Þriðjudagur 13. mars 2007

72. tbl. 11. árg.

Í

„…allt þetta samkeppnishjal t.d. í símaþjónustu er meira og minna bull.“ Steingrímur J. var ekki bara á móti bjórnum og frjálsu útvarpi.

alþingiskosningunum nú í maí munu tæplega eittþúsund kjósendur, sem fæddir eru eftir að bjórbanni var aflétt á Íslandi, eiga þess kost að greiða atkvæði. Sömuleiðis munu yfir 10 þúsund einstaklingar vera á kjörskrá sem fæddust eftir að útvarpsrekstur var gefinn frjáls með afnámi einokunar Ríkisútvarpsins. Verður þetta í fyrsta sinn sem kjósendur fæddir eftir að þessi mál komust í höfn, eftir langa og stranga fæðingu, fá tækifæri til að hafa áhrif á landsstjórnina. Vafalaust ganga einhverjir þessara nýju kjósenda að því sjálfgefnu að hver sem er geti rekið útvarpsstöð og drukkið sinn bjór í friði. Flestum þætti annað fjarstæða.

En í kosningunum mun þeim þó gefast kostur á því að greiða flokki atkvæði sem lýtur forystu manns sem hvorki vildi leyfa Íslendingum að drekka bjór né reka útvarpsstöð. Og svo heppilega vildi til að hann var sestur á þing löngu áður þessi mál komu þar til umræðu. Menn geta því kynnt sér greindarlegar ræður hans um þau. Raunar munu yfir 20 þúsund kjósendur verða á kjörskrá í vor sem voru ekki fæddir þegar Steingrímur J. Sigfússon hóf þaulsetu sína þar vorið 1983. Það var sama ár og Yuri Andropov leiðtogi Sovétríkjanna bauð skólastúlku frá Maine til Moskvu eftir að hún skrifaði honum bréf og lýsti áhyggjum sínum af kjarnorkustyrjöld.

Vafalítið telja einhverjir það sömuleiðis ómark að tína til mál frá níunda áratug síðustu aldar til að nudda Steingrími upp úr. Við því er ekki annað að gera en að skoða nýrri mál. Fyrir um 10 árum kom til kasta Alþingis afnám einokunar ríkisfyrirtækisins Pósts og síma á símaþjónustu. Steingrímur lýsti við það tækifæri skoðun sinni á samkeppni í fjarskiptum.

Af hverju er það ekki pólitískt markmið og keppikefli allra hugsandi manna að verja það eins og kostur er, að við getum haldið áfram að byggja upp og þróa nútímaleg fjarskipti og póstsamgöngur í gegnum eina sterka einingu sem við eigum og ráðum sjálfir af þessu tagi?

Já hér spyr Steingrímur til hvers í veröldinni þurfti eitthvað meira en eina lausn í fjarskiptum, eina sterka einingu, einn ríkissíma. Og eðlileg ályktun hans til þingheims í framhaldinu er auðvitað:

Það er alveg morgunljóst að aðstæður á Íslandi eru þannig að allt þetta samkeppnishjal t.d. í símaþjónustu er meira og minna bull.

Samkeppnin er bara bull, alveg eins og stemmningin á flokksþingi VG um daginn. En verði þau ósköp yfir menn að koma þá skal sko aldeilis taka á þeim sem voga sér að bjóða neytendum upp á símtöl:

Herra forseti. Ég vil svo gera hér að umtalsefni aðeins einn þátt í þessu máli og hann varðar spurninguna um þær reglur, þau skilyrði sem lögð verði á þá aðila sem hyggjast þá fara að veita þjónustu á þessu sviði þegar og ef það verður opnað upp fyrir svokallaðri samkeppni. Verði þau ósköp yfir menn að koma, þá skiptir náttúrlega alveg úrslitamáli hvernig leikreglur verða þá lagðar til grundvallar þeirri starfsemi.

Steingrímur fylgdi svo sannfæringunni um ríkisreksturinn auðvitað þegar ríkisbankarnir voru seldir fyrir nokkrum árum. Sömu sögu var að segja af afstöðu hans til sölu á Símanum.

Þegar á það er litið að um þessar mundir bætast svo við hugmyndir Steingríms um netlögreglu sem eltast á við dónaskap og fleira á lýðnetinu og jafnréttislögreglu með ótakmarkaðar rannsóknaheimildir er óskiljanlegt að sagan hafi ekki sýnt þá smekkvísi að hafa upphaf þingmennsku Steingríms ári seinna. Það hefði farið eitthvað svo vel á því.