Laugardagur 6. janúar 2007

6. tbl. 11. árg.

Þ að er skammt stórra högga á milli hjá starfsmönnum hinnar svokölluðu Lýðheilsustöðvar. Á miðvikudag sagði Vefþjóðviljinn frá því að forstjóri stofnunarinnar var í Morgunútvarpi Ríkisútvarpsins að fagna frelsisskerðingu og biðja um hærri skatta, og í gærkvöldi var starfsmaður stofnunarinnar í viðtali á Stöð 2 og fagnaði – jú, nema hvað – frelsisskerðingu. „Við fögnum því að fá svona samræmdar reglur því að þetta hefur svolítið staðið út af í matvælalöggjöfinni. Það eru komnar samræmdar reglur um flest, en nú er þetta loksins komið,“ sagði starfsmaður stofnunarinnar, Elín Guðmundsdóttir. Samræmdu reglurnar snúast um að banna vítamínbætt matvæli á borð við hið stórhættulega Cheerios morgunkorn.

Embættismenn eru oft sagðir faglegastir alls sem faglegt er og helst má ætla af opinberri umræðu að þeir hafi ekki skoðun á nokkrum hlut, fylgi aðeins faglega þeim reglum sem settar hafi verið. En svo kemur reyndar oft í ljós, eins og í þessu tilviki, að starfsmenn stofnana ríkisins eru hreint ekki hlutlausir um þá málaflokka sem þeir fjalla um og virðast oft og tíðum jafnvel enn eindregnari í skoðunum en stjórnmálamennirnir – sem þó eiga eðli málsins samkvæmt að hafa skoðanir og móta reglur.

Lýðheilsustöð virðist sérlega slæm hvað þetta varðar, því að þar á bæ virðast starfsmenn líta svo á að þeir séu í einhverri prívatherferð gegn því sem þeir telja óhollt og um leið í baráttu fyrir alls kyns reglusetningu sem skerðir frelsi hins almenna manns. Þessi maður, sem greiðir reyndar laun þessa fólks og mætti þess vegna njóta nokkurrar samúðar þess, er að því er virðist alls ófær um að sjá fótum sínum forráð þegar kemur að næringarnámi. Og raunar ekki aðeins næringarnámi, heldur flestu því sem viðkemur eigin líkama.

Svo sérkennilegt sem það nú er þá er fjöldi manna á launaskrá hjá hinu opinbera við að segja fólki til um hluti sem ríkið varðar ekkert um. Þetta fólk lítur ekki aðeins svo á að það eigi að gefa mönnum holl ráð eða framkvæma þær reglur sem settar hafa verið, nei, það er friðlaust þangað til boð og bönn eru komin um alla mögulega hluti. Og það er í öngum sínum yfir því að það hafi „staðið út af í matvælalöggjöfinni“ að setja „samræmdar reglur“ um morgunkorn.