Föstudagur 5. janúar 2007

5. tbl. 11. árg.

Í Kópavogi er bæjarstjórn sem hefur það brýna verkefni um þessar mundir að ákveða hvaða lóð verður „endalóð“ í kór. Þetta er mikið verk og merkilegt sem bæjarfulltrúar fjasa um við fjölmiðla.

Fyrir tveimur árum afsannaði borgarstjórn Reykjavíkur helstu kenningar tölfræðinnar þegar hún úthlutaði lóðum með happdrætti við Lambasel. Til happdrættisins efndi hún til að sýna fram á að allir ættu möguleika á lóð í borginni en lóðir höfðu verið naumt skammtaðar um árabil.

Því miður hafa „lóðaúthlutanir“ lent á borði sveitarstjórnarmanna. Líklega kallast þær úthlutanir af einmitt þeirri ástæðu. Bæjarstjórnirnar taka einnig ákvörðun um hvaða lóðum fylgir réttur til að byggja bílskúr og hverju má breyta síðar meir. Þetta verk er ekki í höndum sveitarstjórnarmanna fyrir tilviljun. Þvert á móti hafa sveitarstjórnir keypt land í stórum stíl í þessum tilgangi og tekið eignarnámi ef ekki vill betur til.

Viðskipti með sumarbústaðalóðir eru hins vegar sjaldan nefnd úthlutanir svo dæmi sé tekið. Ekki heldur bílasala. „Bæjarstjórnin úthlutaði þrjátíu jepplingum og sextán litlum fólksbílum í dag. Ellefu jepplingum fylgir réttur til að kaupa fellihýsi. Bæjarstjórnin samþykkti jafnframt 38’’ breytingu á tveimur bifreiðum. Umsækjendur voru 2.367.“

Á meðan stjórnmálamenn sjá um skipulag byggðar sitja menn uppi með úthlutanir í stað venjulegra viðskipta.