Miðvikudagur 7. mars 2007

66. tbl. 11. árg.

Í vikuritinu Krónikunni er forvitnileg umfjöllun um það hvaða þingmenn studdu Kárahnjúkavirkjun og hverjir gerðu það ekki. Frumvarpið um að heimila Landsvirkjun að fara út í Kárahnjúkavirkjun vegna stóriðjuframkvæmda var samþykkt vorið 2002 með 44 atkvæðum gegn 9. Einungis tveir af þingmönnum Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn virkjuninni, en tólf voru hlynntir því að virkja við Kárahnjúka.

Þingmenn Samfylkingarinnar sem studdu Kárahnjúkavirkjun voru Bryndís Hlöðversdóttir, Einar Már Sigurðsson, Gísli S. Einarsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Kristján L. Möller, Jóhann Árssælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Karl V. Matthíasson, Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir og Össur Skarphéðinsson. Þetta kemur sjálfsagt mörgum á óvart miðað við málflutning Samfylkingarinnar nú.

Ástæða er til að rifja líka upp að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður flokksins greiddi einnig atkvæði með Kárahnjúkavirkjun. Hún gerði það að vísu ekki á Alþingi enda sat hún þá í borgarstjórn. En þó að hún hafi ekki verið á Alþingi er ábyrgð hennar ekki minni en þingmannanna. Málflutningurinn nú bendir vissulega ekki til þess að Ingibjörg Sólrún hafi greitt atkvæði með því að í virkjunina væri ráðist en það er staðreynd engu að síður.

J óhann Ársælsson þingmaður Samfylkingarinnar er nefndur víðar í Krónikunni en í upptalningu á stuðningsmönnum Kárahnjúkavirkjunar og ekki í ómerkilegra samhengi. Nefnt er að hann hafi „látið raka af sér allt „Lenín“ skeggið“ og gárungarnir eru sagðir spyrja hvort hann sé að laga sig að útliti nýrra jafnaðarmanna. Ekki treystir Vefþjóðviljinn sér til að svara gárungunum, en spyr á móti hvort gárungarnir geti ef til vill fundið svarið með því að nudda „Lincoln“ skeggið aðeins betur.

O g fyrst minnst er á Lenín þá verður vart hjá því komist að minnast helsta aðdáanda hans í stjórnmálunum hér á landi, Lúðvík Geirsson leiðtoga Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Lúðvík, sem væntanlega telst til skegglausra nýrra jafnaðarmanna, lýsti því yfir í blaðaviðtali fyrir nokkrum árum að Lenín væri sá stjórnmálamaður sem hann hefði mest álit á. Hann hefur kannski bara ruglað honum saman við Lincoln út af skegginu.