Mánudagur 13. nóvember 2006

317. tbl. 10. árg.

Þ að kom sér vel fyrir fjölmiðlamenn að nógu margir Sunnlendingar kusu Árna Johnsen á ný til stjórnmálastarfa. Annars hefði verið þung þraut að koma niðurstöðu prófkjörs Samfylkingarinnar í Reykjavík undan skærasta kastljósinu. Þar sem hún hefði átt heima.

Það er með ólíkindum að flokkur sem reynir að ímynda sér að hann sé forystuflokkur stjórnarandstöðu í landi þar sem allt sé að fara norður og niður, nái ekki betra prófkjöri en raun ber vitni, eftir meira en áratug í stjórnarandstöðu. Aðeins 4842 sáu ástæðu til þess að ómaka sig á kjörstað hjá Samfylkingunni – og gátu menn þó gert tölvuna sína að kjörstað því einnig var boðið upp á einhvers konar rafræna kosningu. Það er ótrúlega mikið áhugaleysi í sjálfri höfuðborginni og verður enn meira áberandi ef efnt er til samanburðar. Sama dag kaus 5461 í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi, þar sem þó búa mun færri en í Reykjavík. Og í suðvesturkjördæmi voru á laugardaginn 6174 gild atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, sömuleiðis í fámennara kjördæmi en Reykjavík. Og svo nærtækasti samanburðurinn sé tekinn þá kusu 10.846 í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir tveimur vikum – og var það prófkjör þó eingöngu opið flokksbundnum en ekki einnig óflokksbundnum stuðningsmönnum eins og hjá Samfylkingunni.

Þátttakan hjá Samfylkingunni í höfuðborginni var því fjarri því að vera hughreystandi fyrir forystu flokksins. Og sama má segja um niðurstöðuna að því leyti að formaður flokksins náði ekki 70 % atkvæða í fyrsta sæti. Það getur ekki verið beinlínis skemmtilegt að bjóða fram með það í farteskinu að þrír af hverjum tíu stuðningsmönnum vilji ekki að formaðurinn leiði flokkinn í höfuðborginni. Að öðru leyti verður niðurstöðu prófkjörsins lýst með orðunum „engin endurnýjun!“ – en þar er aftur meira álitamál hvort sú lýsing er góð eða slæm fyrir flokkinn. Þó hún sé auðvitað ekki þeim að skapi sem vilja reglulegar breytingar í þingsölum, þá má alveg segja á móti að stuðningsmenn Samfylkingarinnar séu greinilega mjög sáttir og ánægðir með það starf sem þingmenn þeirra hafa unnið á síðustu fjórum árum, og telji aðra flokksmenn ekki líklega til að bæta þar neinu sérstöku við. Og að hálfu leyti getur Vefþjóðviljinn tekið undir það sjónarmið.

Fréttamenn hafa auðvitað fæstir lagt málin svona upp heldur hafa flestir þeirra látið nægja að segja að forystan hafi fengið örugga kosningu. Meginmál fréttatímanna hefur hins vegar verið endurkoma Árna Johnsen í fremstu röð, og vissulega er hún fréttnæm. Þó Árni hafi tekið út sína refsingu og sé fyrir lögum á sama stað og hver ódæmdur og saklaus maður, þá er ekki að efa að endurkoma hans mun vekja blendnar tilfinningar. Þó sumir muni auðvitað líta svo á, að móttökur Árna í prófkjörinu sýni einfaldlega að sjálfstæðismenn séu ekki harðbrjósta heldur þvert á móti fúsir að fyrirgefa, þá er þeir líka margir sem ekkert vilja af þessum stjórnmálamanni vita. Fyrstu afleiðingar endurkomu Árna Johnsen urðu strax í gær, þegar hún bjargaði forystu Samfylkingarinnar frá sviðsljósinu.