Íkastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi voru staddir þeir Guðmundur Steingrímsson harmonikkuleikari og Illugi Gunnarsson píanóleikari og ræddu málin undir stjórn Þórhalls Gunnarssonar leikara. Guðmundur reyndist mikill áhugamaður um nýja vinstristjórn – að því tilskildu að hún yrði frjálslynd – og nefndi í því sambandi að síðasta vinstri stjórn, sú sem lét af völdum 1991, hefði verið hin besta ríkisstjórn sem meðal annars sæist af því að hún hefði „leyft bjórinn“. Það var auðvitað fallega gert af umræddri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar að leyfa bjórinn. Ekki síst þar sem bjórfrumvarpið, lögin sem leyfðu bjórinn, varð að lögum 10. maí 1988, í valdatíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Vinstri stjórnin, þessi sem leyfði bjórinn, hún tók ekki við völdum fyrr en tæplega hálfu ári síðar.
Annars er krafa Guðmundar um vinstri stjórn, með því skilyrði að hún verði frjálslynd, mjög skemmtileg. Hún er svipuð og maður samþykkti að vatni yrði veitt um landareign hans – með því skilyrði að það rynni upp í móti.
Frjáslyndi flokkurinn heldur mikla ráðstefnu í dag. Þangað ætla allir helstu menn að mæta enda hafa frjáslyndir auglýst ráðstefnuna dag eftir dag með stórum auglýsingum í blöðunum. Þarna munu tala menn eins og Þorvaldur Gylfason og Stefán Ólafsson og eru þá önnur skemmtiatriði óþörf. Ráðstefnan mun verða Frjáslynda flokknum mikil lyftistöng og kraftmikið högg á keppinauta þeirra í Frjálslynda flokknum, sem mikilvægt er að rugla ekki saman við Frjáslynda. Nóg er ruglið samt í þessum herbúðum.
Og fyrst minnst er á sérkennilegar samkomur. Á dögunum var haldinn fundur um hugsanlegar virkjanir í Þjórsá og höfðu fréttamenn ótal margt að segja um fundinn. Enginn þeirra sagði þó neitt í líkingu við það sem Birgir Dýrfjörð, flokksstjórnarmaður í Samfylkingunni, sagði um fundinn í grein í Morgunblaðinu skömmu síðar. Og enginn hefur vitnað til greinar Birgis, þrátt fyrir að fjölmiðlar hafi haft mikinn áhuga á fundinum allt þar til grein Birgis birtist. Í henni sagði Birgir:
Efst á baksíðu Morgunblaðsins 12. febrúar var fjögurra dálka fyrirsögn yfir frásögn af „fundi“ í Árnesi. Fyrirsögnin var „Virkjunaráformum í Þjórsá harðlega mótmælt“. „Fundinn“ sóttu að sögn blaðsins um 400 manns. Hafi þessi frásögn blaðsins átt að vera frétt þá vil ég gjarnan koma á framfæri þeirri ábendingu að í hana vantaði veigamiklar upplýsingar um að þarna var frekar um að ræða samkomu að hætti trúfélaga en fund í lýðræðisríki. Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins 12. febrúar var frá því sagt að Landsvirkjun óskaði eftir að mega upplýsa fundarmenn um hvernig hún hygðist standa að verki. Því var alfarið hafnað. Líklega til að koma í veg fyrir að „sá svarti sjálfur“ gæti ruglað söfnuðinn. Að sögn útvarpsins var fundarmönnum boðið að tjá sig í tvær mínútur um fundarefnið, en tekið fram að þeir einir fengju orðið, sem væru andvígir virkjunum!
Að lokum var afgreidd ályktun frá fundinum. Fundarstjóri tók fram þegar hann kynnti ályktunina að heimilt væri að afgreiða hana með lófaklappi og hafði hann tæpast sleppt orðinu þegar reykvísku safnaðarbræðurnir á fremsta bekk lyftu höndum og lófaklappið dundi. Þannig var komið í veg fyrir hugsanleg mótatkvæði eða hjásetu og meintur „einhugur fundargesta gulltryggður“. Satt best að segja þá er svona uppákoma miklu nær því að vera iðkun átrúnaðar en fundur frjálsborins fólks. |