Það er líka eftirtektarvert hvers vegna aldrei var gert neitt veður út af hersetunni á Keflavíkurflugvelli þegar þeir, sem seinna urðu forystumenn Vinstri grænna, sátu í ríkisstjórn. Hefði það ekki átt að vera forgangsatriði að selja aldrei sannfæringu sína? Við í Alþýðubandalaginu vorum svo sem heldur engir sérstakir talsmenn umhverfismála. Ég man ekki til þess að Alþýðubandalagið í ríkisstjórn legði áherslu á umhverfismál. Umhverfisráðuneytið var fyrst og fremst stofnað til þess að búa til fleiri ráðherrastóla og styrkja ríkisstjórnina með aðild Borgaraflokksins. |
– Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, Stelpan frá Stokkseyri bls. 226, Akureyri 2006 |
S telpan frá Stokkseyri er mætt, skrifaði Stefán Jón Hafstein í Dag fyrir alþingiskosningarnar vorið 1999, þegar Samfylkingarmaður gekk undir manns hönd til að sannfæra landsmenn um að einungis vantaði herslumuninn til þess að þáverandi talsmaður Samfylkingarinnar yrði fyrsta konan til að verða forsætisráðherra Íslands. Þær ráðagerðir gengu ekki eftir, og raunar gleymdu Samfylkingarmenn þeim svo gersamlega að fjórum árum síðar héldu þeir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur vera fyrstu konuna sem boðin væri fram til þess embættis. Nú, nær öðrum fjórum árum síðar, er stelpan frá Stokkseyri enn mætt, en í þetta skipti sem aðalpersóna ævisögu sem Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir hefur skráð eftir Margréti Frímannsdóttur. Og í þeirri sögu er margt fróðlegt.
Fyrir áhugamenn um stjórnmál eru frásagnir Margrétar af innanbúðarmálum íslenskrar vinstrihreyfingar vitaskuld forvitnilegastar. Er óhætt að segja að Margrét Frímannsdóttir hefur ekki tómar sældarsögur að segja af kynnum sínum og samstarfi við marga helstu forystumenn vinstrimanna á Íslandi, menn eins og Steingrím J. Sigfússon, Ólaf Ragnar Grímsson og Svavar Gestsson. Þá telur hún sérstaklega ofmetið hversu stjórnmálaflokkurinn Vinstrihreyfingin-grænt framboð sé málefnaleg og fylgin sér; sú hugmynd að vinstrigrænir séu sérstakur hugsjónaflokkur fær hjá þessum gamla formanni Alþýðubandalagsins einkunnina „bull og kjaftæði“.
Líklega mun ýmsum lesendum bregða við lýsingarnar á Steingrími J. Sigfússyni og þeim manni sem hann geymi. Ef marka má lýsingar Margrétar Frímannsdóttur þá er Steingrímur lúsablesi sem lítil ástæða er til að hafa í hávegum. Mógilsármálið svonefnda, þar sem landbúnaðarráðherrann Steingrímur J. Sigfússon sagði forstöðumanni Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins, Jóni Gunnari Ottóssyni, skyndilega upp störfum og lét læsa skrifstofu hans, án þess einu sinni að segja eiginkonu Jóns Gunnars, þingflokksformanni sínum Margréti Frímannsdóttur af því, er auðvitað rakið í bókinni. Margrét segir að Steingrímur hafi sýnt sér yfirgengilega vanvirðu, eins og hún orðar það, og honum hafi einfaldlega ekki þótt hún vera þess virði að hann ætti að láta hana vita af því að hann hefði ákveðið að víkja eiginmanni hennar úr starfi. Þegar svo ríkisendurskoðun hefði svo farið yfir mál Jóns Gunnars og hreinsað hann af öllum ávirðingum hafi Steingrímur ekki einu sinni hringt í þau Margréti, hvað þá beðist afsökunar á nokkrum hlut. Það hafi verið „hreint helvíti“ að sitja þingflokksfundi með Steingrími á þessum tíma.
Mógilsármálið er hreint ekki það eina sem rakið er um sérkennileg samskipti þessara forystumanna vinstrimanna, sem á þessum tíma gegndu háum trúnaðarstöðum á vegum sama stjórnmálaflokksins. Margrét segir að félagar sínir hafi reynt að halda sér niðri og gera lítið úr sér alla tíð frá því hún komst fyrst inn á þing, og skýrir það meðal annars með kynferði sínu. „Þeim þótti kjör mitt þó vera fjöður í hatt Alþýðubandalagsins og alveg í ætt við allar jafnréttistillögur að fá aðra konu inn í þingflokkinn, en það var ekki þar með sagt að gert væri ráð fyrir að ég hefði einhver áhrif“, segir Margrét á einum stað. Raunar koma kynjahugleiðingar Margrétar víða fram, og er merkilegt að lesa að hún gerir mjög lítið úr kenningum um ólíka arma Alþýðubandalagsins, arma sem löngum voru eignaðir annars vegar Ólafi Ragnari Grímssyni og hins vegar þeim Svavari Gestssyni og Steingrími J. Sigfússyni. Margrét telur kynferði fólks hafa skipt miklu meira máli í Alþýðubandalaginu.
Mín tilfinning var reyndar sú að ekki hafi verið neinir sérstakir armar í þingflokknum, einungis bandalag karlkyns flokksmanna, sem stóðu saman þegar á þurfti að halda. … Karlaklíkan réði öllu þrátt fyrir allt tal um armaskiptingu. Alþýðubandalagið var ekki jafnréttisflokkur. … Ég leyfi mér að fullyrða að við konurnar vorum aldrei með í ráðum í neinum stærri málum. Við komumst hreinlega ekki að. |
Árið 1995 hafði Margrét betur í formannskjöri gegn Steingrími J. Sigfússyni. Hún segir að ýmsir stuðningsmanna Steingríms hafi hreinlega neitað að líta á hana sem leiðtoga sinn og unnið markvisst gegn henni. Í bókinni segir Jón Gunnar, eiginmaður Margrétar, meðal annars:
Andstaðan við hana í þingflokknum varð mjög mikil. Í raun var meirihluti þingflokksins á móti sínum formanni og vann gegn honum eins og hægt var. Magga átti mjög erfitt uppdráttar á þessum tíma og henni var sýnd ótrúleg lítilsvirðing. Ég hafði verið í Alþýðubandalaginu áratugum saman en aldrei upplifað annað eins. Andstaðan átti sér ýmis birtingarform, en einkum í því að þeir reyndu að hunsa hana og hennar störf fremur en þeir væru með beinar svívirðingar eða árásir á hana. Kannski lagði hún fram tillögu sem var felld af þingflokknum, en svo kom annar þingmaður og lagði fram sömu tillögu, sem var umsvifalaust samþykkt! Konan mín er mjög sterk, en ég hef aldrei séð hana jafn brotna og þegar hún kom heim af þingflokksfundum, sérstaklega fyrst eftir að hún tók við formennskunni. Stundum var hún grátandi. |
Þær eru ófáar, sláandi lýsingarnar í Stelpunni frá Stokkseyri. Hitt er sjálfsagt að hafa í huga, að í bókinni talar stjórnmálamaður um pólitíska andstæðinga, sem eru ekki til svars á þeim vettvangi. Vel má vera að þeir gæfu gerólíka lýsingu á málavöxtum ef þeir yrðu spurðir. Sama mætti segja um stuðningsmenn þeirra, en einn slíkur skrifaði einmitt grein í Lesbók Morgunblaðsins á dögunum og sagði sína menn óþekkjanlega af lýsingum Margrétar. Það er hins vegar ekki svo, að Margrét sendi öllum tóninn í bókinni. Raunar er áberandi að hefðbundnir stjórnmálaandstæðingar af hægri vængnum fá ekki kaldar kveðjur nema síður sé og sumum af samstarfsmönnum sínum úr Samfylkingunni ber Margrét mjög vel söguna, einkum Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrrverandi alþingismanni. Henni virðist fremur hlýtt til Össurar Skarphéðinssonar en virðist ekki hafa gefist tóm til að fagna formennsku Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Samfylkingunni neitt sérstaklega.
Þeir sem lítinn áhuga hafa á stjórnmálauppgjörum geta fundið margt annað í bók Margrétar Frímannsdóttur. Flókin fjölskyldutengsl, hjónaband, skilnaður og nýtt tilhugalíf og síðar erfið veikindi eru rakin, að því er virðist af hispursleysi, og vafalaust að muni höfða til margra lesenda.