Ég hef ævinlega reynt að leggjast gegn því að menn fjölluðu um þetta mál í svarthvítum litum. Hlypu ofan í skotgrafirnar og væru annað hvort 100 % með eða 100 % á móti. … Fyrir mér hefur þetta mál tvær hliðar, eins og öll önnur. Aðra slæma og hina sem er ekki eins slæm. |
– Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi, að ræða um tillögu þess efnis að Íslendingum skyldi leyft að kaupa sér bjór í heimalandi sínu. |
Ídag eru 18 ár liðin frá því Íslendingum var leyft að kaupa sér áfengan bjór, annars staðar á Íslandi en í Fríhöfninni. Sú frelsisaukning gekk auðvitað ekki átakalaust, enda töluðu forræðishyggjumenn á þingi harðlega gegn henni. Steingrímur J. Sigfússon, sá sami og áður hafði greitt atkvæði gegn því að aðrir en ríkið mættu senda út sjónvarp og útvarp á Íslandi, taldi til dæmis að málið hefði ekki eina hlið, heldur tvær misslæmar. Og þar talaði hann ekki bara út í loftið heldur að hugsuðu máli:
Ég hef til viðbótar pólitískar ástæður fyrir því að ég vil ekki standa að breytingum í áfengismálum né annars staðar sem gera fólkið óvirkara og sljórra gagnvart umhverfi sínu. Það tel ég að stóraukin neysla bjórs, jafnvel þó að eitthvað dragi úr neyslu annarra áfengistegunda, mundi gera. |
Það er ekki einungis að menn verði sljóir af bjórdrykkju. Jafnvel einarðir snyrtipinnar verða allir útslettir. |
Steingrímur J. Sigfússon sá það nefnilega af skynsemi sinni að ef ekki yrði haft vit fyrir vitleysingunum, kjósendum hans, þá myndu þeir bara fara og fá sér bjór og verða strax „sljórri fyrir umhverfi sínu“. Meira að segja þó eitthvað myndi draga úr neyslu annarra tegunda þá myndi það engu breyta, það yrði einfaldlega að banna þennan bjór svo fólk hætti ekki að hugsa í landinu.
Og hann virðist hafa orðið sannspár. Bjórinn var leyfður og alltaf er Steingrímur J. Sigfússon endurkjörinn á þing. Samkvæmt skoðanakönnunum ætlar fimmti hver maður að kjósa sósíalistaflokk Steingríms J. Sigfússonar í næstu alþingiskosningum. Það hefði aldrei átt að leyfa fólki að kaupa þennan bévítans bjór.
Það var framtíðarinnar tákn, að á sínum tíma var Geir H. Haarde einn flutningsmanna frumvarpsins um að fólk skyldi sjálft fá að ráða því hvort það keypti sér bjórglas, en Steingrímur J. Sigfússon einn hatrammasti andstæðingur þeirrar frjálshyggjufirru. Átján árum síðar eru þeir í raun líklegustu forsætisráðherraefni landsins. Hvernig getur það val vafist fyrir fólki?