Þriðjudagur 26. desember 2006

360. tbl. 10. árg.

Í

Stjórnarskrár Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og Íslands.

Fréttabréfi Heimssýnar á dögunum var vísað á umhugsunarverða mynd. Myndin sýnir stjórnarskrár Evrópusambandsríkisins, Bandaríkjanna og Íslands. Hún þarfnast lítilla útlegginga þessi mynd. Hún segir auðvitað þá sögu, sem allir þekkja nú orðið og flestir viðurkenna að á sér stoð í raunveruleikanum, að Evrópusambandið er hryllilegt skriffinnskubákn. En það er fleira sem má leggja út af þessari mynd. Nú til dags er mikið lagt upp úr svonefndri fagmennsku. Fagmennska, verkferlar, leiðtogafræði, nútímalegir stjórnarhættir hafa leyst almenna skynsemi af hólmi sem helstu stjórntæki fyrirtækja og stofnana.

Það eru vart send út jólakort eða keypt ný kaffivél lengur í fyrirtækjum án þess að kalla til teymi fagaðila sem semur verkferla. En fyrst er auðvitað gerð þarfagreining. Það er venjulega falleg gormaskýrsla á ljótu máli. Ferli, aðili og fag eru ær og kýr þessara fræða. Allra fyrst mætir þó leiðtogafræðingur á staðinn og gerir „svót“ greiningu á verkefninu og segir mannskapnum að sjá ekki vandamál heldur tækifæri. Alnæmi er ekki til í Norður-Kóreu, bara tækifæri.

Í grunninn virðist þessi fagmennskuþörf vera ótti við hið ófyrirséða, hræðsla við óvænt atvik. Forstjórinn getur ekki hugsað sér að að sú staða komi upp að ekki hafi verið gerð þarfagreining á málinu þegar það verður vandamál. Þá lítur hann kannski út eins og asni á næsta stjórnarfundi .Þessi vandamálafælni gengur jafnvel svo langt að sjálfu orðinu vandamál er afneitað. Við erum svo hrædd við myrkrið að við köllum það ljós.

Þessi ótti leiðir til þess að ekkert er lengur sagt án þess að því fylgi þarfgreining.

Í 74. grein stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir: „Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.“

Þetta er nokkuð skýrt og skorinort. Þarna koma menn sér að kjarna málsins og treysta að mestu leyti á almenna skynsemi við túlkun greinarinnar. Greinin býður hins vegar upp á óendanlega mörg ófyrirséð atvik. Ætli menn sér að taka á þeim öllum er hætt við að lopinn teygist í það óendanlega. Stjórnarskrá Evrópusambandsins virðist mörkuð af þessum ótta við hið óvænta. Í aðra röndina er þessi ótti þó ekkert annað en stjórnsemi. Menn vilja hafa alla þræði í hendi sér og eiga ekkert undir tilviljunum komið.

Þessi stjórnsemi leiðir á endanum til þess að enginn getur eða þorir að gera neitt nýtt. Allt er steypt í sama mót með þarfagreindum tilskipunum og stöðluðum verkferlum. Það er kannski engin tilviljun að það verða ekki til ný störf í Evrópusambandinu og milljónir manna mæla göturnar.