Föstudagur 29. desember 2006

363. tbl. 10. árg.

Á ramót nýta margir til að gera upp málin; endurmeta, endurnýja, breyta og bæta. Stjórnmálaflokkarnir notuðu til að mynda tækifærið til að setja lög sem frá áramótum banna mönnum að verulegu leyti að afla fjár til stjórnmálastarfsemi. Flokkarnir hétu á sjálfa sig að tækist þeim að hraða slíkum lögum umræðulítið í gegnum þingið á innan við tveimur sólarhringum myndu skattgreiðendur veita þeim veglega umbun. Það tókst og skattgreiðendur láta á annað hundrað milljónir króna til viðbótar af hendi rakna til flokkanna á næsta ári.

Þegar flokkarnir hafa staðið svona að því að láta almenning styrkja sig hlýtur sú spurning að vakna hvort einhver hafi yfirleitt áhuga á að styrkja þá með frjálsu framlagi. Það er eitthvað einkennilegt að styrkja þann sem er þegar búinn að fara í vasann hjá manni og taka það sem honum hentar.
Þeir sem vilja nota áramótin til að hætta reglulegum stuðningi við flokkinn sinn geta sent honum uppsögn á netinu; Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri hreyfingin grænt framboð.

Og er þá ekki rétt að uppsögn áskriftar að þeim fjölmiðlum sem studdu flokkana í þessum leiðangri sínum fylgi með? Að vísu er ekki hægt að segja áskriftinni að Ríkisútvarpinu upp en prentútgáfa þeirra sjónarmiða sem helst heyrast í Speglinum, Víðsjá, Samfylkingunni í nærmynd og öðrum fréttaþáttum Ríkisútvarpsins er nefnd Morgunblaðið.

Þeir sem vilja nota tækifærið til að styrkja útgáfu og kynningu á Vefþjóðviljanum með reglulegum frjálsum framlögum geta gert það á einfaldan hátt hér. Þeim góða hópi sem hefur gert einmitt það undanfarin ár eru jafnframt færðar bestu þakkir.