A government, big enough to give us everything we want, is a government big enough to take from us everything we have. |
– Gerald R. Ford, 38. forseti Bandaríkjanna. |
S amtíðin einkennist sennilega ekki af stórbrotnum stjórnmálamönnum, þegar brotthvarf Geralds R. Fords af þessum heimi vekur víða þá tilfinningu að horfinn sé einn af stærri gerðinni. Og var hann þó fjarri því að vera sá merkasti í hinni fámennu stétt forseta Bandaríkjanna.
Fords verður þó lengi minnst, en sjálfsagt fremur fyrir það hvernig hann rataði í forsetastól en það hverju hann fékk þar áorkað. Hann reyndi þó sitt til að þoka Bandaríkjunum í rétta átt, en þurfti bæði að glíma við þing í höndum demókrata sem og það andrúmsloft sem magnað hafði verið í tengslum við forvera hans, Richard Nixon, sem hafði bæði með hjálp og hjálparlaust komið sér út úr Hvíta húsinu. Ford átti því örðugt um vik að beita sér fyrir breytingum en varð einkum að berjast fyrir sínum sjónarmiðum með beitingu neitunarvalds gegn axarsköftum þingsins.
Ekki er þó víst að Ford hefði unnið stórvirki í frjálsræðisátt þó hann hefði orðið áhrifameiri forseti. Hann hafði vissulega áhyggjur af útþenslu ríkisins, hve reglur voru yfirgripsmiklar, hindranir víða og skriffinnska mikil. „We…declared our independence 200 years ago, and we are not about to lose it now to paper shufflers and computers“, sagði hann. Hann vildi endurbæta kerfið, en hann skorti hina endurnærandi vantrú Reagans á kerfinu sem slíku; Reagan vefengdi hlutverk ríkisins við að auka velferð borgaranna og varð einn allra besti forseti sem Bandaríkin hafa eignast. Hann hafði einföld og skýr meginsjónarmið og fór eftir þeim en blés óhræddur á ókosna sérfræðinga sem töldu oft sjálfa sig betur að völdunum komna en forsetann.
Gerald Ford virðist hafa verið sómamaður sem vildi verða landi sínu að liði. Hann hefur vafalaust verið nýtur liðsmaður á sínum stað, og skiljanlegt að margir Bandaríkjamenn sjái eftir honum, en þó er það þannig að það eru stjórnmálamenn eins og Ronald Reagan sem samtíðin þarf sárlega. Stjórnmálamenn sem eru í stjórnmálum til þess að fylgja fram eigin grunnsjónarmiðum en ekki sem framkvæmdamenn drauma embættismanna. Sem fylgja skýrri stefnu sem skriffinnar, sérfræðingar og fagmenn geta ekki hrætt þá frá. Menn sem vita að það eru rökin að baki hverri ákvörðun, en ekki það hvað undirbúningurinn var faglegur, sem skiptir máli. Eða með öðrum orðum stjórnmálamenn sem eru stjórnmálamenn en ekki embættismenn.
En þetta er ekki nóg. Þeir þurfa að vera frjálslyndir í besta skilningi orðsins. Ef þeir eru stjórnlyndir þá mega skriffinnarnir eins stjórna.
H vern ætli Morgunblaðið hafi fengið til þess að ritdæma nýja bók Steingríms J. Sigfússonar formanns vinstrigrænna?
Nú auðvitað Andra Snæ Magnason.
Af hverju?
Ómar var upptekinn á skautum á Hálslóni.