Föstudagur 2. mars 2007

61. tbl. 11. árg.

Þ

Borgarstjóri og aðrir forsvarsmenn R-listans í umhverfismálum borgarinnar gerðu ekkert til að draga úr svifryki frá gatnakerfi borgarinnar. Ekkert.

ar sem er vilji þar er vegur, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi borgarstjóri nýlega þegar hún tók þátt í að hindra för nokkurra ferðamanna sem væntanlegir voru til landsins.

Í borgarstjóratíð hennar og í formannstíð hinna vinstrigrænu Katrínar Jakobsdóttur og Árna Þórs Sigurðssonar í umhverfisráði borgarinnar varð fyrirbærið svifryk þekkt meðal borgarbúa. Það var ekki aðeins vegna þess að borgarbúar hefðu svifrykið reglulega fyrir augunum og öðrum skilningarvitum heldur einnig vegna þess að borgarfulltrúar R-listans voru sífellt fjasandi um svifryksvandann, sótbölvandi einkabílunum sem þeir kenndu um hann og berjandi sér á brjóst sem umhverfisverndarsinnar.

En þeir gerðu hins vegar aldrei neitt til að ráða bót á vandanum svonefnda.

Á 12 ára valdatíð R-listaflokkanna varð aldrei til vilji til að losna við rykið. Götur borgarinnar voru áfram rykugar. Það eina sem vinstriflokkarnir í R-listanum buðu upp á var hatur á einkabílnum sem var ekki mjög vænlegt á sama tíma og bílum fjölgaði mjög mikið og umferð þyngdist. Þeir bara sáu ekki umferðina fyrir bílunum.

Lengi vel komust þeir líka upp með að láta eins og rykið kæmi úr bílunum þótt öllum mætti var ljóst að svo var ekki. Vefþjóðviljinn hefur til að mynda hvatt til þess í mörg ár að borgaryfirvöld hætti að ólmast í bíleigendum og þrífi þess í stað göturnar sem þeim er treyst fyrir. Úr því að borgarstjórn sér um gatnakerfið má gera þá kröfu til hennar að göturnar séu ekki helsta uppspretta sóðaskapar í borginni.

Fyrir nokkrum árum lágu svo fyrir rannsóknir sem sýndu að aðeins 7% svikryksins var ættað úr púströrum bíla en 55% var uppspænt malbik og 36% jarðvegur og selta. En jafnvel þessar afgerandi niðurstöður um uppruna svifryksins komu R-listaflokkunum ekki af stað með götusópana. Borgarbúar þurftu að bíða kosninga og þess að nýr meirihluti leysti vinstriflokkana af hólmi.

Í vikunni gripu ný borgaryfirvöld svo til þess ráðs að hreinsa göturnar sérstaklega og úða þær með rykbindiefni. Veður var bæði stillt og kalt, sem eru kjöraðstæður fyrir svifrykið eins og sást fyrstu daga vikunnar. Ýmislegt bendir til að þetta hafi borið árangur þótt menn megi ekki ofmetnast af einni tilraun. Dagana fyrir þennan kuldakafla hefði svo vissulega mátt nýta betur til að þvo helstu umferðaræðar með vatni. Aðalatriðið er þó að nýr borgarstjórnarmeirihluti hefur ákveðið að taka ábyrgð á götum bæjarins og gera tilraunir til að halda þeim hreinum eða að minnsta kosti sjá til þess að rykið þyrlist ekki upp aftur og aftur.

Ef Ingibjörg Sólrún, Katrín Jakobsdóttir og Árni Þór Sigurðsson færu enn með völd í borgarstjórn og umhverfisráði Reykjavíkur er hins vegar hætt við að þar sem er vegur væri enginn vilji.