Miðvikudagur 27. desember 2006

361. tbl. 10. árg.

H ið opinbera, ríki og sveitarfélög, hefur sterka tilhneigingu til að þenjast út og taka meira til sín bæði af vinnandi fólki og fjármunum. Fáar leiðir virðast færar til að snúa þessari þróun við, þó ekki sé nema tímabundið. Oft er reynt að hagræða í rekstri hins opinbera, breyta rekstrarformi, bjóða út ákveðna þætti starfseminnar, spara krónu hér, aðra þar og svo framvegis. Þó að þetta sé yfirleitt góðra gjalda vert, þá er með slíkum aðferðum ekki hoggið að rótum vandans, aðeins verið að draga úr honum.

Vilji menn takmarka umsvif hins opinbera – en því fer vissulega fjarri að allir stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokkar vilji það í raun – verða þeir að fara út í aðgerðir sem skila árangri, svo sem einkavæðingu og lækkun skatta. Þetta eru þær lausnir á of miklum umsvifum ríkis og sveitarfélaga sem líklegastar eru til að skila langvarandi árangri. Þetta ætti svo sem að vera augljóst, en engu að síður er það svo að í umræðunni rugla menn stundum saman árangursríkum aðgerðum á borð við þessar tvær og miklu veigaminni aðgerðum sem ólíklegt er að skili miklu til lengdar.

Ríkið hefur einkavætt mikið á síðustu árum og nú eru til að mynda langflestir starfsmenn fjármálageirans í vinnu fyrir einkaaðila en ekki ríkið eins og áður var. Þetta hefur bæði orðið til að fækka ríkisstarfsmönnum verulega og fjölga störfum í einkageiranum umfram það sem þeim fækkaði hjá ríkinu. Aðgerðin varð þess vegna til þess að fækka varanlega störfum hjá ríkinu og búa um leið til ný störf hjá einkafyrirtækjum.

En þó að mikið hafi verið einkavætt er það alls ekki svo að verkinu sé lokið. Eitt augljóst dæmi um fyrirtæki sem ætti að einkavæða hið fyrsta er Íslandspóstur, en með einkavæðingu hans mætti færa um tólf hundruð starfsmenn frá ríkinu yfir á einkamarkaðinn. Íslandspósti hefur verið breytt í hlutafélag og Landssíminn, sem þar til fyrir tæpum níu árum var í einni sæng með Póstinum og í eigu ríkisins, hefur verið seldur einkaaðilum.

Mörgum þótti nánast óhugsandi fyrir fáeinum árum að símafyrirtæki væru í eigu annarra en ríkisins, en svo var símafyrirtækið selt og allir héldu áfram að tala í símana sína eða vafra um vefinn eins og áður. Það kom auðvitað í ljós að rétt eins og einkaaðilar gátu sinnt fjármálaþjónustu þá gátu þeir sinnt símaþjónustu. Og einkaaðilar geta líka sinnt póstþjónustu, enda eru þegar starfandi einkafyrirtæki sem sinna afmörkuðum sviðum póstmarkaðarins.

Erlendis hafa skref í þessa átt verið stigin, sums staðar hratt en annars staðar hægt. Þróunin er hins vegar skýr og í átt til einkarekstrar. Íslandspóstur er að vísu að hluta til undantekning í þessu efni, því að hann keypti nýlega einkafyrirtækið Samskipti sem er í alls ólíkum rekstri, en í nýlegri fréttatilkynningu frá Íslandspósti var verkefnum Samskipta lýst þannig að fyrirtækið bjóði „upp á ýmis konar prentun, hvort sem um er að ræða vinnuteikningar, kynningarefni eða umhverfismerkingar, s.s. á gólf, bíla eða glugga. Þá býður Samskipti einnig upp á lausnir tengdar sýningum, s.s. gerð sýningarveggja og sölu sýningarkerfa.“

Hlutverk Íslandspósts er hins vegar allt annað, en því er lýst þannig: „Hlutverk Íslandspósts er að veita almenna og sérhæfða bréfa- pakka- og sendingaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Fyrirtækið skal veita hverskonar póstþjónustu og hafa á hendi fjármálalega umsýslu á grundvelli laga og reglugerða, sem þar um gilda, reka verslun með varning og búnað, sem tengist starfsemi félagsins, hafa á hendi flutningastarfsemi og fasteignarekstur og lánastarfsemi og reka aðra skylda starfsemi sem nauðsynleg er til þess að tilgangi félagsins sé náð. Félaginu er heimilt að standa að stofnun eða gerast eignaraðili að öðrum félögum, svo og að stofna félag eða félög, sem alfarið verði í eigu þess, til þess að annast ákveðna þætti í starfsemi þess.“ Kaupin á Samskiptum, og þeim þrjátíu starfsmönnum sem þar með fluttust yfir til ríkisins, hljóta að ýta á eftir því að Íslandspóstur verið seldur og eru í raun ágæt áminning um það hversu mikill óþarfi það er að ríkið eigi fyrirtæki af þessu tagi. Með sölu Íslandspósts getur ríkið fært um 1.200 starfsmenn yfir til einkageirans og um leið gert póstþjónustuna hér á landi markvissari.