Miðvikudagur 14. mars 2007

73. tbl. 11. árg.

Vonandi fara fleiri og fleiri að gera sér grein fyrir því, að svo gæti farið að vinstristjórn tæki við völdum á Íslandi eftir tvo mánuði, ef ekki fyrr. En þó mörgum virðist enn ókunnugt um þessar óálitlegu horfur, þá eru þeir til sem skilja sólarmerkin. Meðal þeirra er Morgunblaðið sem sér af reynslu sinni að vinstristjórn vofir yfir. En af því að Morgunblaðið er orðið eins og það er orðið þá fyllist það ekki kvíða heldur spenningi! Og yfir hverju ætli spenningurinn sé?

Jú, mikið rétt. Morgunblaðið ímyndar sér strax að ríkisstjórn vinstriflokkanna yrði að meirihluta til skipuð… Konum. Að vísu er það svo, að engar líkur eru á því að svo færi, en þessi fjarlægi möguleiki gerir það að verkum að Morgunblaðið ræður sér varla af spenningi. Konur, Konur, Konur.

Og Morgunblaðið er orðið þannig að það er ekki lengur af einhverjum jafnréttisástæðum sem það iðar í skinninu að fá konur til valda. Nei, nei. Konurnar eru miklu betri og heiðarlegri en karlmennirnir. Í alvöru talað, blað sem lengi vel var jarðbundið og skynsamt þegar kom að stjórnmálaskrifum segir í ritstjórnargrein í gær hreint út að ríkisstjórn, full af vinstrikonum, yrði heiðarlegri og „faglegri“ en aðrar. En það er ekkert varið í vinstrikarlana heldur, þeir virðast að mati blaðsins vera jafn ómögulegir og aðrir karlar. Eða svo vitnað sé beint í blaðið, svo ekkert fari milli mála:

Konurnar eru líklegri til að vera faglegri í störfum sínum og ekki jafn reiðubúnar til þess að taka þátt í baktjaldamakki og karlarnir. Þær eru líklegri til að fylgja settum reglum en karlarnir.

Svo eru einhverjir hissa þegar Vefþjóðviljinn kallar Morgunblaðið dagblaðsútgáfu Veru.

Nú fara menn líka að skilja betur ráðleggingar Morgunblaðsins til Sjálfstæðisflokksins undanfarin misseri. Morgunblaðið hefur fyrst og fremst ráðlagt Sjálfstæðisflokknum að færa sig meira inn á miðjuna því þar sé fylgið. Það breytti engu um þessar ráðleggingar að Sjálfstæðisflokkurinn fékk eina verstu útkomu sína í sögunni í borgarstjórnarkosningum á síðasta ári eftir að hafa hlaupið bleiknefjaður inn á miðjuna. Á miðjunni sitja nú tveir flokkar, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin, rúnir trausti kjósenda. Kjósendur hafa líklega aldrei haft minni áhuga á miðjunni. Í öðru lagi hefur Morgunblaðið ráðlagt Sjálfstæðisflokknum að gera hlut kvenna í forystu flokksins meiri því konur ráði úrslitum í kosningunum. Eini flokkurinn sem kona leiðir, Samfylkingin, er í frjálsu falli í skoðanakönnunum og hefur verið það síðan konan leysti karl af sem formaður. Í þriðja lagi hefur Morgunblaðið skorað á Sjálfstæðisflokkinn að svara kalli um grænar áherslur eins og það sé eitthvað sérstakt upp á flokkinn að klaga í þeim efnum. Í gær birti Fréttablaðið skoðanakönnun sem sýnir að það er lítill áhugi á framboði hægri grænna og eiginlega engir Sjálfstæðismenn hefðu áhuga á slíku framboði. Jafnvel þótt það liggi fyrir að framboðið verði leitt af fyrrverandi framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins sem Morgunblaðið kallar hina „ungu konu“ í leiðurum sínum en Margrét Sverrisdóttir kemst ekki á sextugsaldurinn fyrr en á næsta ári.

Ætlar Morgunblaðið að taka Sjálfstæðisflokkinn með sér í fallinu?