E ins og menn vita varð á dögunum furðuleg umræða og tillögusmíð að breytingum á stjórnarskránni. Var þar lögð til svokölluð þjóðareign á náttúruauðlindum og var ekki annað að heyra á ólíkum stjórnmálamönnum en að þetta væri ákaflega áríðandi breyting. Að vísu féllu stjórnarandstæðingar frá stuðningi sínum við málið jafnskjótt og í ljós kom að stjórnarflokkarnir voru sammála um það, og þar með féll tillagan um sjálfa sig. Hitt er svo annað mál, að hætt er við því að tillagan muni síðar ganga aftur, í einhverri mynd, og því fagnaðarefni að nú er búið að gefa út bók sem varpar skýru ljósi á deiluefnið. Þjóðareign, þýðing og áhrif stjórnarskrárákvæðis um þjóðareign á auðlindum sjávar, er nýkomin út á vegum Rannsóknarstofnunar um samfélags- og efnahagsmál, en í bókinni fjalla fimm höfundar um þau álitamál sem vakna þegar lögð er til „þjóðareign“ á náttúruauðlindum.
Getur þjóð átt eign? Hvaða þýðingu hefði það fyrir réttarstöðu þeirra sem nú nýta náttúruauðlindir ef „þjóðin“ yrði skyndilega „eigandi“ þeirra? Eru aflaheimildir kannski eign, í skilningi stjórnarskrárinnar, og þar með verndaðar af henni eins og aðrar eignir fólks? Þessum spurningum og fleirum er leitast við að svara í ritgerðum lögfræðinganna Davíðs Þorlákssonar, Guðrúnar Gauksdóttur og Sigurðar Líndals, og hagfræðinganna Ragnars Árnasonar og Sigurgeirs B. Kristgeirssonar, en Birgir Tjörvi Pétursson lögfræðingur er ritstjóri bókarinnar.
Þetta nýja rit, Þjóðareign, er ánægjulegt innlegg í umræðu sem allt of lengi hefur verið spillt með upphrópunum og misskilningi. Bókin er önnur í röð fræðirita Rannsóknarstofnunar um samfélags- og efnahagsmál, en hin fyrri, Leyndardómur fjármagnsins, fæst einnig í bóksölu Andríkis. Þjóðareign kostar í Bóksölunni kr. 1900 og er sendingargjald innanlands innifalið í því verði eins og ætíð í bóksölunni.
Ú t er komið vorhefti tímaritsins Þjóðmála, en óhætt er að segja að það tímarit sé ómissandi öllum frjálslyndum áhugamönnum um þjóðmál og menningu. Í vorheftinu kennir að venju margra grasa. Björn Bjarnason skrifar um kosningaskjálfta sem greip framsóknarmenn á dögunum og braust út í furðulegum tilraunum til stjórnarskrárbreytinga á ofsahraða; Geir Ágústsson verkfræðingur fjallar um það hrollvekjandi efni, opinber fjármál í vinstrihöndum, og rifjar upp fjármálastjórn R-listans á höfuðborginni og ræðir hvaða vísbendingar hún gefur um hugsanlega vinstri stjórn á alþingi; Hannes H. Gissurarson fer yfir talnabrellur þeirra prófessora Stefáns Ólafssonar og Þorvaldar Gylfasonar; Heiðrún Lind Marteinsdóttir spyr hvort það sé í raun svo að kynjunum sé mismunað á vinnumarkaði; Bjarni Harðarson dæmir nýútkomna bók Steingríms J. Sigfússonar og sést af því að Þjóðmál fara aðeins aðra leið en Morgunblaðið sem vitanlega fékk Andra Snæ Magnason til að dæma bókina; Snorri G. Bergsson sagnfræðingur segir frá fyrsta Rússagullinu; annar sagnfræðingur, Gústaf Níelsson, skrifar um bók Guðna Th. Jóhannessonar, Óvini ríkisins; Ragnheiður Elín Árnadóttir segir kost og löst á bók Margrétar Frímannsdóttur, Stelpunni frá Stokkseyri; og þannig mætti lengi telja. Þjóðmál fást í Bóksölu Andríkis, bæði í áskrift sem og stök hefti. Fjögur hefti í áskrift kosta aðeins kr. 3.500 og er sendingargjald innanlands innifalið.