Þ
|
Margs konar frjálslyndi sameinar frjálslynda og vinstri græna, til dæmis áhugi á hertu áfengisbanni. |
ingmaður vinstri grænna, Ögmundur Jónasson, hefur áhyggjur af því að bann við auglýsingum á áfengi sé virt að vettugi. Hann mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum og benti í umræðunni réttilega á að ekki er gott ef lög eru brotin. Það þarf út af fyrir sig ekki að koma á óvart að þingmaður vinstri grænna skuli sjá þá lausn helsta á mögulegum götum í auglýsingabanni að herða á banninu. Þetta er það sjónarmið sem allir hljóta að búast við af þingmanni þessa flokks, enda flokkurinn á þeim stað í pólitíska litrófinu þar sem frelsi einstaklingsins er ekki í hávegum haft, eins og nafn flokksins gefur skýrt til kynna.
Annar flokkur stendur öllu síður undir nafni og í gær vöknuðu enn upp spurningar um það í hverju frjálslyndi Frjálslynda flokksins væri fólgið. Þingmaður flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, kom sérstaklega upp í þessari umræðu til að fagna frumvarpi Ögmundar og lýsti sig hlynntan hertum reglum um áfengisauglýsingar. Ætli frjálslyndi frjálslyndra felist eingöngu í því að fara frjálslega með notkun hugtaka í stjórnmálum?
L íklega er það reyndar fleira sem Frjálslyndi flokkurinn fer frjálslega með en hugtakanotkun. Hann fer líka frjálslega með eigin orð og gjörðir. Valdimar Leó Friðriksson er afskaplega góð viðbót við þingflokk Frjálslynda flokksins, sem eins og kunnugt er tók glaður við þingmanninum þrátt fyrir stóryrði og kröfur um afsögn þegar annar þingmaður kaus að fara öfuga leið. Valdimar Leó gerði eins og góðum þingmanni Frjálslynda flokksins sæmir og ræddi á Alþingi í fyrradag hvort ekki væri ástæða til afsagnar vegna Byrgismálsins svokallaða. Hann lét sem hann teldi rétt að þeir sem bæru ábyrgð á að Byrgið fékk fé úr ríkissjóði tækju ábyrgð á því.
En hvað ætli þingmanninum þyki þá um menn sem ítrekað kröfðust þess að Byrgið fengi aukið fé úr ríkissjóði? Hvað ætli hann segi til dæmis um mann sem flutti breytingartillögu við fjárlög ársins 2004 um að fjárveiting til Byrgisins yrði aukin um 15 milljónir króna, úr 25,7 milljónum í 40,7 milljónir? Og hvað ef sami maður hefði nú einnig krafist þess við afgreiðslu fjárlaga ársins 2005 að Byrgið fengi aukinn stuðning? Ætli slíkur maður verði ekki að segja af sér að mati Valdimars Leós, þingmanns Frjálslynda flokksins.
Telja má víst að Valdimar Leó sér þeirrar skoðunar að þessi maður eigi að segja af sér þingmennsku og gott ef ekki líka formennsku í Frjálslynda flokknum. Og þegar Guðjón Arnar Kristjánsson hefur sagt af sér þessum ábyrgðarstörfum getur Valdimar gefið kost á sér til formennsku á aukalandsfundi Frjálslynda flokksins sem vafalaust verður haldinn í kjölfarið til að auka hróður flokksins.