“.
E n Vefþjóðviljinn er ekki einn um að hafa skoðanir á Kastljósi í fyrrakvöld. Nýr framkvæmdastjóri Stúdentaráðs heitir Alma Joensen og titlar hún sig einnig femínista. Hún var ekki sátt við málflutning Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur í þættinum og segir á heimasíðu sinni: „Rosalega sýður í mér þegar klárar stelpur láta karllægt samfélagið leiða sig út í algjöra þvælu.“ Þessi virðing Ölmu fyrir skoðunum kynsystur sinnar er væntanlega þáttur í því að vera femínisti.
Þessi naumt skammtaða virðing Ölmu fyrir skoðunum annarra er þó kannski ekki merkilegt mál þegar menn lesa hvers hún óskar Heiðrúnu og öðrum sem dirfast að efast um málstað femínista:
Mér finnst rosalega leiðinlegt þegar stelpur tala gegn málstað sem aðrar stelpur berjast harkalega fyrir. Málstaður sem er hagur ALLRA stelpna, en fellur í hlut allt of fárra að berjast fyrir. Ég ætla að minna á það að það er “staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annari”. |