Menn hafa ýmsar aðferðir til að mæla fátækt og misskiptingu. Flestar hafa þær kosti og galla og allar eiga þær það sammerkt að segja ekki alveg alla söguna. Og svo má að sjálfsögðu oft túlka niðurstöðurnar með ýmsum hætti. Fjölmiðlar hafa sýnt mælingum, niðurstöðum og fullyrðingum Stefáns Ólafssonar prófessors, Þorvaldar Gylfasonar prófessors, Hörpu Njáls og fleiri á fátækt mikinn áhuga undanfarin ár. Þó misstu þeir flestir áhugann á niðurstöðum Hörpu um árið þegar einhver álpaðist til að lesa bók hennar um efnið og það spurðist út að hún hafði dirfst að halda því fram að skömmu eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði tekið við sem borgarstjóri hefði borgin þrengt svo að hópi fátækra að hann hefði misst af góðærinu í landinu og þurft að leita til góðgerðarstofnana um nauðþurftir.
Birgir Ármannsson þingmaður vekur athygli á því að vef sínum að fjölmiðlar virðist nú bregða út af vanabundnum áhuga sínum á fátækt með því að gefa niðurstöðum nýrrar skýrslu Hagstofu Íslands um lágtekjumörk og tekjudreifingu á árunum 2003 til 2004 lítinn gaum. Þessar niðurstöður birtust í Hagtíðindum og eru hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins sem einnig nær til EFTA landanna.
Merkilegustu niðurstöður skýrslunnar eru að hlutfall þeirra heimila á Íslandi sem eru fyrir neðan lágtekjumörk er með því lægsta sem gerist í Evrópu og einnig að misskipting tekna er minni hér en víðast annars staðar.
Í tilkynningu Hagstofunnar um þessar niðurstöður segir:
Þegar þau 20% landsmanna sem hafa hæstar ráðstöfunartekjur, eru borin saman við þau 20% sem hafa lægstar ráðstöfunartekjur (fimmtungastuðull) árið 2004 kemur í ljós að tekjuhæsti hópurinn var með 3,5 sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti. Gini-stuðullinn, sem sýnir dreifingu ráðstöfunartekna meðal allra landsmanna sem búa á einkaheimilum, var 0,24 árið 2003 og 0,25 árið 2004. Stuðullinn væri 1 ef sami maðurinn væri með allar tekjurnar en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur. |
Af 31 Evrópuþjóð árið 2004 var ein þjóð með lægra lágtekjuhlutfall en Íslendingar, tvær með sama hlutfall en 27 þjóðir voru með hærra lágtekjuhlutfall. Tvær þjóðir voru með lægri fimmtungastuðul en Íslendingar en 28 með hærri stuðul. Loks voru þrjár Evrópuþjóðir með lægri Gini-stuðul en Íslendingar en 27 þjóðir með hærri stuðul |
Hér eru sem sagt farnar þrjár leiðir til að meta stöðu fátækra á Íslandi í samanburði við flest þau lönd sem við berum okkur helst saman við. Niðurstöðurnar eru allar á þann veg að fátækt sé hér minni og tekjudreifing jafnari en í flestum samanburðarlöndunum.
ÍMorgunblaðinu í gær var rætt við nokkra framtaksama kennara í Rimaskóla sem höfðu selt foreldrum barna við skólann hvorki fleiri né færri en níu þúsund kleinur, sem kennararnir höfðu steikt. Þetta höfðu þeir gert vegna væntanlegrar ferðar sinnar til Bretlandseyja, en hún kostar sitt. Eða eins og einn kennarinn sagði: „Við fáum styrk frá stéttarfélagi okkar, Kennarasambandi Íslands, en afganginn þurfum við að fjármagna sjálf.“
Já þetta skiptist þá svona, hluti kemur frá Kennarasambandinu en afganginn þurfa kennararnir að fjármagna sjálfir.
Og hverjir ætli fjármagni Kennarasambandið?