Helgarsprokið 7. janúar 2007

7. tbl. 11. árg.

S vona í tilefni þess að hinn kaldhæðni og súpergrömpý doktor House er mættur á skjáinn aftur, er tilvalið að þetta vefrit fjalli ögn um nýru, meðal annars svo fólk komi ekki algerlega af fjöllum þegar horft er á þáttinn. Sömuleiðis er ekki verra að hafa einhverja lágmarkskunnáttu um lífsnauðsynleg líffæri – og hafa blessuð nýrun fengið töluvert minni athygli fjölmiðla en til að mynda lungu, hjarta og lifur.

„Þá nægir að setja auglýsingu í blöðin, „Óska eftir heilbrigðu nýra, verðhugmynd $2.000 – 4.000“ og málið er leyst. Eitt af því fáa sem Íran hefur nefnilega framyfir vestræn samfélög, er að þar er kaup og sala á nýrum ekki ólögleg.“

Við erum flest með tvö nýru, svona þegar allt er eins og það á að vera, og eru þau staðsett í kviðarholinu við hrygginn. Það er óhætt að segja að þau gegni sæmilega mikilvægu hlutverki, lífsnauðsynlegu reyndar. Þau stýra efnasamsetningu blóðs og rúmmáli og þau fjarlægja alls kyns úrgang úr því. Þau stjórna blóðþrýstingi og þau taka þátt í efnaskiptum með ýmsum hætti. Við getum hæglega lifað góðu lífi með aðeins eitt nýra, en ef eitthvað alvarlegt kemur fyrir þau vegna slyss, sýkingar eða annars, sem gerir þau fyrr eða síðar óstarfshæf, þá erum við dauðans matur. Dauðastríð nýrnasjúklinga getur líka verið nokkuð langdregið, því í sumum tilvikum tapa nýrum getu sinni til að sinna sínu verki hægt og bítandi yfir langan tíma. Lífsgæði sjúklingsins minnkar vitaskuld með hverjum deginum sem líður og nýrunum hrakar. Til að halda áfram með slæmu fréttirnar, þá var biðtíminn, í Bandaríkjunum alltént, innan við ár á níunda áratugnum en nú er hann um fimm ár.

Raunar er það nú svo, að það er fullt af fólki með þannig biluð nýru, að eina lækningin er að fjarlægja a.m.k. annað þeirra og setja heilbrigt nýra í staðinn. Það er hreint ekki öfundsverð staða, því að framboðið af heilbrigðum nýrum svarar ekki eftirspurn. Góðu fréttirnar eru, að ef gott nýra finnst, þá er það ekki flóknasta aðgerð í heimi að taka bilaða nýrað út og setja það góða í staðinn. Öllum aðgerðum fylgir jú einhver áhætta, en svona yfirleitt tekst þetta með ágætum. Og það er óþarfi að taka það fram, að þetta breytir öllu fyrir nýrnaþegann. Það er ekki bara að honum líði mun betur, heldur sjálfum dauðanum verið slegið á frest um ár og áratugi.

Ef.

Samkvæmt grein í The Economist dóu rétt rúmlega 4.000 bandarískir nýrnasjúklingar árið 2005 á meðan þeir biðu eftir heilbrigðu nýra. Í þessari grein er þess einnig getið að ef 0,06% heilbrigðra Bandaríkjamanna á aldrinum 19 – 65 ára gæfu annað nýrað, myndu þessir biðlistar hverfa. En flest fólk er ekkert að flýta sér að því að gefa úr sér annað nýrað sísvona. Í flestum tilvikum er um að ræða nýrnagjöf frá einhverjum úr nánustu fjölskyldu. Svo er það líka harðbannað, víðast hvar, að óska eftir nýrum til kaups og þar með að selja nýra úr sér. Maður einfaldlega gefur annað nýrað, eða bara sleppir því og heldur þeim báðum að vinnu í eigin líkama.

Nýra, Íran, Ýran, níra, íranýra, nýranía. Ironía?

Margir nýrnasjúklingar láta sér samt ekki segjast, enda stendur val þeirra á milli þess að a) brjóta lög um verslun með nýru eða b) bíða dauðans. Ekki mjög flókið val. En svarti markaðurinn býður upp á hættur, bæði fyrir kaupendur og seljendur, enda er það helst óprúttnir aðilar sem hagnast á þessu tiltekna banni á viðskiptum með nýru. Æ ömurlegri fréttir, og tíðari, berast vegna svartamarkaðsviðskipta með þetta tiltekna líffæri – örvinglað fólk að kaupa nýru frá hálfgerðum glæpagengjum sem fá jafnvel eyðnisjúklinga í þriðja heiminum til að selja sér þau – og fleira álíka fallegt.

Á meðan sleppa æ eldri og verri nýru í gegnum löglegu síuna á Vesturlöndum, eftir því sem skorturinn eykst. Á sumum stöðum í Evrópu er reynt að leysa þetta á þann hátt, að reikna einfaldlega með því, að þeir sem týna lífinu í bílslysum og þess háttar, hefðu samþykkt að gefa úr sér nýrun, ef þeir væru ekki of dauðir til að tjá sig sérstaklega um það. Þrátt fyrir þessar afar hæpnu forsendur er enn þá mikill skortur á heilbrigðum nýrum.

Nema hins vegar, ef maður er nýrnasjúklingur í Íran, af öllum stöðum. Þá nægir að setja auglýsingu í blöðin, „Óska eftir heilbrigðu nýra, verðhugmynd $2.000 – 4.000“ og málið er leyst. Eitt af því fáa sem Íran hefur nefnilega framyfir vestræn samfélög, er að þar er kaup og sala á nýrum ekki ólögleg. Afleiðingarnar? Það eru engir biðlistar í Íran. Þar er fólk ekki að falla á tíma, bókstaflega, vegna nýrnasjúkdóma.

Þó að Íranir hvetji ekki beint til nýrnaviðskipta, þá fá ákveðin samtök þar í landi, með blessun stjórnvalda, að eiga milligöngu í slíkum viðskiptum. Öryggi seljanda og kaupanda er tryggt. Seljandinn fær greitt í beinhörðum peningum. Kaupandinn fær heilsuna aftur.

Samt er mönnum afar uppsigað við hugmyndina um viðskipti með nýru milli heilbrigðs manns og nýrnasjúklings, sem hefur engu að tapa nema lífinu. Það er þó vonandi svo, að á meðan fréttum af ömurlegum afleiðingum undirheimabrasks með nýru fjölgar og þúsundir sjúklinga deyja á biðlistum, þá opnist augu manna fyrir þessu kosti. Ef bæði kaupandi og seljandi komast ótilneyddir að samkomulagi sín á milli, innan fyrirkomulags sem tryggir öryggi allra, þá er tæpast hægt að sjá nokkra meinbugi á því að færa þessi viðskipti inn fyrir ramma laganna.