Miðvikudagur 8. nóvember 2006

312. tbl. 10. árg.

Þ ó að það hafi ekki verið tekið fram þá hlýtur þáttur Valdísar Gunnarsdóttur á Bylgjunni á sunnudagsmorgun að  hafa verið kostaður af framboði Helga Hjörvar. Annars hefði hann tæplega fengið þá drottningarmeðferð sem raun ber vitni tæpri viku fyrir prófkjör, þar sem vitað er að hart er barist. Vefþjóðviljanum er svo sem sama þótt Helgi hafi fengið blíðar móttökur á besta tíma hjá Valdísi, en þó má segja að það hefði ekki verið verra ef viðtalið hefði verið meira í samræmi við veruleikann.

Valdís og Helgi ræddu meðal annars um R-listann, enda var Helgi einn af hvatamönnum þess samstarfs og síðar borgarfulltrúi. Helgi tók dæmi um hve góðum árangri R-listinn hefði náð á fyrstu tveimur kjörtímabilum sínum en þá vildi svo óheppilega til að hann tók dæmi af verki sem fyrri meirihluti hafði ráðist í. Helgi nefndi hve ánægjulegt hefði verið að bæta holræsakerfið og hreinsa strandlengjuna, en það vill því miður svo til að það verk var hafið áður en R-listinn komst til valda í borginni árið 1994. Eina þátttaka R-listans í því verki var að hætta ekki við áætlanirnar sem lagðar höfðu verið, auk þess að vísu að leggja á sérstakt holræsagjald, sem fyrri meirihluti hafði ekki viljað gera. En auðvitað verða menn að skreyta sig með stolnum fjöðrum hafi þeir sjálfir fátt á afrekaskránni og svo sem ekki ástæða til að gera mikið úr slíkri sjálfsbjargarviðleitni, hún er skiljanleg.

Það sem er síður skiljanlegt við þennan útvarpsþátt er hve eindregna afstöðu þáttarstjórnandinn tók, í sumum tilvikum mun eindregnari en viðmælandinn. Stundum átti þáttarstjórnandinn greinilega erfitt með að hemja sig, og viðurkenndi það reyndar. Hún sagði að hún gæti til dæmis alveg brjálast yfir ýmsu því sem stjórnmálamenn gerðu rangt, eins og til dæmis því að „matarskatturinn“ yrði ekki lækkaður strax heldur snemma á næsta ári. Hún fylltist ekki gleði yfir því að verið væri að lækka „matarskattinn“, nei, hún brjálaðist af reiði yfir að það skyldi ekki gert í gær. Virðisaukaskattur á ýmsan mat er raunar lægri en á flestar aðrar vörur nú þegar svo að „matarskatturinn“ er hálfgerð ímyndun.