Helgarsprokið 12. nóvember 2006

316. tbl. 10. árg.

T ólfta árið í röð hefur Endurskoðunarréttur Evrópusambandsins neitað að undirrita reikninga sambandsins fyrir síðasta fjárlagaár. Athugasemdir Endurskoðunarréttarins snúa að aðildarríkjunum og framkvæmdastjórn sambandsins og snýr gagnrýnin bæði að óreiðu og skipulagsleysi bókhalds Evrópusambandsins. Hluti óreiðunnar er síður alvarlegur og er vegna ófullkominna fylgiskjala en stór hluti óreiðunnar á rætur að rekja til þess að víða er svindlað með miðla Evrópusambandsins eins og alkunna er.

„…um helmingur nautgripa slóvenskra bænda, sem þáðu niðurgreiðslur frá ESB, reyndust ekki vera til og átti það sama við um fjórðung geita og sauðfjár.“

Málið er eins alvarlegt og það hljómar þótt ýmsir reyni að gera lítið úr því. Enda er hlutverk Endurskoðunarréttarins að gera óháða úttekt og endurskoðun á heildarútgjöldum og -tekjum Evrópusambandsins og ber honum að leggja dóm á hvernig stofnanir sambandsins gegna skyldum sínum. Hann gengur úr skugga um að greiðslur, reikningar, stjórnun og útboð séu rétt færð og í samræmi við reglur og fjárlög og hann sendir síðan skýrslu til Evrópuþingsins. Réttinum ber jafnframt að kanna hvort fylgt hafi verið meginreglum um sparsemi og arðsemi og hann samanstendur af einum aðila frá hverju aðildarríki.

Það er ekki um neinar smáfjárhæðir að ræða. Ársreikningurinn fyrir 2005 er upp á um það bil 9.150 milljarða íslenskra króna. Stór hluti útgjaldanna eru styrkir til landbúnaðarmála og svæðisbundnir styrkir. Sumir hafa viljað fría Evrópusambandið ábyrgð með því að benda á að það feli aðildarríkjunum að sjá um greiðslu um 75% útgjalda fyrir sína hönd. Það er auðvitað bara fyrirsláttur enda hlýtur Evrópusambandið að vera ábyrgt fyrir reikningum sínum eins og hvert annað ríki eða fyrirtæki. Það er Evrópusambandsins að finna upp leiðir til að laga það sem aflaga hefur farið og það á ekki að taka yfir áratug.

Ýmsir fylgismenn sambandsins í Evrópu hafa látið hafa eftir sér, að þrátt fyrir að endurskoðendur Evrópusambandsins hafi neitað að skrifa undir reikninga þess, þá hafi orðið miklar framfarir varðandi eftirlit með fjárhirslunum. Þannig séu 59% greiðslna til styrktar landbúnaðinum flekklausar og fagna fylgismenn Evrópusambandsins því sérstaklega. Ef við gerum ráð fyrir að það sé rétt, þá eru hnökrar við að minnsta kosti 41% greiðslna til landbúnaðarins í Evrópusambandinu. Mikil spilling og misnotkun á sér stað í kerfinu og veitir Evrópusambandið styrki til alls kyns landbúnaðarframleiðslu sem í raun er ekki til. Þannig hefur til dæmis komið fram að eftirlitsmenn hafi komist að því að um helmingur nautgripa slóvenskra bænda, sem þáðu niðurgreiðslur frá ESB, reyndust ekki vera til og átti það sama við um fjórðung geita og sauðfjár. Gífurlegt ósamræmi hefur jafnframt uppgötvast varðandi 2/3 hluta 95 vegaframkvæmda sem kostaðar eru af Evrópusambandinu í aðildarríkjunum. Því hefur jafnvel verið haldið fram að það séu meiri eða minni vankantar í tengslum við 2/5 greiðslna úr sjóðum Evrópusambandsins. Það er óásættanlegt hlutfall fyrir sérhvert fyrirtæki og ríki, svo ekki sé talað um „hálfsambandsríki“ eins og Evrópusambandið. Það er því ljóst að þó að það gangi kannski örlítið betur nú en áður, þá er ekkert skrýtið að endurskoðendur Evrópusambandsins undirriti ekki ársreikningana þar sem um er að ræða óásættanlega meðferð með fjármuni sambandsins – og þar með með fjármuni skattgreiðenda í Evrópu.

 Vegna þess hvernig ESB fer með fjármuni almennings hefur Endurskoðunarréttur sambandsins í tólf ár í röð neitað að undirrita reikninga þess.

Það er auðvitað óafsakanlegt að svo mikill vafi skuli leika um svo stóran hluta ársreiknings Evrópusambandsins. Hver er trúverðugleiki þess þegar þetta gerist 12 ár í röð? Hvernig getur Evrópusambandið gert miklar kröfur um reiðu og spillingarleysi hjá fátækum ríkjum sem þiggja styrki af sambandinu þegar svona illa er staðið að þessum málum hjá sambandinu? Hvað ætli menn segðu nú – ekki síst í Danmörku – ef Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra fengi sambærilega gagnrýni Ríkisendurskoðunar 12 ár í röð? Ljóst að mikið hefur vantað upp á að nægur vilji sé hjá aðildarríkjum sambandsins eða embættismönnum þess til að bæta úr þessari óreiðu eða spillingu. Ekki er hægt að segja að hún sé spennandi sú framtíðarsýn sem sumir bjóða upp á, að Ísland gerist aðili að þessum spillta klúbbi.

Það sem Vefþjóðviljanum þykir þó furðulegast við þetta mál er að fjölmiðlar á Íslandi skuli ekki hafa fjallað meira um það. Þetta er stórmál, ekki síst í ljósi þess að það fer sífellt fram umræða hér á landi um það hvort æskilegt sé að landið sæki um aðild að Evrópusambandinu. Ýmsir gætu nefnilega látið svona „smáatriði“ skipta sig máli, þegar þeir taka afstöðu til sambandsins.

Fyrir þá – til að mynda fjölmiðlamenn – sem vilja kynna sér störf og afstöðu Endurskoðunarréttarins, má til að mynda benda á fréttatilkynningar á heimasíðu hans.